Ingibjörg kjörin formaður með 60% atkvæða

Ingibjörg H. Sverrisdóttir er nýr formaður í Félagi eldri borgara í Reykjavík. Kosningin fór fram á aðalfundi félagsins sem var haldinn í dag.  Þrír sóttust eftir formannssætinu. Auk Ingibjargar voru það Borgþór Kjærnested og Haukur Arnþórsson.

Það var troðfullt úr úr dyrum á Hótel Sögu þar sem aðalfundurinn var haldinn. Óttast var á tímabili að fundarmenn færu yfir 500 manna takmarkið og að vísa þyrfti fólki frá, en til þess kom ekki. Setið var við öll borð og aukastólar voru bornir inn í salinn. 433 kusu í formannskjörinu. Haukur Arnþórsson fékk 131 atkvæði, Ingibjörg Sverrisdóttir 262, en Borgþór Kjærnested fékk 29 atkvæði.  Einn skilaði auðu.  Ingibjörg hlaut þannig rétt rúm 60% greiddra atkvæða.

Á fundinum var einnig kosið í stjórn og varastjórn félagsins, samtals sjö menn.

Til tveggja ára í aðalstjórn voru kjörnir:

Kári Jónasson   með 313 atkvæði.

Sigurbjörg Gísladóttir með 300 atkvæði.

Viðar Eggertsson með 299 atkvæði.

Ingibjörg Óskarsdóttir var kosin í aðalstjórn til eins árs og fékk 295 atkvæði.

Þessir voru kjörnir varamenn í stjórnina:

Finnur Birgisson með 223 atkvæði

Haukur Arnþórsson með 184 atkvæði

Sverrir Örn Kaaber með 173 atkvæði.

Ritstjórn júní 16, 2020 18:59