Búningar í kvikmyndum og leikhúsum eru einstaklega vandaðir. Oft er mikil vinna lögð í að endurskapa andblæ liðins tíma eða skapa framtíðarsýn sem enginn veit hvort stenst. En oft geta þeir vakið upp löngun áhorfenda til að skapa sér nýjan stíl, hverfa aftur í tímann og klæðast eins og amma eða langamma gerðu. Það má líka bara njóta þess að horfa og dást að hugmyndauðgi mannsins við klæða líkamann.
Nýlega rak á fjörur Lifðu núna endurgerð myndarinnar The Man from U.N.C.L.E. Sagan gerist á tíma kalda stríðsins, á sjöunda áratug síðustu aldar og hér dúkka upp minipilsin, háu gervileðurstígvélin, plastskartgripirnir, skrautleg mynstur, slæður um höfðið og stór sólgleraugu. Flestir voru sennilega búnir að gleyma hversu flottur þessi stíll var eða búnir að sannfæra sig um að hann væri ljótur. Búningahönnuður myndarinnar heitir Joanna Johnston og er einstaklega fær.
Joanna leitaði víða fanga þegar hún var að hanna búningana. Hún horfði á kvikmyndir og sjónvarpsþætti frá þessum tíma en hún lá líka Vogue-blöðum, enda tímarit einna allra besti miðillinn til að varðveita útlit og tíðaranda. Marisa Berenson og Veruschka voru meðal þeirra kvenna sem hún sá fyrir sér. Í myndinni er Alicia Vikander með Marni-eyrnalokka og Devaux-handtösku sem eru meðal fallegustu fylgihluta sem sést hafa á hvíta tjaldinu. En myndirnar tala sínu máli.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.