Þegar dregur að jólum fara matmálstímar gjarnan úr skorðum og lítill tími gefst til matargerðar enda fer í hönd tími þar sem lífið snýst mikið um mat hjá flestum. Þá er gott að útbúa ríflegan skammt af réttum á jólaföstunni sem eru líka góðir daginn eftir og þessi er einmitt einn slíkur. Grunnurinn er réttur sem rakinn er til rómverska rithöfundarins Apicius og er upprunaleg uppskrift blanda af kjöti, furuhnetum og kryddum, blandað eggjum, brauði og mjólk. Þessi réttur hefur farið víða og alls staðar tekið nokkrum breytingum. Þessi útfærsla sem hér er tekur mið af nokkrum útfærslum og það besta úr hverri notað. Rétturinn er dásamlegur.
2 laukar, smátt skornir
50 g smjör
2 msk. olía
2 græn epli, afhýdd og skorin í bita
75 g rúsínur
2 msk. karrí
600 g lamba- eða nautahakk eða blandað
2 dl lambakraftur (vatn og teningur)
salt og pipar
3 msk. mango chutnehy
2 msk. sítrónusafi
75 g afhýddar möndlur, saxaðar
2 brauðsneiðar
2 egg
3 dl mjólk eða rjómabland
Steikið kjötið á pönnu. Bræðið smjörið og olíuna saman á pönnu eða potti og setjið lauk og epli saman við. Bætið rúsínum og karrí út í og látið malla í svolítinn tíma. Takið helminginn frá og geymið. Bætið mangó chutney saman við laukblönduna á pönnunni og síðan sítrónu og söxuðum möndlunum. Látið malla á meðan eggjablandan er útbúin. Skerið brauðið í teninga og þeytið eggin saman og bætið mjólkinni (blandinu) saman við brauðið. Setjið til skiptis í eldfast form kjötblönduna og eggjablönduna, stráið möndluflögum yfir og látið í ofn við 200 C° í 20 mínútur. Berið fram með kartöflumús. kartöflur, smjör, salt og pipar og parmesanostur.