Mokkarúlla með hnetum, sparimatur sælkerans.

Rúlluterta með mokkasmjörkremi er til að semja lag um og hún dugar fyrir 8 – 10 manns.

100 g ristaðar og saxaðar heslihnetur

2 msk. sykur

5 eggjahvítur

120 g sykur

5 eggjarauður

1 msk. skyndikaffi

2 msk. heitt vatn

2-3 msk. hrásykur til að strá á pappírinn

Hitið ofninn í 200°C, malið heslihneturnar í matvinnsluvél ásamt 2 msk. sykur. Þeytið eggjahvíturnar stífar. Bætið 60 g af sykri saman við og þeytið áfram, geymið. Þeytið eggjarauðurnar ásamt 60 g af sykri þar til blandan er orðin létt og ljós. Leysið skyndikaffið upp í 2 msk. af heitu vatni og bætið út í eggjarauðurnar. Blandið hnetunum saman við. Blandið eggjahvítunum saman við smátt og smátt og hrærið varlega saman. Fóðrið ofnskúffu eða rúllutertuform með bökunarpappír og brjótið upp á kantana þannig að pappírinn nái upp á hliðarnar. Smyrjið olíu á pappírinn og hellið deiginu á hann og breiðið úr því. Bakið kökuna i 10-12 mínútur. Látið hana bíða í 5-10 mín. Losið um kökuna við kantana ef þarf. Látið örk af bökunarpappír á borð og stráið hrásykri á. Hvolfið kökunni síðan á örkina. Rúllið henni upp og geymið hana þannig á meðan smjörkremið er útbúið.

Mokkasmjörkrem:

150 g flórsykur

100 g smjör, mjúkt

1 msk. skyndikaffiduft

1 msk. heitt vatn

1 tsk. vanilludropar

Hrærið flórsykur og smjör vel saman. Leysið kaffiduftið upp í vatninu og bætið út í kremið ásamt vanilludropunum. Rúllið kökunni út og smyrjið kreminu á hana. Rúllið henni síðan upp aftur. Kökuna má frysta og geyma þannig í nokkra mánuði.

 

 

 

 

 

Ritstjórn apríl 17, 2020 17:13