Jólin á sjöunda áratug síðustu aldar

Steingerður Steinarsdóttir

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar. 

 

Eftir því sem ég verð eldri því oftar verður mér hugsað til mömmu á jólum. Ég elskaði jólin þegar ég var barn og það var mömmu að þakka. Í nóvember ár hvert byrjaði hún að hreinsa út úr öllum skápum, þrífa hvert horn og raða inn að nýju. Allt gamalt, úrelt og ónýtt fékk hvíldina á ruslahaugunum og allt nýtilegt hlutverk. Það þurfti að sortera, þvo, skúra, brjóta saman og skipuleggja upp á nýtt. Ekki nóg með það, veggina og loftin varð að skrúbba, gardínurnar þvo og strauja og öll föt. Ekkert mátti vera óhreint á jólunum.

Svo var bakað. Sjö sortir af árvissum smákökum og eina eða tvær nýjar tegundir. Niðurskornar brúnar og hvítar tertur og svampbotna, súkkulaðikökubotna, marmaraköku og fleira góðgæti. Við systurnar hefðum átt að vera duglegri að hjálpa henni en auðvitað nenntum við engu. Laumuðumst samt í smákökurnar og dagurinn sem niðurskornu terturnar voru bakaðar var hátíðisdagur. Hún skar nefnilega utan af þeim svo kantarnir yrðu alveg beinir og síðan stóru tertuna niður í nokkra fullkomna ferninga. Við fengum að borða afskurðinn og aldrei, hvorki fyrr né síðar, hef ég fengið gómsætara bakkelsi og það rann ljúflega niður með kaldri mjólk.

Þegar ég var barn kviknuðu fyrstu lituðu ljósaperurnar á svölum blokkanna í nágrenni Bólstaðarhlíðar á fyrsta í aðventu. Elsta systir mín dró mig jafnan inn í herbergið sitt til að benda mér að þarna væru þær komnar, ljómandi í litfegurð sinni og næstu kvöld stukkum við spenntar að glugganum um leið og myrkrið var orðið svart því þá, og ekki fyrr, kveiktu menn á jólaljósunum. Rafmagnið varð jú að spara. Við áttum aldrei seríur á svalirnar en á hverju Þorláksmessukvöldi var jólatréð sett upp og skreytt. Það gerðum við systur og síðast af öllu fór serían á. Auðvitað kviknaði aldrei á henni í fyrstu tilraun og það kostaði langar og strangar prófanir af hálfu pabba að koma henni í lag. Hann hófst handa við að skipta um hverja einustu peru, aftur og aftur því enginn vissi hvaða pera var biluð og það nægði að ein væri það til ekkert virkaði þetta tók tíma og var ekki alltaf til gleðja pabba en fyrir eitthvert kraftaverk að kviknuðu ljósin á hverju ári.

Eitt fyrsta jólaskrautið til að fara upp var klukkstrengur sem mamma saumaði. Hann hékk alltaf á ganginum við hliðina á dyrasímanum og þegar maður gekk fram hjá fauk hann til og litla klukkan sem hékk í endanum á honum klingdi. Lengi fannst mér það jólalegasta hljóð sem ég þekkti.

Aðfangadagur var dásamlegur. Það var svo gaman að koma fram, allt var hreint og fínt. Ég smitaðist af hreinlætisæði mömmu og gekk alltaf um á aðfangadagsmorgun og lagaði til, strauk af ef einhvers staðar sást rykkorn, bjó um rúm og sópaði gólf, lagaði handklæðin svo þau væru fínt samanbrotin á handklæðahenginu, gekk frá ef einhvers staðar lá eitthvað á glámbekk því allt varð að vera fullkomið á jólunum. Eftir að sjónvarpið kom var auðvitað dásamlegt að sitja yfir teiknimyndunum. Við sáum ekkert slíkt á öðrum árstímum.

Það var oft erfitt að bíða fram til klukkan sex en við spiluðum, lásum, fórum stundum út að leika okkur eða fundum aðrar leiðir til að láta tímann líða. Við fórum alltaf í bókabílinn fyrir jólin og birgðum okkur upp af bókum sem við svo lágum í yfir hátíðarnar. Stundum fengum við hver okkar eina bók í jólagjöf og það var auðvitað frábær viðbót. Við lögðum stundum á borðið og snerumst aðeins í kringum mömmu í eldhúsinu. Svo kveikti pabbi á útvarpinu og þegar kirkjuklukkur dómkirkjunnar í Reykjavík byrjuðu að hringja voru jólin komin. Við gengum á milli og óskuðum hvert öðru gleðilegra jóla og við systur hjálpuðum mömmu að bera fram matinn. Jólamaturinn var borðaður meðan messan í útvarpinu hljómaði en þótt maturinn væri góður var auðvitað mest spennandi að komast í pakkana.

Já, pakkarnir, þeir voru ofboðslega heillandi þótt þeir væru aldrei neitt í líkingu við þá hrúgu sem börn taka upp í dag. Gjafirnar frá ógiftum systkinum pabba voru alltaf langmest spennandi. Pakkarnir frá þeim voru risastórir og alltaf fullur stór plastpoki af nammi ásamt  einhverju fallegu. Frændi minn vann á Dettifossi og sigldi til Evrópu og Ameríku. Hann keypti All Sorts-lakkrískonfekt, Quality Street-konfekt, sem við kölluðum reyndar McIntosh og alls konar annað sælgæti úti í heimi. Ég man líka eftir að hafa fengið náttslopp, náttföt, stórt baðhandklæði en þá sáust slík ekki hér, freyðibaðsflösku, hálsmen og armband allt keypt í útlöndum og miklu flottara en nokkuð sem sást í búðum hér. Mamma og pabbi gáfu okkur oftast eitthvað sem okkur vantaði, peysu, buxur, úlpu, stígvél eða skó. Við vorum þess vegna minna spenntar fyrir því. Frá afa og ömmu í sveitinni fengum við alltaf vettlinga og sokka sem amma hafði prjónað og stundum bók með eða eitthvað lítilræði annað. Við fengum líka peningagjöf frá afa sem bjó á Vesturgötu og mjög skemmtilegar gjafir frá föðurbróður pabba og fjölskyldu hans. Þar áttum við þrjár frænkur og kona frænda okkar kunni að mínu mati sannarlega að velja góðar gjafir. Vinkona mömmu var okkur líka ígildi ömmu og hún færði okkur alltaf eitthvað. Þar með var það upptalið. En þetta var dásamlegt.

Jóladagur var algjör hvíldardagur. Allir sváfu frameftir og í hádeginu var borðað kalt hangikjöt sem mamma hafði soðið á Þorláksmessu. Við klæddum okkur sjaldnast þann dag. Við vorum í nýjum náttfötum því við fengum á hverju ári jólaföt og jólanáttföt. Mamma saumaði ekki sjálf en hún fékk oft vinkonur sínar eða saumakonur í hverfinu til að sauma á okkur jólakjóla. Svo fékk ég kjól eldri systur minnar næsta ár og yngri systir mín minn, þannig að aumingja hún fékk sjaldnast ný föt.

En jóladagur var rosalega heilagur að því leyti að þá fór enginn neitt, enginn vina okkar kom í heimsókn og okkur var bannað að fara til þeirra. Allir voru að hvíla sig og það var sannarlega verðskuldað í mömmu tilfelli og annarra húsmæðra. Þvílík fyrirhöfn sem þessi jól kostuðu og auðvitað var mamma þreytt, rosalega þreytt en í þessu umstangi öllu fólst svo mikil ástúð og umhyggja. Allir áttu að hafa það gott á jólunum og geta glaðst, notið friðar. Og það gátu menn. Þegar ég reyni að rifja upp mín æskujól er kyrrðin mér efst í huga. Um leið og klukkurnar hringdu inn jólin hvarf allt stress. Dásamlegur friður færðist yfir og allir voru glaðir. Mér finnst eins og stór snjókorn hafi alltaf svifið hljóðlega og tignarlega til jarðar fyrir utan stofugluggann, ljósin glitrað og sindrað í myrkrinu og yfir Jörðina alla færst kærleiksrík ró. Þannig voru mín æskujól umvafin birtu og gleði og árlegt rafmagnsleysii, eggjaskortur, jólastress og vetrarstormar eru löngu gleymd.