Það er í nógu að snúast hjá Kristjáni Val Ingólfssyni vígsbiskupi í Skálholti um jólin, enda jólin mikill annatími hjá kirkjunnar fólki. „Mér finnst þetta gríðarlega skemmtilegur tími. Á þorláksmessu er alltaf einhver athöfn í kirkjunni enda sat Þorlákur biskup,sem dagurinn er kenndur við, í Skáholti á seinni hluta tólftu aldar. Við minnumst þess með einhverjum hætti. Ég hef stundum messað við hlið kistu Páls biskups, á þessum degi,“ segir Kristján Valur. Á aðfangadag er messað klukkan sex, þá messar sóknarpresturinn í Skálholti en Kristján Valur er til aðstoðar. Hann sér svo um miðnæturmessuna og messar svo á Þingvöllum á jóladag. „Það er að mörgu leyti allt öðru vísi að messa um jól en á öðrum tímum ársins,“ segir hann og bætir við „það er vegna þess að þeim sem koma í kirkjuna líður öðruvísi. Þeim sem líður vel líður enn betur betur en þeim sem líður illa líður enn verr. Maður skynjar þessa stemmingu mjög sterkt.“
Góð kirkjusókn
Kristján Valur segir kirkjusókn góða um jólin. Það séu á bilinu 50 til 100 manns sem sæki messurnar. Umdæmi vígslubiskupsins í Skálholti er afar víðfermt, það nær frá Stafafellskirkju í Lóni í austri að Árneskirkju á Ströndum í vestri. Kristján Valur segir að vígslubiskupsembættið sé fyrst og fremst prestsembætti. „Það er sannarlega sérstakt prestsembætti að því leyti að starfssvæðið er ekki einn söfnuður eða eitt prestakall heldur heilt stifti með mörgum prestum og söfnuðum. En í grunninn eru skyldur vígslubiskups alveg hinar sömu og prests í sínum söfnuði. Meginhlutverk hans er þjónustuhlutverk. Þjónusta hans er tvenns konar. Hún er annars vegar við þá sem honum er trúað fyrir að annast eins og hirðir, en hins vegar við Guðs Orð sem honum er falið að boða og bera vitni um. Sú ábyrgð sem þessu fylgir er hin sama og sérhvers prests, en í víðara samhengi. Eins og biskup er prestur prestanna, gegnir vígslubiskupinn sama hlutverki gagnvart prestum síns stiftis, ef honum tekst að afla sér trausts meðal þeirra,“ segir Kristján Valur.
Aldrei frí á jólunum
Kristján Valur er kvæntur Margréti Bóasdóttur söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar. Þau eiga synina Bóas sem býr í Reykjavík, og Benedikt sem er til heimilis í Berlín. Kristján Valur segist aldrei hafa átt frí á jólum síðan hann var í framhaldsnámi í guðfræði í Þýskalandi en þar dvaldi hann um sjö ára skeið. „Það kom fyrir að ég ætti frí þegar ég var úti. Fyrir mér og fjölskyldu minni er það eðlilegt að ég sé að vinna um jól. Fjölskyldan hefur alltaf tekið þátt í þessu með mér og það hefur enginn kvartað. Þetta er hinn eðlilegi rythmi fyrir okkur. Það eina sem maður gæti kvartað yfir er að jólanóttin vill verða í styttra lagi vegna miðnæturmessunnar. Maður er ekki komin heim aftur fyrr en eftir miðnætti. Við borðum eftir messuna klukkan sex og það eru alltaf rjúpur í matinn. Við eigum vini um allt land og þeir hafa séð til þess að við fáum rjúpur. Í kjölfar minnkandi rjúpnaveiði hefur rjúpunum þó fækkað en það er þó alltaf ein á mann sem er í það minnsta, ein og hálf er eiginlega lágmarkið. Svo á jóladag er alltaf hangikjöt í matinn. Við erum mjög fastheldin þegar kemur að jólamatnum og raunar öllum jólasiðum.“