Júlí mánuður sumaryls, leikja og skemmtana

Júlí er hásumarmánuður hér á Íslandi og lengst af eftirsóttasti sumarfrísmánuðurinn. Þá hengja hressir Íslendingar hjólhýsi eða tjaldvagna aftan í bíla sína og halda út úr bænum hverja helgi. Sumir kjósa raunar frekar að henda tjaldi í skottið, nesta sig upp og njóta þess að leggjast á vindsæng og sofa með aðeins tjaldhimininn milli sín og sumarnæturinnar.

Þetta er líka vinsælasti brúðkaupsmánuður landsins og haldnar eru margar grillveislur og sumar stórar í görðum á Íslandi í þessum dásamlega mánuði. Þegar halla tekur að mánaðamótum júlí og ágúst lengist nóttin og sólin sest á kvöldin. Hvað sem því líður þá er þetta yndislegur árstími og um að gera að njóta hvers einasta þessara þrjátíu og eins dags í júlí.

Hér eru nokkrar skemmtilegar staðreyndir um júlí:

Júlímánuður var nefndur svo af rómverska öldungaráðinu til heiðurs Júlíusi Sesari en það var hann sem kom á gregoríska almanakinu. Þetta var sjöundi mánuður ársins samkvæmt því dagatali og hásumarmánuður á norðurslóðum. Á suðurhluta plánetunnar er hins vegar hávetur um þetta leyti og veðurfar kaldast á þessum árstíma.

Áður en almanakinu var breytt og heiðra þurfti Júlíus Sesar hafði mánuðurinn borið nafnið quintilis eða fimmti enda byrjaði árið þá í mars og júlí því fimmti mánuðurinn.

Gömul hjátrú í Englandi sagði að ef það rigndi 1. júlí væri það ávísun á rigningu næstu þrjátíu daga.

Ef marka má stjörnuspekina eru þeir sem fæddir eru í júlí í góðu tilfinningalegu jafnvægi og hafa ansi mikla sjálfstjórn. Þeir lifa ríkulegu innra lífi, hafa frjótt ímyndunarafl og mikla sköpunargáfu og eru hvorki árásargjarnir né tiltakanlega skapbráðir.

Mánaðarsteinn júlí er rúbín en á honum hvílir sú trú að hann geti verndað þann sem ber hann gegn öllu illu. Orðið rúbín er dregið af latneska orðinu rubeus sem þýðir rauður. Rúbín-steinninn er skyldur safírum og fjórði harðasti gimsteinninn. Demantar eru auðvitað harðastir, þeirra næstur er mossanite, þá hvítur safír og síðan rúbín.

Mánaðarblóm júlí eru vatnalilja og riddaraspori. Stjörnumerki júlímánaðar eru krabbi og ljón. Ljónið tekur við af krabbanum þann 23. júlí.

4. júlí er þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna en hann var valinn vegna þess að þann dag árið 1776 tók stjórnarskrá sambandsríkjanna gildi en þau voru þrettán í upphafi.

Bastilludagurinn er haldinn hátíðlegur í Frakklandi 14. júlí ár hvert en þann dag árið 1789 réðist almúgi Parísarborgar á Bastilluna og frelsaði fangana sem þar voru lokaðir inni. Sá atburður markaði upphaf frönsku byltingarinnar.

Fyrsta atómsprengjan var sprengd í Nýju-Mexíkó þann 16. júlí árið 1945.

Neil Armstrong var fyrstu manna til að stíga fæti á tunglið þann 20. júlí árið 1969.

Hundadagar hefjast þann 23. júlí og standa til 23. ágúst. Þeir eru nefndir eftir Síríusi eða hundastjörnunni sem sést á himni á norðurslóðum þessa þrjátíu daga. Tilviljun réði því að þetta er einmitt líka sá tími sem Jörgen Jörgensen, eða Jörundur hundadagakonungur, ríkti á Íslandi. Hann reyndar útnefndi sjálfan sig hæstráðanda til sjós og lands en ekki konung.

Sumarólympíuleikar eru oft haldnir í júlí, sömuleiðis Wimbleton-tennismótið og Tour de France-hjólreiðakeppnin.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.