Kjóllinn og jólin

Gullveig Sæmundsdóttir

Gullveig T. Sæmundsdóttir fyrrverandi ritstjóri skrifar.

Jólin eru ekki aðeins fæðingarhátíð Frelsarans og ein helsta trúarhátíð kristinna manna. Við gleðjumst líka yfir því að þegar jólin ganga í garð er sól aftur farin að hækka á lofti eftir langa og dimma daga. Þessir dagar hafa verið dimmari og lengri í ár en venjulega og kærkomið að geta haldið hátíð ljóss og friðar og gleymt því um stund hvað árið sem er að renna sitt skeið hefur verið erfitt. Árið sem verður skráð í sögubækur enda árið sem versti heimsfaldur í manna minnum geisaði.

Eins og flestir hef ég tileinkað mér ýmsa siði og venjur sem setja svip sinn á aðdraganda og umgjörð minna jóla. Jólin í litla timburhúsinu í Hafnarfirði þar sem ég ólst upp voru mjög hátíðleg. Eftirminnilegast frá þeim árum var að ganga með mömmu og systkinum mínum út í mjúkt myrkrið á aðfangadagskvöld og fara í messu um miðnætti í kapellu Jósefssystra. Ég man enn hvað mér fannst gaman að ganga í kvöldkyrrðinni í ósnortnum snjó. Marrið í snjónum, jólaljós í gluggum, tunglskin og stjörnubjartur himinn settu hátíðlegan og ævintýralegan blæ á tilveruna. Þegar ég flutti að heiman tók ég með mér ýmsa jólasiði úr foreldrahúsum. Það gerði maðurinn minn líka og saman mótuðum við síðan eigin jólasiði sem við höldum enn í heiðri en þó með þeim breytingum sem verða þegar börn eru ekki lengur á heimilinu og að aðfangadagskvöld höldum við ekki lengur hátíðlegt á okkar heimili heldur á heimili sonar okkar og njótum þess að fá að taka þátt í jólasiðum og venjum á því heimili.

Það gekk á ýmsu þau ár sem ég var að móta eigin jólahefðir. Við systur bökuðum saman, bjuggum til aðventukransa, skárum út laufabrauð og föndruðum svo fátt eitt sé nefnt af því sem við tókum okkur fyrir hendur. Á þeim árum bakaði ég töluvert og gerði allskonar tilraunir varðandi matargerð, skraut og gjafir. En síðan hefur margt breyst. Ég þekki fáa sem baka eitthvað að ráði fyrir jólin og umræðan snýst frekar um hvort eitthvað sé bakað en hvað eða hve mikið sé bakað. Enn finnst mér samt mikilvægt að baka eitthvað fyrir jólin og þá fyrst og fremst til þess að njóta ilmsins sem fylgir nýbökuðum kökum og öðru bakkelsi. Ég sker heldur ekki lengur út laufabrauð en læt mér nægja að kaupa nokkrar kökur til að hafa með hangikjötinu á Þoráksmessu og er löngu hætt að búa til aðventukrans eða annað skraut. Þessi verk áttu sinn tíma og sá tími er löngu liðinn. Nú nýt ég þess að taka upp aðventukrans sem mér var gefinn fyrir mörgum árum og tek smátt og smátt fram eitthvað af öllu jólaskrautinu sem ég hef sankað að mér í gegnum árin.

Heimsfaraldurinn mun setja sinn svip á jólahald okkar í ár og veislur og gjafir verða líklega með öðrum hætti en venjulega. Ég hef samt lofað sjálfri mér því að ég ætla að komast í kjólinn um jólin! Fyrir nokkrum árum þekktu flestar konur orðtakið: “Í kjólinn fyrir jólin.” Mér fannst það reyndar alltaf hljóma undarlega enda rímar “kjólinn” ekki við “jólin”. Málið snerist um mikilvægi þess að konur kæmust í kjól fyrir jólin jafnvel þó að hann væri of þröngur og passaði þeim ekki. Til þess að ná þessu markmiði voru þær hvattar til þess að stunda líkamsrækt og borða hollan mat þannig að kjóllinn stæði þeim ekki á beini um jólin. Í fataskápnum mínum hangir kjóll sem ég ætla að vera í á jólunum. Ég hef átt þennan fallega kjól í nærri því heilt ár. Samt hefur hann hangið ónotaður í skápum allan þennan tíma. Ég hef reyndar tekið kjólinn nokkrum sinnum fram til að sýna hann, klætt mig upp og tekið fram viðeigandi skó eftir árstíðum. Fyrst voru skórnir svartir en þegar sumraði fannst mér hvítir skór vera málið. Þegar kom að veislu sem mér var boðið til í október fannst mér gráu spariskórnir viðeigandi.

Mig minnir að það hafi verið í janúar eða febrúar sem ég sá kjólinn fyrst í búðarglugga. Ég hef alltaf haft gaman af að punta mig og þar sem veisluhöld stóðu fyrir dyrum ákvað ég að kíkja betur á kjólinn. Ég er lítið hrifin af mátunarklefum enda eru þeir oftast litlir og þröngir. Allt annað með speglana. Mér skilst að birtan og speglarnir séu útbúin með það fyrir augum að láta viðskiptavininn líta sérstaklega vel út þannig að hann falli í freistni. Og það tókst með kjólinn margumrædda. Mér fannst ég glerfín þegar ég var komin í hann og þóttist hafa gert reyfarakaup enda myndi kjóllinn henta við ýmis tækifæri. En þá tók fyrst að syrta í álinn. Boðið sem mér hafði verið boðið í var slegið af enda skollinn á heimsfaraldur. Nokkru seinna var aftur boðið til veislu og kjólinn tilbúinn. En eins og í fyrra skiptið var hætt við veisluna þar sem samkomutakmarkanir höfðu verið settar. Næst voru tvær fermingar og stórafmæli. Upplagt að nota kjólinn í veislunum. Fjöldatakmarkanir settu þau áform í uppnám. Svo kom vorið og sumarið og veiran virtist láta undan síga. Mér var boðið til veislu á sjálfum Bessastöðum og þurfti ekkert að velta fyrir mér í hverju ég yrði. Að sjálfsögðu í nýja kjólnum. Enn á ný voru áform um boð og veisluhöld slegin út af borðinu og kjóllinn hangir enn ónotaður inni í skáp.

Og nú eru að koma jól. Sóttvarnaryfirvöld hafa lagt til að fólk komi sér upp einskonar jólakúlu, eða mengi, þar sem sérstakar fjöldatakmarkanir gilda og innan kúlunnar sé fyrst og fremst nánasta fjölskylda. Mér er ætlaður staður í einni slíkri og mun njóta jólagleði eins og endranær þó að form hátíðarinnar og aðdragandi hafi breyst. Það er löngu ljóst að ég verð í kjólnum um jólin. Vitanlega skiptir margt meira máli en hvort ég get klæðst ákveðnum kjól. Ég nefni kjólinn bara til sögunnar sem dæmi um hvað lífið getur verið ófyrirsjáanlegt og kjólgopi skiptir sannarlega ekki miklu máli í stóra samhengi hlutanna. Mest um vert er að böndum verði komið á veiruna, bóluefni finnist sem skilar árangri og við getum haldið áfram að lifa í þeim lífstakti sem við kjósum og eigum möguleika á að njóta.

Gleðilega hátíð

 

 

Gullveig Sæmundsdóttir desember 21, 2020 08:00