Fegurð andartaksins

Gullveig Sæmundsdóttir

Gullveig Sæmundsdóttir fyrrverandi ritstjóri skrifar

Seint verður ofsagt að við lifum fordæmalausa tíma. Reyndar ættu eldsumbrot og jarðhræringar ekki að koma okkur á óvart en mér skilst að á minni ævi hafi á þriðja tug eldgosa orðið hér á landi og þúsundir jarðskjálfta. Veiran er hins vegar annað og erfiðara mál enda heimsfaraldur og rúm öld síðan jafnslæm plága hefur geisað í heiminum.

Eins og flestir heldri borgarar” hef ég farið varlega og fylgt ráðum og tilmælum þeirra sem gerst þekkja. Þegar ballið hófst í fyrra og samkomutakmarkanir og skerðingar á lífi okkar og tilveru komu til sögunnar velti ég fyrst fyrir mér öllu því sem ég ekki gæti gert. Ég átti bókaðar tvær utanlandsferðir snemma í faraldrinum sem eðli málsins samkvæmt féllu niður. En ég var heppin og fékk endurgreitt stærsta hluta þess kostnaðar sem ég hafði reitt fram. Svo voru það hefðbundnir fundir og mannfagnaðir sem ég gat ekki lengur sótt. En eins og flestir hef ég áður staðið frammi fyrir þeirri staðreynd að þó að kóngur vilji sigla er það byrinn sem ræður og ekki um annað að ræða en reyna að gera það besta úr stöðunni. Við tóku endalausar göngferðir, bóklestur, prjónar, útvarp, tölvan og annað sem auðvelt var að njóta og sinna og það gerði ég svo sannarlega.

En þó að daglegt líf hafi farið úr skorðum hefur lífið að mestu leyti haldið áfram sinn vanagang. Ég er þakkát fyrir að hafa getað umgengist nánustu fjölskyldu, haft samband við vini og vandamenn á netinu og tekið þátt í fjarfundum. Þegar fór að rofa til og slakað var á samkomutakmörkunum fann ég hins vegar vel hvað ég var orðin þreytt á ástandinu. Ég þráði að hitta fólk, horfa í augun á þeim sem ég ræddi við, fylgjast með svipbrigðum og njóta tilfinningarinnar sem fylgir því að njóta raunverulegra samskipta við aðra. Um síðustu helgi fór ég í leikhús og sá stórkostlega sýningu, Vertu Úlfur, sem sýnd er í Þjóðleikhúsinu. Töfrar leihússins eru engu líkir og þegar ljósin voru slökkt í salnum og sýningin hófst fann ég sannarlega hvað ég hafði saknað þess mikið að geta ekki farið í leikhús. Ég sótti líka í síðust viku tvo fundi og naut þess að hitta félaga mína í raunheimum. Hversdagslífið er greinilega að taka breytingum og vorið framundan.

Það sem af er árinu hef ég sótt fjórar jarðarfarir. Ég sæki ekki jarðarfarir til þess að hitta annað fólk. Ég geri það vegna þess að ég vil sýna hinum látnu og fjölskyldum þeirra vináttu og virðingu. Mér finnst fallegt þegar talað er um að hinn látni sé farinn til sumarlandsins og það er líka fallegt og gott að fylgjast með hvernig ástvinir velja tónlist, blóm og annað af alúð og hlýju. Í þremur af umræddum jarðarförum var sungið lag og texti Braga Valdimars Skúlasonar Líttu sérhvert sólarlag. Lagið er mjög fallegt og textinn á erindi við okkur öll – kannski ekki síst á víðsjárverðum tímum eins og þeim sem við lifum núna. Lífið er stutt og hverfult og við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Aldan sem rís hnígur og hverfur og þögnin sem fylgir sögðum orðum hverfur líka. En við eigum stundina.

Þegar ég les minningargreinar og sæki jarðarfarir hugsa ég oft um sjálfa mig í hlutverki hins látna. Ég velti fyrir mér hverjir myndi skrifa um mig minningargreinar, hvað presturinn myndi segja í minningarorðum og hvaða tónlist yrði leikin í kirkjunni. Slíkar hugsanir hafa leitað á mig árum saman og orðið til þess að ég hef ákveðið ýmislegt varðandi eigin útför. Ég er samt hress og kát og á vonandi mörg góð og gefandi ár eftir. Ég er hins vegar á því að það sé skynsamlegt að velta þessum hlutum fyrir sér.

En núna ætla ég að fara að orðum Braga Valdimars og njóta þess sem er:

Því skaltu fanga þessa stund

því fegurðin í henni býr.

 

Gullveig Sæmundsdóttir mars 21, 2021 14:21