Lúxuslíf – óhóf eða ýmis smáatriði

Gullveig Sæmundsdóttir

Gullveig Sæmundsdóttir fyrrverandi ritstjóri skrifar.

Í orðabók Menningarsjóðs, sem út kom fyrir nærri hálfri öld, er orðið lúxus skilgreint sem munaður, íburður, óhóf eða skraut. Með árunum og breyttum tíðaranda virðist mér merkingin hafa breyst. Sumt sem taldist óhóf eða íburður þegar bókin kom út líta menn í dag á sem hversdagslega og sjálfsagða hluti eins og teppi á gólfum, flísalögð baðherbergi eða nóg af heitu og köldu vatni. Í mínum huga flokkast líka ýmis smáatriði í daglegu lífi sem ákveðinn lúxus – góður nætursvefn, þokkaleg heilsa, morgunverðurinn við undirspil Gufunnar, notaleg samskipti við fólkið í kringum mig, góðar bækur og göngutúr dagsins svo fátt eitt sé nefnt. Lúxusinn getur því senn falist í íburði og óhófi en líka í því að fá notið ýmissa atriða í daglegu lífi sem eru samkvæmt orðanna hljóðan enginn munaður en auðga lífið og tilveruna jafnvel meira en snekkjusiglingar í suðurhöfum, marmarflísar eða kristalsljósakrónur.

Fyrir nokkrum áratugum birtist grein í einu dagblaðanna undir fyrirsögninni “Lúxuslíf á lágmarkslaunum”. Miðað við fyrirsögnina mætti ætla að greinin fjallaði um að menn gætu auðveldlega lifað lúxuslífi á lágmarkslaunum með því að sýna til dæmis ráðdeild og nægjusemi. En um það fjallaði greinin ekki heldur þá staðreynd að allstór hópur skattgreiðenda gaf á þessum árum aðeins upp hluta tekna sinna til skatts. Skattsvikin voru sannarlega ámælisverð á þessum árum ekki síður en í dag. En þau viðgengust og sumir litu meira að segja á þau sem ákveðna listgrein og að frekar væri um að ræða sjálfsbjargarviðleitni en glæpsamlegt athæfi. Lúxuslífið umrædda fólst í því að viðkomandi átti jafnvel einbýlishús, fallegt innbú, dýran bíl og hafði efni á að ferðast til útlanda einu sinni á ári og jafnvel tvisvar – sem á þeim árum þótti sannarlega óhóf! Tekjurnar sem gefnar voru upp til skatts stóðu hins vegar engan veginn undir slíku “lúxuslífi” eins og greinarhöfundur benti á. Mikil og heit umræða skapaðist um málið í þjóðfélaginu enda “lúxuslífið” ekki nema á færi örfárra einstaklinga og óþolandi til þess að hugsa að meðal þeirra væri fólk sem stundaði skattsvik. Á þessum tíma voru samfélagsmiðlar ekki komnir til sögunnar og ekki jafn auðvelt og nú að taka þátt í samfélagsumræðunni og láta gamminn geisa að vild þar sem hver og einn er sinn eigin fjölmiðill. Menn urðu því að láta sér nægja að hafa skoðanir á því sem aðrir höfðu að segja um málið í dagblöðunum.

Kveikjan að þessum pisli mínum er hins vegar ekki skattsvikin forðum daga heldur sú staðreynd að í stóra samhengi hlutanna verður ekki annað séð en að mörg okkar lifi í rauninni lúxuslífi. Skilgreiningin á slíku lífi er hins vegar verulega á reiki – bæði afstæð, loðin og teygjanleg. Fyrst og fremst eru þó skoðanir manna mismunandi á því hvað af ýmsum smáatriðum í daglegu lífi þeir myndu flokka sem lúxus. Suma dreymir um að vera sífellt á ferð og flugi og finnst bæði erfitt og leiðinlegt að geta ekki verið eins mikið á ferðinni og þá dreymir um. Aðrir njóta kyrrðarinnar og einverunnar og finnst þögn og friður sannkallaður lúxus. Lúxusinn í daglegu lífi er heldur ekki sjálfgefinn og margir sem fá ekki notið þess að sofa vel, geta hreyft sig eða tekið þátt í ýmsu því sem þeir helst óskuðu.

Ef veiran hamlaði ekki för gæti ég vel hugsað mér að fara til Spánar, búa þar á lúxushóteli, lifa í vellystingum og spila golf. Ég myndi líka gjarnan vilja fara í lúxusferð til Rómar, Parísar eða Barselóna og njóta lystisemda þessara stórkostlegu borga. En þegar grannt er skoðað finnst mér ýmis smáatriði í daglegu lífi skipta jafnvel meira máli og vera sá “lúxus” sem ég sækist mest eftir. Þar með er ég hreint ekki að segja að mig dreymi ekki lengur um utanlandsferðir og reikni ekki með að komast jafnvel í eina slíka fyrr en varir. Ég veit hins vegar að “lúxusferðirnar”, óhófið og munaðurinn, myndu tæplega standa lengur yfir en nokkra daga eða örfáar vikur. Vikurnar í árinu eru hins vegar 52 og eins fallegt að reyna að glæða þær lífi og gleði og nútímaútgáfu af munaði, íburði, óhófi og jafnvel skrauti. Ég vona að ég fái tækifæri til að ferðast eitthvað í sumar. Enn mikilvægara finnst mér þó að veðrið verði þannig að ég geti gengið úti, spilað golf, drukkið kaffi og lesið góða bók undir berum himni.

 

 

 

 

 

Gullveig Sæmundsdóttir maí 24, 2021 09:38