Flest sjáum við rithöfundinn fyrir okkur einan við skrifborð, ennið hrukkað af einbeitingu meðan hugmyndirnar og hugsanirnar flæða á blaðið. En staðreyndin er auðvitað sú að ekkert verður til úr engu og margir höfundar sækja sér styrk, innblástur og efni í samveru og samræður við aðra listamenn. Þess eru mörg dæmi í bókmenntasögunni að rithöfundar myndi hópa, einmitt í þessum tilgangi og hafi þannig áhrif á verk annarra. Skoðum nokkra áhrifamikla hópa.
Bloomsbury-klíkan
Þau voru þekkt undir heitinu The Bloomsbury Set en nafnið var tilkomið vegna þess að þau hittust á heimili Vanessu Bell í Bloomsbury-hverfinu. Þetta var á árunum 1907-1930 og Bloomsbury var suðupottur sköpunar og hugmynda, hverfi bóhemanna. Virginia Woolf og E.M. Forster voru meðlimir hópsins og talið er að Edward Morgan Forster hafi byggt Schlegel-fjölskylduna í bókinni Howards End og umhverfi hennar mjög á því andrúmslofti sem ríkti í Bloomsbury-klíkunni. Wilcox-fjölskyldan var hins vegar fulltrúi borgaralegra gildi og fyrirtaks leið til að sýna hvernig stífni og kreddufesta stangaðist iðulega á við hið mannúðlega og rétta. Þeir sem sáu sjónvarpsþætti á RÚV fyrir nokkru sem gerðir voru eftir bókinni kannast við þetta.
Auk Virginiu og Forster voru í hópnum hagfræðingurinn John Maynard Keynes, gagnrýnandinn Clive Bell og listmálararnir Vanessa Bell og Duncan Grant. Þeir Bertrand Russell, Aldous Huxley og T. S. Eliot áttu svo til að líta við þegar vel lá á þeim. Þau áttu það hins vegar öll sameiginlegt að vera úr efri miðstétt, flest velstætt fólk og vel menntað. Þau höfðu heillast af nýjum hugmyndum um einstaklingsfrelsi og mannréttindi og þau sögðu sjálf að þau lifðu í ferhyrningum en hugsuðu í þríhyrningum. Skemmtileg leið til að útskýra að menn kjósa að hugsa út fyrir boxið. Þau voru líka opin fyrir nýjum meðlimum og hver sem kaus að kíkja inn á fimmtudögum í mat og drykk hjá Vanessu Bell gat átt von á líflegum rökræðum og miklum hlátri.
En þau ræddu líka stefnur og strauma í samfélaginu, krufðu til mergjar það sem var að gerast í kringum þau og voru frjálslynd í kynferðismálum. Mörg þeirra gerðu ýmsar tilraunir hvað það varðaði og skömmuðust sín ekkert fyrir það. Virginia Woolf sagði einhverju sinni að innan hópsins hefði þeim tekist að skapa viðhorf til lífsins sem væri ekki spillt eða alvarlegt heldur fyrst og fremst greinandi og það hefði haldið þeim saman þessi tutttugu og þrjú ár þrátt fyrir skoðanaskipti og ýmsar deilur.
Stratford-on-Odeon
Þeir voru kallaðir Stratford-on-Odeon og hópnum tilheyrðu, Ernest Hemingway, James Joyce, F. Scott Fitzgerald, Gertrude Stein og Ezra Pound. Þau bjuggu öll í París á þriðja áratug síðustu aldar og þau hittust í frægri bókabúð Sylviu Beach, Shakespeare & Company við Rue de l’Odéon. Sylvia þessi var bandarísk og hafði flust til Parísar í leit að frjálslegra og innihaldsríkara lífi rétt eins og margir landa hennar. Búðin hennar seldi ekki aðeins bækur heldur lánaði þær líka og þess vegna sóttu blankir rithöfundar í að heimsækja hana. Þarna fengu þeir einnig frið til að drekka kaffið sitt, fletta bókum og spjalla. Fljótlega myndaðist hópur fastagesta sem lásu handrit hver annars, gagnrýndu og gáfu ráð.
Vinstri bakki Signu iðaði af lífi á þessum árum. Þangað sóttu listamenn hvaðanæva að úr heiminum þó einkum frá Bretlandi og Bandaríkjunum en einnig var mikið um landflótta Rússa. Þeir höfðu flúið rússnesku byltinguna og í hópnum voru málarar, ballettdansarar, hönnuðir og heimspekingar. Óhjákvæmilega höfðu þeir áhrif á stemninguna á börunum og kaffihúsunum allt í kring. Rithöfundarnir í Stratford-on-Odeon voru vinir og drykkjufélagar. Hemingway er sagður hafa sagt Scott Fitzgerald að ekkert smyrði gíra hugans betur en alkóhól. Scott hafði hins vegar sagt að drykkjan væri löstur rithöfundarins. Hemingway var stór maður og stundum frekar skapstyggur með víni. Sagt er að James Joyce, grannur og fremur pervisinn, hafi stundum æst upp einhverja gesti á börunum og þegar hnefar fóru á loft hafi hann kallað: „Sjáðu um hann, Hemingway!“ Það er vel hugsanlegt að sögur af lifnaðarháttum þeirra hafi verið stórlega ýktar en allir áttu þeir eftir að berjast við ýmsa djöfla tengda neyslunni.
En hugarflugið var óbeislað og frjálst og hversu mikil áhrif þeir höfðu á hugmyndir hvers annars er erfitt að segja til um en á þessum árum skrifaði Hemingway, The Sun Also Rises og Men Without Women, James Joyce, Ulysses, F. Scott Fitzgerald, This Side of Paradise og Gertrude Stein gaf út ljóðbók sína með hinu fræga ljóði um rósina.
Mandarínarnir
The Mandarins voru andans jöfrar á borð við Albert Camus, Jean-Paul Sartre og Simone de Beauvoir. Hópurinn hélt saman á árunum 1943-1952. Þeir Jean-Paul og Albert áttu báðir eftir að hampa Nóbelsverðlaunum fyrir bókmenntir, Albert árið 1957 og Jean-Paul árið 1964 en hann neitaði að taka við þeim. Margir hafa einnig talið að Simone hefði átt þau skilið en árlega eru veitt verðlaun kennd við hana baráttumanni fyrir mannréttindum og jafnrétti. Bók hennar The Second Sex var án efa stefnumarkandi fyrir femínisma og þær hugmyndir sem þar eru viðraðar eiga jafn vel við í dag og þegar bókin kom út árið 1949.
Hún og Jean-Paul voru í opnu hjónabandi og margir telja að hún hafi átt í kynferðissambandi við Albert. Þau völdu ekki nafnið Mandarínarnir sjálf á hópinn heldur fékk hann þetta nafn eftir að bók Simone með þessum titli kom út árið 1954 en þar er hún augljóslega að skrifa um þau þrjú. Þau Albert og Simone voru að mörgu leyti lík. Bæði baráttumenn fyrir mannréttindum og hvöttu til borgararlegrar óhlýðni þegar þau töldu það eiga við. Þau höfnuðu allri stjórnun hvort sem hún var af trúarlegum eða pólitískum toga. Að mati Simone var hjónabandið aðeins enn ein leið til að kúga og stjórna konum. Þau vildu valfrelsi á öllum sviðum hvort sem það varðaði líkamann eða hugann.
Þau fóru oft með fleiri vinum á djassbari í París og dönsuðu og drukku heilu og hálfu næturnar. En að lokum varð samkeppnin milli Jean-Paul og Albert til að sambandið súrnaði og að lokum urðu algjör vinslit eftir hatrammar hugmyndafræðilegar deilur. Hvort það var raunverulega sá ágreiningur sem skildi á milli eða sú staðreynd að þeir voru oft að reyna við sömu konurnar sem varð til þess að upp sauð er ómögulegt að dæma með fullri vissu. En þær bækur sem urðu til á þessu gjöfula tímabili eru The Mandarins, The Age of Reason eftir Satre og The Myth of Sisyphus eftir Camus.
Blekungarnir eða The Inklings
Blekungarnir eða The Inklings samanstóð af nokkrum Oxford-fræðimönnum og rithöfundum á borð við J.R.R. Tolkien, C.S. Lewis, W.H. Lewis og Charles Williams. Nafnið er skemmtilega margrætt því það getur vísað til bleks, þ.e. ink og svo er ling smækkandi viðskeyti líkt og í íslensku, vesalingur, kettlingur og bæklingur. Í ensku kemur þetta fram í orðunum hireling, duckling og underling. En orðið inkling þýðir hins vegar grunur eða einhvers konar vottur af einhverju. Þetta getur því vísað til tilrauna þeirra á ritvellinum en einnig þeirrar viðleitni að skilja og finna einhvers konar svör um lífið án þess að hafa meira en grun. „Skilyrði fyrir inngöngu eru,“ skrifaði C.S. Lewis þegar hann bauð Charles Williams í hópinn, „tilhneiging til að skrifa og vera kristinn.“
Þetta virðist hafa verið það eina sem vakti fyrir þeim tveimur þegar þeir stofnuðu hópinn en hann var starfandi á árunum 1930-1940. Þetta voru virðulegir menn, pípureykjandi kennarar í tvídfötum. Þeir hittust í herbergjum C.S. Lewis í Oxford og þar lásu hver fyrir annan úr verkum sínum og rökræddu um trúmál, drukku og fóru í leiki. Vinsælastur var sá að keppa um hver gæti lesið lengst í prósa Amöndu McKittirick Ros án þess að hlæja. Sú var írsk og skrifaði eina skáldsögu og nokkur ljóð. Hún gaf bækur sínar út sjálf því enginn annar var tilbúinn til þess, enda sögðu gagnrýnendur þess tíma að meðal hennar texta væri að finna það versta sem nokkru sinni hefði verið skrifað.
„Í raun réttri voru The Inklings aldrei klúbbur eða bókmenntahópur þótt vissulega hefðu þeir einkenni slíkra. Það voru engar reglur, engir yfirmenn, engin stefna og engar formlegar kosningar,“ sagði W.H. Lewis um hópinn í bréfi eftir að hann lognaðist út af. Líkt og tíðkaðist á þeim árum voru eingöngu karlmenn boðnir í hópinn, enda konur fáar meðal fræðimanna í Oxford á þessum árum. Bækur sem ræddar voru á þessum fundum og sjálfsagt betrumbættar eru meðal annars Hringdróttinssaga Tolkiens, Out of the Silent Planet eftir C.S. Lewis og All Hallows‘ Eve eftir Charles Williams.
Algonquin-hringborðið
The Algonquin Roundtable hittist í hádeginu á Algonquin-hótelinu í New York. Þar sátu við hringborðið George Kaufman, Dorothy Parker, Harold Ross, Edna Ferber, Robert Benchley og Harpo Marx. Hluti hópsins var skemmtikraftar eða þeir Robert Benchley og Harpo Max en Harold Ross er stofnandi The New Yorker Magazine. Hópurinn kom saman á árunum 1919-1929 og líklega hefði ekki verið leiðinlegt að vera þar fluga á vegg. Það var bróðir, Harpo, Groucho sem sagðist ekki vilja vera meðlimur í klúbbi sem vildi hafa hann innanborðs svo kannski var hann þess vegna ekki með.
Í hópnum ríkti andrúmsloft léttleika og gleði. Þetta var á árunum eftir fyrri heimstyrjöld og mikil bjartsýni ríkti allt fram að hruninu á Wall Street árið 1929. Heimstyrjöldinni var lokið og það var stríðið sem enda myndi öll stríð, efnahagur Bandaríkjanna var í gríðarlegri uppsveiflu og sköpunarkraftur listamanna í hámarki. Allir þarna voru orðheppnir, skemmtilegir og afburðagreindir. Grínistarnir prófuðu brandara sína á hinum, leikskáldin og rithöfundarnir lásu texta sína fyrir hina og gagnrýnendurnir í hópnum gáfu ráð. Sagt er að einhverju sinni hafi einn þeirra manað Dorothy Parker til að nota orðið horticulture eða garðrækt í setningu og hún svarað: „You can lead a whore to culture but you can’t make her think.“ Eða á íslensku: „Þú getur leitt hóru að menningunni en þú getur ekki neytt hana til að hugsa.“ Orðleikurinn missir marks á íslensku en þetta er lýsandi fyrir hvernig samræður fór fram í hádeginu á þessu virðulega hóteli. Harold Ross fékk mörg þeirra til að skrifa greinar og pistla í tímaritið en af og til náði keppnisskapið og öfundin tökum á þeim. Edna Ferber skrifaði síðar. „Þau voru miskunnarlaus ef þeim mislíkaði eitthvað. Ég hef aldrei rekist á jafn harðskeytt lið. En ef þeim líkaði það sem maður gerði sögðu þau það opinberlega og hástöfum.“ Í sama pistli kallaði hún þau: „Eiturgengið“. Það er því ljóst að ekki var alltaf allt kyrrt þeirra í milli. Meðal bóka sem urðu til á þessum árum eru ljóð Dorothy Parker og skáldsagan So Big eftir Ednu Ferber.
Endurreisnin í Harlem
The Harlem Renaissance eða The New Negro Movement var virk á áratugnum eftir hringborðið á Algonquin-hótelinu. Í hópnum voru þau Langston Hughes, Zora Neale Hurston, Jean Toomer, Claude McKay og um það bil tuttugu aðrir þeldökkir rithöfundar sem skrifuðu á þessum árum og voru búsettir í New York. Þetta fólk kom saman til að styrkja eigin raddir og hvetja til þess að þeldökkir í Bandaríkjunum skrifuðu sjálfir um eigin reynslu. Á sama tíma voru þau virk í réttindabaráttu svartra og fannst að mikilvægt tæki í henni væri að segja sögur og koma til skila í bókmenntum því misrétti sem ríkti í samfélaginu.
Wallace Thurman, Langston Hughes og Zora Neale Hurston voru helstu höfundar hugmyndafræðinnar. Wallace og Langston og leiddu frægar rökræður á heimilum sínum í New York en Zora bauð öllum til veislu. Hún setti stóran pott á eldavélina og allir gestir áttu að koma með eitthvað til að bæta í hann og svo var elduð kássa áður en sest var að borðum og spjallað um kjör og líf svertingja.
Þetta voru bráðgáfaðir einstaklingar, sterkir og ákveðnir og þau höfðu gríðarleg áhrif á allt samfélagið, jafnt hvíta sem svarta. Í fyrsta sinn voru menn neyddir til að taka þeldökka rithöfunda alvarlega og fjalla um verk þeirra. Þetta var að þeirra mati nauðsynlegt fyrsta skref í því að svartir tækju ábyrgð á eigin menningu og segðu sjálfir frá á sinn hátt því sem þeir vildu koma til skila. Þær bækur sem eru áhugaverðar frá þessum hópi eru: The Weary Blues eftir Langston Hughes, Their Eyes Were Watching God eftir Zora Neale Hurston, en Oprah Winfrey gerði sjónvarpsþáttaröð byggða á þeirra bók og að lokum Cane eftir Jean Toomer.
Febrúarhúsið
The February House var hópur rithöfunda sem bjó saman í húsi í Brooklyn í nokkur ár upp úr 1940. Meðal íbúa voru: W. H. Auden, Carson McCullers, Paul og Jane Bowl og tónskáldið Benjamin Britten. Um tíma bjuggu þar einnig tenórinn Peter Pears og nektardansmeyjan Gypsy Rose Lee. Kannski væri óhætt að segja að February House hafi fremur verið samfélag eða kommúna listamanna. Þangað sóttu nokkrir frjóustu hugsuðir þessa tíma og þeir komu saman í Brooklyn, drukku, spjölluðu, slógust og unnu. Í þessu andrúmslofti bóhemísks frelsis urðu meistaraverk Carson McCullers til, The Member of the Wedding og The Ballad of the Sad Café. Þarna unnu þeir líka saman að fyrstu óperu Benjamins Britten, hann og W.H. Auden. Það er einnig sagt að hann hafi stutt Jane Bowl meðan hún skrifaði skáldsöguna Two Sophisticated Ladies. Gypsy Rose Lee var líka ekki bara burlesque-dansari og lipur að hrista kroppinn, hún samdi sinn fyrsta reyfara The G-String Murders undir áhrifum frá hópnum.
Sambýlið var hins vegar ekki alveg án togstreitu og Auden fór að kalla hópinn, Miss Mess vegna þess hve óreiðusöm þau voru í fleiri en einum skilningi. Hann reyndi mikið í hverjum mánuði að ná saman leigunni en ekki voru allir sérstaklega skilvísir. Hjónin Jane og Paul Bowl voru fræg fyrir hatrömm rifrildi sín og oft bárust skrautleg hróp og köll úr herbergjum þeirra. En þrátt fyrir dramatískar uppákomur var þetta gjöfull tími og margar merkilegar bækur sem út komu meðan á sambýlinu stóð.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.