Ellin er mikilvægt og dásamlegt æviskeið

Valgerður í sælureitnum í Fnjóskadal Mynd: Hrefna Harðardóttir

Valgerður í sælureitnum í Fnjóskadal. Mynd Hrefna Harðardóttir

Mér finnst ellin spennandi fyrirbæri.  Mér hefur alla tíð þótt alveg sérlega gaman að eldast. Það þýðir ekki að tilhugsuninni um ellina fylgi enginn kvíði. Það er margt kvíðvænlegt við að eldast í nútíma samfélagi.  Mér finnst ellin jafn mikilvægt og dásamlegt æviskeið og öll hin. Ég er farin að skynja ellina í mínu eigin lífi og það veldur mér gleði.  Mér finnst ég eiga auðveldara með ákveðna auðmýkt gagnvart lífinu og tilverunni.“ Þetta segir Valgerður H. Bjarnadóttir félagsráðgjafi þar sem við sitjum og spjöllum í stofnni heima hjá henni á Ljósvallagötu í Reykjavík.

Líklegri til að verða heilsulaus

„En svo horfi ég á heilbrigðiskerfið og hvernig fólkið í kringum mig er að eldast. Það er auðvelt að einangrast í ellinni og missa heilsuna. Það eru meiri líkur á að ég verði heilsulaus í ellinni, en á yngri árum. Hrörnunin veldur því að það tekur líkamann lengri tíma að lækna það sem úrskeiðis fer“, segir hún en bætir við að hún hafi þekkt fullt af fólki sem hafi farið í gegnum lífið með alls kyns sjúkdóma og átt gott líf.  En viðhorfið og það hvernig samfélagið býr að fólki í ellinni, ráði miklu um það hvort það sé slæmt að verða gamall.

Lífið er hringur

Það er viðhorf Valgerðar, sem rekur fyrirtækið Vanadísi SJÁ HÉR sem býður uppá  handleiðslu, ráðgjöf og mörg spennandi námskeið, að lífið sé hringur og til að eldast vel, þurfi menn að vera meðvitaðir um æsku sína og fullorðins ár.  „Það er algeng hugmynd um núvitund að menn eigi hvorki að hugsa um fortíð né framtíð. En það er ekki hægt að vera í núinu nema menn hafi fortíðina og framtíðina á hreinu“, segir hún.  Sjálf leit Valgerður fyrst dagsins ljós í húsi afa síns og ömmu á Akureyri fyrir rúmlega sex áratugum.  Hún var einkabarn foreldra sinna Kristjönu Ríkeyjar Tryggvadóttur og Bjarna Sigurðssonar, sem var aðeins 19 ára gamall þegar hún fæddist.

Ætlaði að verða fornleifafræðingur

Fjölskylda Valgerðar í Sellandi árið 1956. Hún stendur fyrir miðju á myndinni fyrir framan fullorðna fólkið.

Fjölskylda Valgerðar í Sellandi árið 1956. Hún stendur fyrir miðju á myndinni fyrir framan fullorðna fólkið.

Bernskusumrin hjá föðurafa hennar og ömmu í Sellandi í Fnjóskadal liðu áfram eins og ævintýri.  Þar sem Valgerður hljóp upp um hóla og hæðir ásamt frændum sínum og frænkum, geistist um á hestbaki og plantaði trjám.  Börnin höfðu einnig það hlutverk að stugga við kindum sem lögðu leið sína í skógræktina.  Afi Valgerðar var prentsmiðjustjóri á Akureyri og dreymdi um það að geta í framtíðinni ræktað sinn eigin skóg til að sjá prentsmiðjunni fyrir pappír. Á þessum árum ætlaði Valgerður að verða fornleifafræðingur og sökkti sér í sögur og ævintýri.  Hún las Hómerskviður og hofgyjurnar í Týndu dölunum í Tarsanbókunum höfðuðu mikið til hennar.

Nám í Noregi

En það átti ekki fyrir Valgerði að liggja að verða fornleifafræðingur og heldur ekki leikkona eða sálfræðingur eins og hún var að velta fyrir sér á tímabili.  Eftir að hafa prófað sig áfram um hríð, meðal annars með því að fara í leikhúsfræði í Avignon í Frakklandi, hélt hún í nám í félagsráðgjöf í Osló í Noregi og settist á skólabekk í Socialhögskolen á Bygdö. Skólinn tók inn einn íslenskan nemanda á ári, og Valgerður var Íslendingurinn í sínum árgangi.

Passar ekki inní kassann

Þarna fékk hún sína pólitísku eldskírn, en mikil pólitísk vakning átti sér stað á þessum árum 1977-1980.   Stúdentarnir skiptust í meira róttæka hópinn og minna róttæka hópinn.  Þeir örfáu hægri menn sem þarna voru, voru vart taldir með tegundinni.  Valgerði fannst hún frekar eiga heima í róttækari hópnum, en það var ekki einhlítt og hún segist alltaf hafa átt erfitt með að tileinka sér „rétttrúnað“ í pólitík og trúarbrögðum.  Hún hafi þó mjög sterkar skoðanir á hvoru tveggja.

 Ekki hægt að skorast undan

Þegar Valgerður kemur frá námi í Noregi árið 1980, fer hún að vinna sem félagsráðgjafi á spítalanum á Akureyri og fljótlega lætur hún til sín taka í jafnréttisbaráttunni, ásamt fleiri ungum konum sem  sumar höfðu einnig verið erlendis í námi.  Þær stofna Jafnréttishreyfinguna, en uppúr henni spratt kvennabramboðið sem bauð fram til bæjarstjórnar á Akureyri árið 1982.  Það var haldið forval til að raða konum á listann. „Þá gerist það mér á óvörum að ég er valin í fyrsta sætið.  Ég var 28 ára þarna og ekki á leiðinni í bæjarstjórn, en það var ekki hægt að skorast undan“.

Kvennaframboðskonur fagna sigri á kosninganótt 1982

Kvennaframboðskonur fagna sigri á kosninganótt 1982

Unnu stórsigur í bæjarstjórnarkosningum

Kvennaframboðið vann stórsigur í bæjarstjórnarkosningunum, fékk tæp 18% atkvæða og  2 konur kjörnar í bæjarstjórn. Myndaður var meirihluti með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi, sem Alþýðuflokkurinn veitti stuðning sinn.  Sjálfstæðisflokkurinn var í minnihluta.  Valgerður var fyrsta konan sem varð forseti bæjarstjórnar á Akureyri. „Mér fannst þetta allt gaman, mjög lærdómsríkt og svakalega erfitt. Líklega voru þetta erfiðustu ár ævi minnar“ rifjar hún upp. „Ég kynntist barnsföður mínum í kosningabaráttunni og varð ófrísk um það leyti sem ég tók sæti í bæjarstjórn.  Ég var því ófrísk fyrsta árið. Var líklega yngsti forseti bæjarstjórnar frá upphafi og fyrsta konan sem gengdi þessu embætti.  Það var bullandi ágreiningur innan kvennaframboðsins og ég var komin í ofbeldissamband. Þetta var býsna stór biti í einu fyrir unga og óreynda konu. Ég varð móðir og líka stjúpmóðir barns, sem barnsfaðir minn átti áður og bjó hjá okkur. Hann var heillandi maður, eldklár og skemmtilegur en hann var ofbeldismaður og hafði aldrei horfst í augu við það“.

Valgerður, í embætti forseta bæjarstjórnar

Valgerður,  þegar hún var í bæjarstjórn Akureyrar

Flúði að heiman

Valgerður segist hafa lært mikið af þessu tímabili og að lokum fór það svo að hún flúði að heiman með dóttur sína. Vinkonur og fjölskylda aðstoðuðu hana, hún leigði sér íbúð og lífið hélt áfram. „Mér finnst eftirá að þessi lífsreynsla hafi mótað mig og kennt mér mikið. Ég var heppin að hafa góðan grunn til að byggja á, gott tengslanet og stuðning. Það er býsna mikið til í því að það sem ekki brýtur þig, það styrkir þig“, segir Valgerður.  Hún segir að líf hennar hafi breyst mikið við þessa reynslu.  Henni fannst að hún hefði ekki áður kynnst raunverulegum sársauka og erfiðleikum.  „Mér fannst ég skilja lífið í sínum margbreytileika betur en áður. Eftir að hafa horfst í augu við það, að ég gæti elskað eitthvað og þráð sem var tortímandi fyrir mig. Að þurfa að gefa upp ástina vegna þess að hún var tortímandi, ekki bara fyrir mig heldur líka barnið sem ég elskaði mest“.

Valgerður í hringborðsumræðu með norrænum og breskum konum á ráðstefnu um menningararf kvenna

Valgerður í hringborðsumræðu með norrænum og breskum konum á ráðstefnu um menningararf kvenna

Lífsvefurinn styrkir konur

Valgerður segir að þetta hafi kennt sér í starfi sínu sem félagsráðgjafi, að það er ekki hægt að setja sig að fullu inn í tilfinningar annarrar manneskju. Það tók langan tíma, en ég lærði að dæma hvorki sjálfa mig né aðra.  Eftir þetta byrjaði Valgerður, ásamt Karólínu Stefánsdóttur að kenna námskeið sem þær kölluðu Lífsvefinn og er sjálfsstyrking fyrir konur.  Það var fyrst haldið árið 1992 og Valgerður er enn að halda þetta námskeið, þótt það hafi tekið breytingum með nýrri þekkingu. Það byggist á því að horfa á lífið og tilveruna sem hring, eða heild. Þetta er lífssýn sem finnst í fornri menningu, m.a. meðal frumbyggja víða um heim, en liggur líka í okkar evrópsku rótum. Það þarf að ríkja jafnvægi milli karla og kvenna, milli manns og náttúru og milli ólíkra þátta lífsins.  Valgerður ákvað 1995 að afla sér frekari þekkingar á þessu sviði og fór í MA nám í femínískri  trúarheimspeki og menningarsögu í San Fransiskó, auk þess að ljúka BA gráðu í heildrænum fræðum (Integral Studies).

Ekki náttúrulögmál að karlar ráði

Jafnréttisbaráttan hefur verið Valgerði hugleikin. Hún segir að menn haldi gjarna á hverjum tíma að þeir hafi náð meiri árangri en fyrri kynslóðir, og nú finnist okkur það lögmál gilda til dæmis í jafnrétti karla og kvenna.  En þetta sé alrangt. Karlveldið sé tiltölulega ungt fyrirbæri í sögunni.  Allt fram til ca. 5500 fyrir okkar tíma bendi flest til að víðast hvar hafi kynin skipt með sér verkum og völdum og lifað saman í jöfnuði og sátt. Það hafi í raun lengst af verið til samfélög þar sem konur hafi haft meiri völd en karlar og samfélög þar sem kynin hafi verið jöfn.  Hún segir að í Kína hafi fundist samfélag sem var einangrað í 2000 ár.  Þar hafi verið einfalt mæðraveldi.  Ættmóðirin sat í eins konar valdamiðju og tók lokaákvarðanir, en konur og karlar með ólíka getu og hæfni skiptu jafnt með sér verkum.

Áhrifamesta konan á 12.öld

Valgerður í hlutverki völvunnar í einleiknum Konur úr sögunni

Valgerður í hlutverki völvunnar í einleikjum um konur úr sögunni

Valgerður nefnir líka þýsku abbadísina Hildegaard von Bingen, sem var áhrifamesta kona Evrópu á sínum tíma, en hún var uppi á 12 öld.  Hún var tónskáld, læknir, náttúrufræðingur og rithöfundur. „Hún var í þeirri stöðu að hún gat skrifað páfa skammarbréf“, segir Valgerður.  Hún segir að þessar staðreyndir sýni að kynin geti verið jöfn og það sé gott að vita að svo hafi verið. „Það er ekkert náttúrulögmál að karlar ráði yfir konum, heldur valdastrúktúr“ bætir hún við.  Hún segir mikilvægt að muna að þetta geti allt breyst.  „Á einni nóttu getum við misst öll réttindi sem við höfum. Bara við valdaskipti.  Við sáum það gerast í Afghanistan og Írak.  Einn daginn ertu í valdastöðu sem háskólakennari en næsta dag ertu orðin ambátt“.  Það er líka spurning hvað gerist ef maður eins og Trump kemst til valda í Bandaríkjunum. Það gæti kollvarpað margra kynslóða baráttu vestanhafs.

 

 

 

Ritstjórn apríl 1, 2016 12:37