68 ára tískutákn

Allt frá því Diane Keaton lék Annie Hall í samnefndri kvikmynd Woody Allens frá 1977 hefur fatastíll hennar verið áþekkur þeim sem einkenndi Annie Hall; karlmannsjakki, vesti, víðar buxur og skyrta með bindi. Hattur og skyggð gleraugu kórónuðu svo múnderinguna. Vart má á milli sjá hvor er meira tískutákn, Annie Hall eða leikkonan sjálf, sem nú er 68 ára og – eins og sagði í People Magazine í fyrra, er engri lík og virðist ekkert eldast.

Woody Allen upplýsti mörgum árum eftir frumsýningu myndarinnar að Keaton hafi átt jafn mikinn þátt í að skapa fatastíl Annie Hall og sjálfur leikbúningahönnuðurinn, þetta hafi verið hennar stíll löngu áður en tökur hófust. Og er enn 37 árum eftir að hún hampaði Óskarnum fyrir hlutverkið. Það er því ekki orðum aukið að segja að Diane Keaton hafi verið tískutákn í áratugi. Hún liggur heldur ekki á liði sínu að fjalla um tísku á samfélagsmiðlum eins og Twitter og Printerest þar sem hún er býsna afkastamikil og hefur hafið Annie Hall-tískuna, eins og hún er kölluð, enn frekar til vegs og virðingar. Þar fjallar hún einnig um hár, snyrtingu og flest sem lýtur að útliti. „Mér til skemmtunar,“ segir leikkonan, sem í áranna rás hefur uppskorið lof og prís fyrir látlausan og sígildan klæðnað.

Með lífið í vösunum

Hún er ekki mikið gefin fyrir að láta skína í bert hold eins og margar kynsystur hennar í Hollywood. Harðneitaði til að mynda í árdaga ferilsins að koma nakin fram í lokaatriði Hársins þegar það var sýnt á Broadway 1968 og hlaut nokkuð umtal fyrir pempíuskapinn. Rúllukragapeysur eru í miklu uppáhaldi hjá henni líkt og persónunni sem hún lék í Something’s Gotta Give árið 2003. Mótleikari hennar var Jack Nicholson og er hann einmitt í myndinni látinn nöldra yfir þessum „kynþokkalausu“ flíkum.

Í stórum dráttum segir Keaton að sér líði ennþá best í jakka og síðbuxum og finnist pils og kjólar óþægileg. Hún er hrifin af Ralph Lauren, rétt eins og Annie Hall, og leggur áherslu á klæðskerasaumaðan fatnað, sem sé bráðnauðsynlegur fyrir „herðalausar“ konur eins og hana. Þá kveðst hún aldrei ganga með töskur eða veski, líf hennar sé í vösunum, djúpum vösum, þannig hafi hún frjálsar hendur. Fatastíllinn einkennist ekki af litagleði, enda notar hún sterka liti eins og aðrir nota skart og fylgihluti. Raunverulegir fylgihlutir Keaton eru hins vegar hattar, gleraugu og hanskar og á stundum hálstau að hætti karla.

Bros fer öllum vel

„Með aldrinum eru ýmis ráð til að líta vel út, til dæmis viðhorfið til lífsins – brosið. Það lýsir hlýju og fer öllum vel,” segir leikkonan, sem fyrir tíu árum lýsti því yfir í tímaritinu More að hún væri ekki hrifin af andlitslyftingu, a.m.k. ekki fyrir sjálfa sig, hún vildi nefnilega að andlit sitt speglaði tilfinningar. Trúlega hefur hún þó ekkert á móti „fótósjoppi“, frekar en svo margir, eins og þegar hún var fyrirsæta hjá L’Oréal um svipað leyti og hún hélt ræðu á Golden Globe hátíðinni í byrjun ársins. Ýmsum fannst snyrtivöruframleiðandinn hafa farið offari í myndvinnslunni og gárungarnir höfðu á orði að Keaton hefði elst ógnarhratt á þeim fáu mánuðum, sem liðu frá birtingu auglýsinganna og þar til hún sté á stokk á fyrrnefndri hátíð.

Í áranna rás hefur Keaton ekki aðeins verið leikkona heldur einnig framleiðandi, leikstjóri og handritshöfundur. Samhliða hefur hún haft mörg járn í eldinum, til dæmis hefur hún beitt sér fyrir verndun gamalla húsa, einkum á Los Angeles svæðinu, og bæði skrifað og verið meðhöfundur bóka um byggingarlist. Þá hefur hún keypt, endurhannað og selt fjölda glæsivilla þar um slóðir og þykir liðtækur ljósmyndari.

Árið 2011 gaf Keaton út ævisögu sína, Then Again eða Síðan aftur, og í vor kom út eftir hana bókin, Let’s Just Say it Wasn’t Pretty, sem gæti útlaggst sem Segum aðeins að það hafi ekki verið fallegt, þar sem hún fjallar opinskátt og með gáskafullum hætti um fegurð, öldrun og mikilvægi þess að vera sjálfum sér samkvæmur hvað sem á dynur og hvað sem öðrum kann að finnast. Án efa lumar Diane Keaton á nokkrum góðum ráðum í bókinni.

 

 

Kápa nýju bókarinnar eftir Diane Keaton

Kápa nýju bókarinnar eftir Diane Keaton

 

 

 

 

Ritstjórn júlí 10, 2014 07:30