Sautján ára snót árið 1966

Systkinin saman á Nauthól í ágúst í fyrra skömmu áður en Kolbrún fór í aðgerðina.

Kolbrún kemur til dyranna í sterkappelsínugulri treyju yfir svartan bol og buxur. Fötin voru sérlega klæðileg og segir líklega sína sögu um líflegan persónuleika Kolbrúnar. Hún er hárlítil núna enda í miðri lyfjameðferð en Kolbrún greindist með krabbamein í brjósti seint á síðasta ári.

Hélt að verið væri að grínast í sér

Kolbrún Una var 17 ára snót árið 1966 þegar hún var að koma af skíðavikunni á Ísafirði og fékk símtal frá Sigríði Gunnarsdóttur, sem þá var umsjónarmaður Fegurðarsamkeppni Íslands. Hún sagði Kolbrúnu að bent hefði verið á hana sem þátttakanda í Fegurðarsamkeppninni. Kolbrún tók þessu mátulega alvarlega og hélt að verið væri að grínast í sér. Þegar Sigríður hringdi í þriðja sinn runnu tvær grímur á Kolbrúnu sem viðurkennir að auðvitað hafi það kitlað hana að hún skyldi vera beðin um að taka þátt í þessari keppni og seinna komst hún að því að það var Theodóra Þórðardóttir sem hafði bent á hana. Hún segist reyndar hafa sagt við Sigríði þegar hún hringdi í þriðja sinn að hún væri ekki einu sinni búin með gagnfræðaprófið hvort það væri ekkert skilyrði, en hún kláraði það ekki fyrr en um vorið. Sigríður sagði svo ekki vera þannig að Kolbrún sló til. Hún fór í æfingabúðir hjá frú Sigríði þar sem þátttakendunum fimm var m.a. kennt rétt göngulag með bækur á höfðinu á pinnaháum hælum. Kolbrún segir að það hafi verið geysilega gaman fyrir unga stúlku að taka þátt í þessu ævintýri sem var sannarlega öðruvísi líf en henni hefði annars boðist og setti tóninn fyrir það sem á eftir kom.

Pálína Jónmundsdóttir krýnir Kolbrúnu 1966 en hún hafði áður hlotið titilinn.

Bar þetta undir pabba

En áður en Kolbrún samþykkti endalega að taka þátt í keppninni bar hún þetta undir föður sinn. „Hann sagði þá: „Já Kolbrún mín, gerðu það bara. Það verður einhver að vera síðastur.“ Þetta svar hans voru vonbrigði og ég hugsaði að ég skyldi sko sýna honum að ég gæti nú bara alveg staðið mig vel. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en seinna að pabbi var í raun og veru að kenna mér lexíu með því að svara mér svona. Þegar maður tekur þátt í keppni, sama af hvaða toga hún er, þá fara allir með því hugarfari að vinna en útkoman verður ekki alltaf eins og maður vill. Og það er þá engin minnkun í því að vera aftar í röðinni. Þetta var líklega svolítið klókt hjá pabba.“ Seinna áttaði Kolbrún sig á því að faðir hennar hafði orðið mjög hreykinn af dóttur sinni  og fann út að hann hafði klippt út allar umfjallanir um keppnina og geymt.

Þá heiti ég ekki Kolbrún lengur

Kolbrún er með skarð milli framtannanna, svokallað frekjuskarð. Það er augljóslega mjög sjarmerandi en Kolbrún segir að það hafi komið til tals að laga þetta skarð þegar hún var 12 ára. Þegar tannlæknirinn sagði henni hvað þyrfti að gera sagði Kolbrún: „En þá heiti ég ekki Kolbrún lengur,“ og afþakkaði aðgerðina. Líklega er þetta eitt af því sem gerir Kolbrúnu óvenjulega í útliti en hún segir að í fegurðarsamkeppnisheiminum hafi ekki þótt fallegt að vera öðruvísi svo líklega hafi skarðið skemmt fyrir henni í stóru keppnunum. En hún er sjálf mjög sátt við skarðið sitt.

Kolbrún á strönd skammt frá heimili bróður hennar í New Jersey þar sem hún var í heimsókn í hitteðfyrra.

Ákvað að vera í rauðum kjól

Kolbrún var yngst, ásamt öðrum keppanda, af þeim fimm sem tóku þátt í keppninni í þetta sinn en henni fannst hún alltaf vera eins og barnið í hópnum. „Hljómsveit Ólafs Gauks var húshljómsveit í Lídó þar sem keppnin var haldin og spilaði við athöfnina. Ólafur leyfði okkur að velja lögin sem voru spiluð þegar við komum fram en við áttum að koma fram í sundbol og svo í kjól. Fyrst vorum við sýndar og svo var valið,“ segir Kolbrún og brosir. „Við drógum númer um það í hvaða röð við kæmum fram og ég dró númer 5 svo ég var síðust á svið. Stelpurnar völdu allar róleg og rómantísk lög svo mér fannst tilvalið að velja fjörugt lag. Ég spurði Ólaf hvort hann gæti spilað fyrir mig Peter Gun lagið sem var úr samnefndum sjónvarpsþætti í kanasjónvarpinu. Þetta var rosalega kröftugt og fjörugt lag og ég ákvað að vera í rauðum kjól en stelpurnar voru allar í hvítum kjólum.“

Kjóllinn og lagið réðu úrslitum

Kolbrún segist vera viss um að rauði kjóllinn og fjöruga lagið hefðu haft úrslitaáhrif á það hver var valin sigurvegari þetta kvöld. „Þegar búið var að velja fjórar af fimm í ýmis hlutverk var ég ein eftir og þá rann upp fyrir mér að möguleikinn væri raunverulegur að ég myndi sigra. Ég hafði sannarlega ekki látið mér detta það í hug heldur var þetta eitt stórt ævintýri sem átti bara eftir að verða stærra.“

Fékk Miss Universe þátttöku í verðlaun

Kolbrún fékk í verðlaun að fara á Miss universe keppnina sem þá var  haldin í Los Angeles en áður en allt þetta gerðist var hún búin að ráða sig sem au pair til London. „Mamma hafði reynt að fá lán í banka til að senda dóttur sína í enskuskóla til London. Hún fékk synjun af því bankastjórinn taldi hana vera að útvega sér peninga fyrir sumarleyfisferð. Svo ég sá þennan möguleika í stöðunni að fara sem au pair og læra enskuna bara þannig.“ Kolbrún kunni augljóslega að bjarga sér og dó ekki ráðalaus. Hún fór til London tveimur dögum eftir að hún sigraði í keppninni en hún átti að fara í Miss Universe vorið eftir, þ.e. ´67. Sú sem átti að fara í Skandinavíukeppnina forfallaðist og þá var hringt í Kolbrúnu og hún beðin um að hlaupa fyrirvaralaust í skarðið í keppninni sem haldin var í Helsinki. „Þetta var enn eitt ævintýrið og þegar ég færði þetta í tal við hjónin sem ég var au pair hjá fannst þeim mjög spennandi að vinnukonan þeirra væri að fara í fegurðarsamkeppni svo það varð úr og enn eitt ævintýrið brast á. Við komumst ekki í neitt sæti en þetta var ægilega gaman.“

Undirbúningur fyrir Miss Universe

Þegar dvöl Kolbrúnar í London lauk hófst undirbúningur fyrir Miss Universe keppnina fyrir alvöru. Hún hafði fengið kjólaúttekt hjá Báru í verðlaun en fannst nú ekki beint passandi kjólar fyrir sig þar, því hún var ekki nema 18 ára þarna. Kolbrún þurfti að fá lánaðan skautbúning því þátttakendur áttu allir að vera í þjóðbúningum í keppninni. Allir  þurftu að sjá um að útvega allt til keppninnar sjálfir og Kolbrún segir að móðir hennar hafi þurft að keyra hana út um allt til að ná dótinu, sem hún þurfti að hafa með sér, saman. Þær hafi reyndar skemmt sér mikið við þetta en fyrirhöfnin var ómæld.

Hóf störf hjá Loftleiðum

Þegar Kolbrún kom heim frá London fékk hún starf í flugafgreiðslunni á hótel Loftleiðum og þar með var framtíðin ráðin og ferðabransinn hafði heltekið Kolbrúnu. Þegar hún var búin að taka þátt í Miss Universe fann hún að þessu tímabili var lokið í lífi hennar en þetta hafði verið geysilega skemmtilegur tími. En öll ævintýri taka enda og þetta líka. Hún upplifði annars konar ævintýri í framhaldinu og segist síðan elska stóra eplið, New York. Kolbrúnu var boðin staða hjá Loftleiðum í New York þar sem hún var í allmörg ár, fyrst var hún ráðin í 6 mánuði sem enduðu í 11 árum.  Hún fór ekki mikið heim en móðir hennar og bróðir komu oft til hennar. Þegar Kolbrún var búin að vera í 11 ár í New York kvæntist bróðir hennar heima á Íslandi og Kolbrún kom heim til að vera við brúðkaupið.

Kynntist manni á Íslandi

Í þeirri ferð kynntist Kolbrún manni, Davíð Kr. Guðmundssyni, sem hún varð yfir sig ástfangin af. Hann bauð henni í ferð um Snæfellsnes í ágúst svo Kolbrún fór út til New York en kom aftur til að fara í ferðina sem reyndist verða enn eitt ævintýrið í lífi hennar. Davíð var ættaður frá Ólafsvík og gat sagt Kolbrúnu sögu svæðisins og ekki skemmdi fyrir að veðrið var himneskt. Kolbrún segir að þau hafi ekið um allt Snæfellsnesið með Brunaliðið í kasettutækinu og Kolbrún söng hástöfum allan tímann. Þarna ákvað hún að nú væri nóg komið af New York og flutti heim. Þau Davíð fóru að búa og saman eignuðust þau son. Samband þeirra entist ekki en þau voru góðir vinir alla tíð. Davíð er nú látinn.

Tók þátt í Arnarflugsævintýrinu

Þegar Kolbrún var komin heim fór hún að vinna hjá Loftleiðum á Keflavíkurflugvelli, en eftir að hún eignaðist drenginn fór hún að vinna á söluskrifstofu Loftleiða á Hótel Esju. Stúlkurnar sem unnu saman þar tóku sig saman og fóru fram á launahækkun fyrir vinnu sína. Ein úr hópnum sveik lit og eyðilagði þessa kjarabaráttu þeirra. Þá var Arnarflug að fara af stað með áætlunarflug og þar fór Kolbrún að vinna á sömu kjörum og þær höfðu farið fram á hjá Loftleiðum. „Loftleiðamenn urðu okkur reiðir fyrir að gera þetta en voru menn að meiri að sættast við okkur seinna,“ segir Kolbrún sem er sátt við starfsferil sinn en segist núna vera í öðru verkefni sem er baráttan við krabbameinið. „Það er verkefni sem mér var falið núna og þá er ekki annað en að takast á við það,“ segir þessi hressa kona sem hefur alla tíð farið sínar eigin leiðir og uppskorið eftir því. Kolbrún segist vera búin að fara í gegnum allan tilfinningaskalann frá því hún greindist með krabbameinið en reynir af fremsta megni að fást við þetta verkefni, sem henni var fengið, af skynsemi. Hún sækir  mikið í Ljósið sem er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og gefur þeim stað sína hæstu einkunn.

 

Ritstjórn febrúar 8, 2018 12:51