Er hægt að aldursgreina fólk út frá líkamslykt?

Vísindamenn telja að fólk geti aldursgreint annað fólk út frá líkamslykt. Margir halda því fram að eldra fólk lykti meira og ver en yngra fólk. En samkvæmt rannsókn sem birt er á vefnum The Globe and Mail gæti þetta verið byggt á fordómum, okkur hafi verið talin trú um að það sé til sérstök „elli lykt“. Vitnað er í rannsókn þar sem safnað var líkamslykt rúmlega 40 einstaklinga á mismunandi aldri. Þeir yngstu voru á aldrinum 20 til 30 ára, þá voru það þeir sem flokkaðir voru sem miðaldra þeir voru á aldrinum 45 til 55 ára og svo þeir sem töldust aldraðir en þeir voru á aldrinum 75 til 95 ára.

Þeir sem tóku þátt í rannsókninni voru beðnir um að klæðast bolum með sérstökum púðum í handveginum. Fólkið var látið sofa í bolunum  fimm nætur í röð.  Jafnmargir þeim sem tóku þátt í rannsókninni voru að því loknu beðnir um að lykta af púðunum og geta sér til um hvaða aldurshópi púðarnir tilheyrðu.

Johan Lundstrom hjá Monell Chemical Senses Center í Fíladelfinu var einn aðstandenda rannsóknarinnar.  Hann segir að það hafi komið á óvart hversu auðvelt fólk átti með að aldursgreina fólk út frá líkamslykt. Hann segir að það hafi líka komið á óvart að þeir sem mátu lyktina töldu að lyktin af elsta fólkinu væri tiltölulega hlutlaus. Lyktin af hinum tveimur hópunum væri stækari og verri.  Lundstrom segir að í ljósi þessa hafi vísindamenn áhuga á að kanna hvort að hægt sé að greina sjúkdóma út frá líkamslykt. Það sé vitað að sumir bakteríustofnar sem herja á fólk geti breytt líkamslykt þess. Ef menn gætu sjúkdómsgreint fólk út frá lykt gæti það einfaldað sjúkdómsgreiningar og hugsanlega yrði hægt að stytta þann tíma sem tekur að greina ákveðna sjúkdóma.

Ritstjórn ágúst 8, 2019 09:49