Um fjórðungur lætur heyrnartækin liggja niðri í skúffu

Það er dýrt að kaupa heyrnartæki, en Sjúkratryggingar Íslands veita styrki til heyrnartækjakaupa að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.  Styrkurinn er 50.000 krónur á hvort eyra.  Rannsóknir í Noregi sýna að margir bíða alltof lengi með að leita sér aðstoðar vegna heyrnartaps. Það geta liðið 10 ár, frá því menn finna að heyrnin sé farin að bila, þar til þeir fá sér heyrnartæki. Þar á ofan bætist að fjórðungur þeirra semfær heyrnartæki, notar þau ekki. Haft er eftir Geir Selbæk prófessor við Háskólasjúkrahúsið í Osló í grein í blaðinu Voxen, að það sé skiljanlegt að margir setji heyrnartækin niður í skúffu. „ Málið er ekki bara að setja á sig tækin og þá heyri fólk allt um leið, meira að segja fuglasönginn í loftinu og snarkið í arninum.  Það þarf að venjast tækjunum og það getur tekið tíma. Þegar menn eru búnir að aðlagast þeim sjá þeir hvað þau breyta miklu“, segir hann.

Þegar allir eru farnir að muldra í kringum þig

Þetta snýst um að heilinn þarf að læra að túlka hljóðin í gegnum heyrnartækið og í flestum tilfellum tekur það einhvern tíma. Sjálfur notar prófessorinn heyrnartæki, enda heyrnartap algengt í hans fjölskyldu. Hann segist verða alveg uppgefinn eftir vinnudaginn, hafi hann gleymt heyrnartækinu heima. Þá fari öll orkan í að reyna að heyra hvað sjúklingar og námsmenn séu að segja við hann.  Það var einmitt í gegnum samkipti við aðra sem hann uppgötvaði að hann var farinn að missa heyrn. „Þegar maður fer að pirra sig á því að allir séu farnir að muldra í kringum mann, þá er það vísbending um að það þurfi að láta tékka á heyrninni“, segir hann.

Þarf að grípa snemma inní

Í greininni kemur líka fram að vísindamenn séu í auknum mæli farnir að beina athyglinni að tengslum slæmrar heyrnar og heilabilunar.  Líka milli slæmrar heyrnar og jafnvægisleysis.  En prófessorinn leggur áherslu á að allt þetta sýni hversu mikilvægt það er að grípa snemma inní, sé fólk farið að taka heyrn.

 

 

Ritstjórn febrúar 24, 2022 08:44