Naglasúpunálgun í samningum

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar:

Samningaviðræður milli fólks eiga sér daglega stað alls staðar umhverfis okkur. Þær fara fram í fjölskyldum, hagsmunasamtökum, stjórnmálum og fyrirtækjum yfirleitt í öllum mannlegum samskiptum. Samningaviðræður snúast um að fólk sættist í ágreiningsmálum smáum sem stórum. Allir reyna að ná sem bestum samningum og setja þá oftast fram ítrustu kröfur í upphafi vitandi að aldrei verði gengið að fullum kröfum og því þurfi að slá af til þess að ná samkomulagi. Ég hef sótt tvö áhugaverð námskeið í samningatækni. Sú aðferðafræði til þess að koma á samkomulagi felst í að leitað er að samkomulagi með hjálp utanaðkomandi samningamanns sem finnur lausn sem báðir aðilar sætta sig við án þess að leita til dómstóla.

Nú eru mörg ágreiningsmál í þjóðfélaginu sérstaklega í tengslum við hagsmuna- og launabaráttu. Leitað er lausna sem krefjast yfirleitt fjárútláta. Þótt málefnin séu góð er fé ekki sagt vera fyrir hendi. Ég hef stundum hugsað um meira til gamans, hvort ekki væri hægt að nálgast kröfurnar frá öðrum enda en með ítrustu kröfugerð. Í stað þess að biðja um sem mest í upphafi og þurfa að slá af að biðja um sem minnst og bæta svo við.

Í þessu sambandi hefur saga sem ég las í æsku komið upp í hugann, sagan um naglasúpuna. Margar útgáfur eru af þessari þjóðsögu en innihald sögunnar fyrir 60 árum í mínu minni er eitthvað á þessa leið. Þar segir frá umrenningi sem kemur á sveitabæ og knýr dyra. Húsmóðurin opnar og umrenningurinn tjáir henni að hann sé svangur og spyr hvort ekki væri matarbita að fá. Konan bar sig aumlega og segir hart vera í búi og hún eigi ekkert aflögu aðeins mat fyrir heimilisfólkið. Umrenningurinn spyr konuna hvort hann megi ekki elda súpu fyrir hana. Konan verður forvitin og kvaðst þiggja það. Pottur er settur á eldavél og umrenningurinn dregur nagla upp úr pússi sínu sem hann hafði fundið á göngu sinni, setur í pottinn og tekur að hræra. Þegar vatnið fer að sjóða segir umrenningurinn að mikið myndi súpan verða betri ef til væri örlítið af káli. „En hafa skal það sem hendi er næst og hugsa ekki um það sem ekki fæst.“ Jú, konan segist eiga einhverja ögn að af káli aflögu sem hún gæti látið af hendi. Áfram er hrært og umrenningurinn lýsir því yfir að súpan yrði enn betri ef settar yrðu út í hana gulrætur, „en hafa skal það sem hendi er næst og hugsa ekki um það sem ekki fæst“. Þannig er haldið áfram og í pottinn fer kjöt og margt fleira sem hráefni í góða súpu. Síðan settist umrenningurinn að borði með konunni og þau borða þessa fullframreiddu kjötsúpu. Umrenningurinn kveður og gengur á braut. Um leið og hann hverfur út um dyrnar gefur hann húsmóðurinni naglann. Konan dásamar naglann og furðar sig á því að hægt skuli vera að elda fullkomna súpu aðeins úr einum nagla.

Spurningin er sú hvaða lærdóm má draga af sögunni um naglasúpuna. Lærdómurinn er að fullum óskum í upphafi samninga er hafnað. Fyrir þann sem láta þarf af hendi eru kröfurnar of miklar til þess að geta sætt sig við þær. Þegar beðið er um lítið framlag í einu og oftar og það nákvæmlega skilgreint í hvert sinn hvers er óskað, er auðveldara fyrir samningsaðilann, sem að þarf að gefa eftir að sætta sig við ákvörðunina. Hér er ef til vill farið gáleysislega með viðkvæmt mál en hver veit nema dag einn verði naglasúpunálgunin hluti af samningaviðræðum hagsmunaaðila.

Þráinn Þorvaldsson maí 28, 2018 06:58