Krassandi ófreskjusaga af Ólöfu Loftsdóttur, voldugustu kerlingu sem Ísland hefur alið

Hamingja þessa heims gerist á tveimur „plönum“. Annars vegar er Eyjólfur Úlfsson háskólaprófessor sem var sakaður um ósæmilega framkomu við konur í háskólanum sem segir söguna og hins vegar gamall sagnaritari frá 15 öld. Eyjólfur er sendur vestur í Dali eftir uppákomuna í háskólanum til að byggja þar upp fræðasetur. Hann finnur gamla kistu með skjölum, og þar hefst hin saga bókarinnar sem Sveinn Þórðarson skrifar á fimmtándu öld, en hann var í þjónustu höfðingja, þar á meðal Ólafar ríku, og skráði sögur fyrir þá.

Sagan af Eyjólfi kemur fram í fjölda sendibréfa sem hann sendir vini sínum og spinnst þannig áfram.

Hvernig gat þetta gerst, spyrð þú, hvernig gat ég leyft þessu að gerast?

Ég spyr á móti vinur minn, ætlarðu að trúa þessari frásögn eins og hún birtist á þessum svokallaða fréttamiðli, þessari slúðursíðu? Trúirðu því í alvöru að ég hagi mér svona, að ég tali niður til stúlknanna í tímum hjá mér og áreiti þær í veislum? Þekkirðu mig ekki betur en svo?

Þessi ógnarlanga umfjöllun – afhjúpun, eins og hún er vandlega merkt á útprentinu sem þú sendir mér – er augljóslega runnin undan rifjum Urðar og kynjafræðinganna. Þær þola ekki að aðrir skemmti sér, þola ekki ungar, fallegar konur, og hata karlmenn. Reyna að vana allt í kringum sig og drepa niður alla gleði og léttúð.

Jú, ég er gleðimaður og finnst gaman að skemmta mér með nemendum mínum, og jú, mér finnst gaman að dansa við fallegar konur, en hvenær var það bannað? Að saka mig um ósæmilega umgengni við nemendur og kynferðislega tilburði – þetta er hreint fáránlegt. Fréttin er einhliða og röng, og þessi svokallaði blaðamaður reyndi ekki einu sinni að ná í mig til að heyra mína hlið á málinu. Sem er klárt brot á siðareglum, ég ætla að kæra það til Blaðamannafélagsins , draga snápinn fyrir dómstóla.

Og þetta myndskeið er augljóslega brot á persónuverndarreglum, eins og þú lýsir því; ekki að ég hafi nokkurn minnsta áhuga á að sjá það. Hver hefur ekki lent í því að fara svolítið fram úr sér í gleðskap, láta hrífast af félagsskapnum og tónlistinni, gullnum veigunum? Þetta var bara svona happening, eitthvað sem gerðist þarna í augnablikinu, og allir höfðu gaman af. Hvernig átti mér að detta í hug að einhver væri svo smár og andstyggilegur að taka myndskeið af þessu úr launsátri og birta á internetinu?

Það gengur á ýmsu í sögunni frá 15 öld sem hefur verið kölluð týnda öldin í Íslandssögunni og leikurinn berst um suðurland, vestfirði og norðurland. Þar er Ólöf Loftsdóttir að vaxa úr grasi, afar ódælt barn og ekkert gefin fyrir kvenlegar dyggðir. Sveinn Þórðarson er fenginn til að kenna henni, þegar aðrir hafa gefist upp við það verkefni. Hann er fyrst í þjónustu föður hennar, en síðan hennar. Hún rekur hann úr vistinni vegna óánægju með skrif hans, en þó fer svo að hún leitar aftur til hans þegar hún þarf að rétta hlut sinn gagnvart almenningsálitinu í landinu.

„Margt hefur verið um mig sagt, og fæst af því fagurt. Grýla, hef ég verið kölluð, hofróða, svarkur og fégípa, fordæða og morðkvendi, jafnvel mannæta! Þá hló ég, miskunnsöm móðir Drottins varðveiti mig, þegar mér bárust þær sögur alla leið austan úr Eyjum. Það sem fólki dettur í hug! Nei , þær sögur sem af mér ganga hafa verið með slíkum endemum, að þær hafa til þessa einungis vakið mér hlátur, enda upplognar úr verbúðum, haughúsum og moldarkömrum kotunga, sprottnar af öfund og fíflskap, bornar út af flækingum, skitinhælum og lausungarskríl, sem flakkar með betliskálar sínar milli bæja og vonast eftir þeim mun feitari bitum, sem rógurinn er safaríkari. Og hvaða silfur vegur þyngra, hvað a mynd er dýrari en krassandi ófreskjusaga af Ólöfu Loftsdóttur, voldugustu kerlingu sem Ísland hefur alið, svo auðugri og dramblátri að sjálf drottningin af Saba mætti vara sig.

Sigríður Hagalín hefur vakið athygli fyrir fyrri bækur sínar og nýja skáldsagan veldur svo sannarlega ekki vonbrigðum en er afar ólík fyrri verkum hennar.

Ritstjórn desember 13, 2022 12:00