Ekki vera sár eftir Kristínu Steinsdóttur

Ragnhildur Erla Bjarnadóttir

Ragnheiður Erla Bjarnadóttir skrifar um bækur:

Í þessari nýju bók höfundar Kristínar Steinsdóttur segir frá uppvaxtarárum aðalpersónunnar Ingibjargar eða Imbu eins og hún er alltaf kölluð og eins frá árinu eftir að hún fer á eftirlaun hafandi starfað sem kennari í áratugi.  Í æsku býr fjölskyldan í lítilli kjallaraíbúð í Laugarneshverfinu.  Faðirinn er sjómaður og móðirin vinnur í bakaríi. Stefnan er sett á eigið húsnæði en basl og drykkja tekur sinn toll.  Það tekur á að fylgjast með því hvernig Imba reynir sem smá stelpa að létta undir með móður sinni svo halda megi friðinn og vonbrigðin sem verða ævinlega þegar pabbinn kemur í land og hurðum er skellt.

Imba fer í Kennaraskólann og starfar sem kennari ásamt því að eignast þrjú börn með eiginmanninum Jónasi. Líf hjónanna virðist vera föstum skorðum þar til Imba ákveður að fara á eftirlaun og við tekur tími sem hún hefur ekki átt áður.  Hún nýtur þess að eiga tíma með sjálfri sér og vinkonunum en á sama tíma finnur hún hvað þau Jónas hafa fjarlægst og hvað þau hafa ólíka sýn á það hvernig þau vilja verja árunum sem framundan eru. Jónas vill verja öllum stundum í að gera upp bústað fjölskyldunnar í Hvalfirðinum og skilur ekki að Imba geti ekki notið þess ekki að vera í kyrrðinni með honum.  Eins og segir á bókakápu þá er Imba á krossgötum og hún hefur einsett sér að láta drauma sína rætast og njóta þess æviskeiðs sem er að hefjast.

Það er alltaf ánægjulegt að lesa bækur Kristínar Steinsdóttur og hér fjallar hún um árin sem margir bæði hlakka til og kvíða. Við lifum lengur og því er eðlilegt að hugsa til þess hvernig við viljum eyða þeim dýrmæta tíma sem efri árin eru.

Brot úr bókarkafla

Ég var smám saman að átta mig betur á hvað við Jónas vorum komin langt hvort frá öðru.  Við vorum saman allan liðlangan daginn en höfðum ekki lengur um neitt að tala nema girðinguna, veðrið og kvöldmatinn. Eins og í fjarlægri fortíð mundi ég spjall og glaða hlátra.  Var hægt að vera meira einmana með einhverjum en án hans? Gætum við reynt að kynnast upp á nýtt? Kannski, en hvernig? Það þýddi lítið að spyrja Jónas.

Líklega hafði Mæja rétt fyrir sér. Lífið hafði snúist of mikið um þörfina fyrir að allt gengi vel.  Í endurminningunni gekk líka vel. Ég var vön að spyrja Jónas hvað honum fyndist og væri það eitthvað annað en ég vildi lagaði ég mig oftast að honum.  Af hverju gerði ég það? Af hverju týndi ég sjálfri mér? (bls. 134-135)

Ritstjórn nóvember 16, 2017 12:21