Heiðdís Einarsdóttir er komin á miðjan aldur, 52 ára á þessu ári, og var kennt í æsku að vera samviskusöm og dugleg. Heiða, eins og hún er oftast kölluð, er með BA gráðu í ensku frá HÍ og MA gráðu í menningarmiðlun frá sama skóla. Hún er líka hársnyrtimeistari og leiðsögumaður að mennt og hefur nýtt sér alla sína menntun til að sjá sér og tveimur sonum sínum farborða en hún hefur verið einstæð móðir í 15 ár. Reynsla hennar og menntun eru því mjög víðtæk á vinnumarkaði en Heiða ,,krassaði” samt. En þegar upp var staðið segir hún að kulnunin hafi verið bæði bölvun og blessun.
Þáði loks aðstoð næringarfræðings
Heiða hefur lengst af verið of þung og segir að rangt mataræði og hreyfingarleysi hafi verið helstu orsökina. Nýlega fann hún þörf hjá sér til að taka sig í gegn og þáði loks aðstoð vinkonu sinnar sem er næringarfræðingur og heitir Elísabet Reynisdóttir. ,,Beta hjálpaði mér að finna jafnvægið í líkamanum en hún tekur þarmaflóruna með í dæmið. Hún er núna með námskeið sem hún kallar Blóðsykursstjórnun og hefur gefist mörgum vel. Þegar mér var farið að líða betur andlega síðastliðið haust fór ég að finna þörfina fyrir að hreyfa mig,” segir Heiða og veit sem er að þörfin verður að koma frá manni sjálfum. ,,Beta trúði mér ekki alveg til að byrja með því ég hef verið ,,jójó” í þyngd í gegnum tíðina en þyngst var ég 40 kílóum þyngri en ég er núna. Ég var farin að þiggja aðstoð hjá Virk starfsendurhæfingu og andlega líðanin var orðin miklu betri. Ráðgjafinn minn hjá Virk, yndisleg kona, sagði mér frá því að hún gæti útegað mér líkamsræktarkort svo ég skyldi bara taka til óspilltra málanna. Úr varð að ég fékk þiggja mánaða kort hjá World class og fjóra tíma til að hitta þjálfara.
Eigin fordómar
Heiða viðurkennir að þegar hún fór í fyrsta tímann hjá þjálfaranum hafi hún verið með ranghugmyndir. ,,Ég hugsaði með mér að fyrst hann vissi að ég væri að koma í
gegnum Virk héldi hann örugglega að ég væri einhver aumingi,” segir Heiða og hlær að eigin bjánaskap. ,,Í ljós kom að þessi þjálfari var auðvitað alveg frábær. Ég sagði honum að ég væri búin að reyna oft að vera í ræktinni og alltaf gefist upp. Mig langaði að finna á líkamanum að ég væri að æfa en hefði engan áhuga á að vera að drepast úr harðsperrum. Mig vantaði hjálp við að komast af stað og væri í þessu af alvöru að þessu sinni.”
Andleg og líkamleg heilsa verður að fara saman
Heiða segist vera búin að vera nógu lengi í vandræðum með þyngd sína og prófa alls konar ráð og viti nú að vandamálið sé fyrst og fremst mataræðið. ,,Ráðið er auðvitað að minnka bæði skammtana og sykurinn,” segir hún. ,,Beta hefur hjálpað mér að sjá það og fara eftir því og viti menn það virkaði. Ég náði samfelldum 10 vikum að fylgja ráðum hennar og þá helltist yfir mig þessi dásamlega vellíðunartilfinning þegar ég fann jafnvægið þegar líkamleg og andleg líðan fór saman. Hér er ég að sigla inn í breytingaskeiðið og æfi fimm sinnum í viku og gæti þess að borða hollt og það gerir gæfumuninn. Ég finn að ef ég svíkst um og borða of mikil kolvetni fer að bera á líkamlegum einkennum eins og nætursvita og verri húð. Þessu getum við stjórnað með réttu mataræði.”
Alin upp í sveit
Heiða er alin upp í sveit þar sem dugnaður og ósérhlífni er talinn hin mesta dyggð. Hún er frá Götu í Holtum í Rangárvallasýslu þar sem hún átti góða æsku í faðmi foreldra sinna sem ráku þar bú. Hún var ekki orðin 16 ára þegar hún ákvað að flytja til Reykjavíkur af því hún vildi fara að læra hárgreiðslu.
Nýtti sér 2020 til að ná sér af kulnun
íðastliðið ár segir Heiða að hafi verið eitt hennar besta til þessa. Það hljómar mótsagnakennt því eins og allri vita reið covid yfir heimsbyggðina á því ári. Heiða nýtti sér aðstæðurnar sem sköpuðust til að ná sér af alvarlegri kulnun sem hún varð fyrir rétt fyrir jólin 2019. ,,Það var alls ekki ein ástæða fyrir því að ég kulnaði í starfi,” segir Heiða. ,,Kulnun verður til af langvarandi streitu sem hefur ekki verið meðhöndluð. Ég brást við streituástandinu þá með því að borða mikið og fannst ég ekki passa inn neins staðar af því ég var of þung. Þá fann ég mikið fyrir fitufordómunum í samfélaginu,” segir hún.
Er að vinna hörðum höndum að því að líða vel
Heiða segist núna vera búin að finna leiðina til að líða vel í eigin skinni. ,,Ég var í ræktinni um daginn og fann þá fyrir þessari sterku þakklætistiltilfinningu fyrir að vera á þeim stað sem ég er í dag,” segir Heiða. Drengirnir hennar eru núna orðnir 20 og 23 ára svo hún þarf ekki að vera frá vinnu með lítil börn en samt er hún ekki kölluð í viðtöl þegar hún sækir um vinnu. Hún segir að ekki sé ólíklegt að kennitalan hennar hafi eitthvað með það að gera sem henni þykir með ólíkindum því reynsla hennar og aðstaða ætti frekar að hjálpa. Síðasta starf sem Heiða hafði með höndum var sölustjóri hjá FlyOver Iceland fyrirtækinu en hún starfaði þar allt frá stofnun þess og út árið 2019 þegar hún ,,krassaði” eins og hún segir sjálf. Hún tekur fram að það hafi ekki verið eingöngu starf hennar hjá FlyOver Iceland sem orsakaði kulnunina heldur hafi það verið uppsafnaður ómeðhöndlaður vandi sem braust út svo hún sagði starfi sínu lausu. Álagið varð of mikið og sem sölustjóri var ekki möguleiki fyrir mig að komast niður úr tölvupóstum. Kulnunarástand er eins og spírall þar sem maður fer fyrst í langan hring og þegar komið er niður spíralinn fer maður hraðar og hraðar. Ástandið var orðið þannig að ég átti erfitt með að fara fram úr á morgnana og hlakkaði mest til að geta lagst aftur á koddann að kvöldi.”
Beit á jaxlinn og hélt áfram
Heiða beit á jaxlinn og hélt áfram. ,,Ég át bara drasl og lenti í að verðlauna sjálfa mig reglulega fyrir að vera svo dugleg í vinnunni. Þetta færði mig bara nær og nær því að bugast og ýtti undir kvíða. Svo endaði með
því að heimilislæknirinn áttaði sig á ástandinu og sjúkraskrifaði mig strax. Ég hafði ætlað að fá tíma hjá heimilislækni mínum sem var í veikindaleyfi og afleysingalæknirinn var ungur maður sem fékk mig, miðaldra grenjandi konu, í fangið. Ég settist fyrir framan hann og grét samfleytt í 40 mínútur og réð ekki neitt við neitt. Þessi ungi maður er algerlega frábær og er sannarlega einn af þeim sem hefur hjálpað mér hvað mest í gegnum þessa erfiðleika. Hann lét mig strax hafa þrjú fyrirmæli sem voru að fara út að hreyfa mig, þótt ekki væri nema ganga í kringum húsið, sofa og borða hollt. Veðrið á þessum tíma var svo vont að minna varð úr hreyfingu en til stóð. Þessi yndislegi læknir sagði mér að af því svo margir væru í þessum sömu sporum og ég þá væri hann búinn að læra hvaða ráð væru í boði fyrir þá sem lentu í kulnun.”
VIRK er dásamlegt fyrirbæri
Ungi læknirinn sem gók við Heiðu sagði henni að byrja á að tala við stéttarfélag sitt þar sem væri sjúkrasjóður og hafa í framhaldi samband við endurhæfingasjóð VIRK. ,,Á vegum stéttarfélagsins var VIRK ráðgjafi, dásamleg kona sem kom mér sannarlega áfram. Hún benti mér á alls konar námskeið sem ég gæti tekið sem hjálpuðu gífurlega. Svo þegar upp var staðið var ég gripin af kerfinu og fékk tækifæri til að jafna mig. Þetta skipti rosalega miklu máli í bataferlinu en þeir sem lenda í kulnun verða að gefa sér leyfi til að velja og hafna vel.”
Kvíði, þunglyndi og streita
Með hjálp sálfræðings kafaði Heiða ofan í sjálfa sig og fann út að hún er hvorki kvíðin né þunglynd. Þá var streitan eftir sem var vandamálið. Hún fékk hjálp til að vinna með þann þátt og er þess vegna komin á þann stað sem hún er nú.
Ákvað að vera opinská um ástandið
Þegar Heiða var búin að ná áttum ákvað hún að vera opinská með ástand sitt því hún hefði ekkert að fela. ,,Ég ákvað að skrifa ,,status” á Facebook og segja frá því hver staðan á mér væri. Viðbrögðin voru mjög góð og í ljós kom að margir könnuðust við að hafa lent í svipuðu. Margir teygðu sig til mín og það þótti mér óskaplega gott. Ég vil sérstaklega nefna Ingu Hlín Pálsdóttur sem var hjá Íslandsstofu. Hún krassaði illa sjálf og vann sig vel út úr ástandinu. Hún kom til mín og sagði mér frá eigin reynslu og það var algerlega ómetanlegt.
Mig hafði alltaf langað til að fara í leikhús- og kvikmyndaförðun og hafði samband við skóla þar sem ég gat farið í það nám. Ég var heiðarleg með það að ég væri í þessu ástandi og fékk ótrúlega góðar viðtökur í skólanum. Þetta kom mér fram úr á morgnana og gaf mér ákveðinn tilgang og varð mér áreynslulaust nám og mjög skemmtilegt.”
Lærði köfun skömmu áður
Heiða fór að læra köfun sumarið 2019 og varð þar fyrir óhappi í einni æfingunni. ,,Ég var að gera æfingu sem ég átti að kunna en gerði mistök og missti stjórn. Þessi reynsla var ábyggilega ein af ástæðunum sem urðu til þess að ég lenti í spíralnum sem endaði í kulnun. Þetta fór illa en ég lærði ýmislegt um sjálfa mig eftir þetta óhapp. Ég lærði hversu líkaminn er magnað fyrirbæri og hversu lífsviljinn er mikill. Frá þessu óhappi tek ég reynslu sem er bæði góð og vond en það sama er líklega hægt að segja um allt sem hendir okkur. Svo er bara okkar að koma auga á það jákvæða en einblína ekki á það neikvæða,” segir Heiða brosandi og heldur ótrauð áfram veginn til bata.