Tengdar greinar

Kynlíf aldraðra er feimnismál

 

Asmir Þór Þórsson

Asmir Þór Þórsson

„Í hugum margra er kynlíf aldraðra tabú. Ég fékk afar mismunandi viðbrögð þegar ég sagði frá því hvað ég væri að fást við í lokaverkefninu mínu. Sumir sögðu að þetta væri frábært, aðrir urðu undrandi og aðrir sýndu neikvæð svipbrigði,“ segir Asmir Þór Þórsson, sem er að útskrifast með BA gráðu í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands, í febrúar. Asmir segir að hann hafi alltaf ætlað sér að skrifa um eitthvað sem enginn væri búinn að skrifa um og enginn hafi fjallað um kynlíf aldraðra í lokaverkefni sínu, því hafi hann ákveðið að skrifa um það. „í þriggja ára námi mínu við Háskólann var nánast aldrei rætt um kynlíf aldraðra,“ segir Asmir.

Fáar rannsóknir á kynlífi aldraðra

Asmir leitaðist við að svara spurningunni: Hver eru viðhorf og viðmót í umhverfinu gagnvart kynhegðun aldraðra. Í leit sinni að svari komst hann að því að mjög fáar rannsóknir hafa verið gerðar á kynhegðun aldraðra. Í nálgun sinni á verkefninu notaði Asmir skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna á því hvenær fólk teljist orðið aldrað en það er við 60 ára aldur. „Margir telja að fólk stundi kynlíf á ákveðnu æviskeiði. Það er á meðan það er ungt og fallegt og konur enn á barneignaaldri. Sjaldan beri orðin kynlíf og aldraðir á góma samtímis og ólíklegt þykir að fólki detti í hug að einstaklingar á þessu aldursskeiði stundi yfir höfuð kynlíf. Rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós að, aldraðir stundi kynlíf og það í mun meira mæli en áætlað var,“ segir Asmir.

Aldraðir kynlausir

Hann segir að samkvæmt erlendum rannsóknum ríki ákveðin staðalímynd um að aldraðir séu kynlausir. Rannsóknir sýni að fólk hefur almennt neikvætt viðhorf til kynlífs hjá öldruðum og telur kynlíf vera fyrir yngra fólk. Staða þeirra sem eru komnir á hjúkrunarheimili og vilja stunda kynlíf getur verið erfiðari en þeirra sem enn búa heima. „Rannsóknir leiða í ljós að starfsfólki hjúkrunarheimila finnst í lagi að gamalt fólk leiðist, daðri og kyssist en vildi koma í veg fyrir erótíska kynlífshegðun. Rannsóknir benda til þess að í samfélaginu sé litið á kynlíf íbúa á hjúkrunarheimilum sem mikið feimnismál, helst má ekki ræða það,“ segir Asmir.

Ein af frumhvötunum

Asmir segir að margt hafi komið honum á óvart þegar hann fór að skrifa ritgerðina og nefnir sem dæmi að hann hafi ekki verið búinn að átta sig á því að karlmenn séu enn frjósamir fram á níræðisaldur. Í lokakafla ritgerðarinnar segir Asmir. „Kynhvöt mannsins er ein af frumhvötum hans og mætti því segja að fólk verði í raun og veru aldrei of gamalt til að njóta kynlífs.“ Eftir 20. febrúar er hægt að lesa ritgerð Asmirs í Skemmunni. Slóðin er http://skemman.is/item/view/1946/23529

 

 

 

 

 

Ritstjórn janúar 22, 2016 11:38