Tengdar greinar

Sóley Jóhannsdóttir líkamsræktarfrömuður

 Sóley fæddist í Keflavík 1956. Hún er nú í sambúð með Ólafi Jóni Briem verkfræðingi en þau hafa búið saman í 13 ár. Sóley kom heim 1980 frá Danmörku þar sem hún hafði verið við nám og störf í 7 ár. Hún nam jassballett í fjögur ár og dansaði og annaðist kennslu næstu þrjú ár þar á eftir. Þegar hún kom heim stofnaði hún fyrirtæki sitt Dansstúdíó Sóleyjar og frá fyrsta degi segir hún að tímarnir í dansstúdíónu hafi fyllst og verið fullir þangað til hún hætti 1995 eða í 15 ár. Fyrirtækið gekk vel og var rekið á nokkrum stöðum en hún endaði með Dansstúdíóið í húsi sem hún byggði við Engjateig 1. “Á þessum tíma hafði eróbikkæðið heltekið Íslendinga og þá lognaðist jassballettinn út af í rólegheitum. En ég hafði mjög gaman af að kenna jassballett í öll þessi 15 ár,” segir Sóley.

Silkiblóm og gervitré

Þegar studiotímabilinu lauk hafði Sóley kynnst Bryndísi Tómasdóttur og þær stöllur hófu verslunarrekstur með innflutningi á leðurbeltum og –töskum. Einhverju sinni hafði Bryndís farið ein á sýningu og þar sem hún virti fyrir sér vörurnar á sýningunni tók hún eftir einum básnum þar sem var verið að sýna gerviblóm og -tré. Hún hringdi í Sóleyju og spurði hana hvort ekki væri tilvalið fyrir þær að hefja innflutning á þessum gervivörum, sem væru svo fallegar að þær væru alveg eins og alvöru. “Viðbögð mín voru strax: Já, af hverju ekki? Og þar með var það ákveðið,” segir Sóley og hlær.

Soldís varð til

Þær Sóley og Bryndís keyptu strax húsnæði við Vitastíg, fylltu búðina af gerviblómum og seldu blóm og tré í nánast öll fyrirtæki í Reykjavík. Sóley segir að fyrirtækið, sem þær nefndu Soldís eftir þeim báðum, hafi gengið geysilega vel. En  2007, rétt fyrir hrun, hafi þær verið búnar að klára sig á því að bera þungar plöntur í kerjum inn og út úr húsum og upp og niður hæðir. Þetta hafi verið svo mikið líkamlegt álag á þær að þær ákváðu að selja verslunina og tókst það rétt fyrir hrun. Engan grunaði hvað nánasta framtíð myndi bera í skauti sér en þær voru heppnar og sluppu þar með við að eiga í hrunmálunum á Íslandi.

Fór aftur að kenna leikfimi

“Þá tók ég til við að kenna aftur, en núna leikfimi en ekki dans,” segir Sóley. “Síðan hef ég haldið mig við að kenna leikfimi og aldurssamsetning nemenda minna fylgir alveg mínum eigin aldri. Sumir nemenda minna hafa verið hjá mér í allt að 30 ár. Niðurstaðan er því sú að ég er með hópinn 50+ og sú elsta er 82 ára og gefur hinum yngri ekkert eftir.” Sóley notar mikið tónlist við leikfimikennslu sína og segir dans vera allra meina bót.

Gömlu dansararnir koma nú í leikfimina

Sóley kennir leikfimi í Hreyfingu og segir að nú komi til hennar konur sem voru hjá henni í jassballettinum hér á árum áður. Hún kennir á hverjum degi og er með um 40 konur í hverjum tíma.

Sóley hefur stjórnað „strákahópi“ í árafjöld. Hún hefur farið með þá á The golden age festival nokkrum sinnum og er á förum í þriðja sinn næsta sumar. Þá verður farið til Ítalíu í annað sinn.

Er líka með strákahóp

Sóley er búinn að vera með um 20 karla hóp í áratugi en þeir eru á aldrinum 50 til 80. “Þessir menn eru endalaus gleði fyrir mig. Þeir eru svo áhugasamir og tímarnir eru svo skemmtilegir. Fyrir 6 árum fór ég með þá á leikfimisfimleikamót sem heitir “The golden age gym festival”. Þetta kom upp þegar einn úr hópnum hafði verið í viðtali þar sem hann sagði frá leikfimihópnum sem hann var í. Í kjölfarið hringdi fimleikasamband Íslands í hann og honum var sagt frá þessu Golden age gym festival sem væri tilvalið fyrir svona hóp að fara á. Hann kom til mín og ég sagði strax af og frá að ég myndi fara með hópinn á eitthvert Golden age gym festival. Þá bað hann mig að skoða þetta aðeins betur og sagði mér að mótið væri nú haldið í bæ sem héti Montecatini á Ítalíu. Það vildi þannig til að þegar ég var fertug gáfu stelpurnar, sem voru þá í leikfimi hjá mér, mér ferð til Montecatini á flottasta heilsuspa sem þar var að finna svo ég átti bara góðar minningar frá þessum stað. Þetta dugði til að ég varð spennt og endaði með að segja við strákana: Ok, við förum til Ítalíu, þið takið konurnar ykkar með og við gerum frí úr þessu saman.”

Áttu að koma með þriggja mínútna atriði

Sóley segir það hafi verið skilyrði að hóparnir sem tækju þátt ættu að koma með þriggja mínútna atriði og sýna það á hátíðinni og þá voru góð ráð dýr. “Ég vissi ekkert hvað ég ætti að láta strákana gera en endaði með að velja lag með Rod Sewart sem heitir This old heart of mine. Ég vissi að í hópnum voru nokkrir sem voru flottir dansarar og ég setti þá auðvitað fremst. “Ég lét þessa stráka dansa og sýna léttar leikfimiæfingar og það reyndist verða hin dásamlegasta skemmtun. Og ekki nóg með það heldur bauð ég konunum þeirra á eina æfinguna og spurði þær hvort þær væri ekki til í að vera með í atriðinu. Þær héldu nú það og komu allar inn á í lokin. Á þessu Golden age festivali eru 80 prósent konur. Atriðið okkar endaði með því að vera valið eitt af athyglisverðustu atriðunum á hátíðinni og þessi uppákoma  varð algerlega ógleymanleg. Ég held við lifum öll á þessu enn og svo fórum við til Slóveníu fyrir tveimur árum og það var ekki síður skemmtilegt,” segir Sóley alsæl með drengina sína. Nú er hópurinn að fara aftur til Ítalíu á Golden age festival og nú er tilhlökkunin enn meiri en áður.

Sóley í verslun sinni Kaia við Engjateig þar sem hún selur silkiblóm og alls kyns gjafavöru.

Ætlar að kenna til 65

Sóley segist vera búin að ákveða að hún ætli að kenna leikfimi til 65 ára aldurs. Þá langar hana að gefa sér tíma til að njóta jóga og að dansa meira því dansinn er svo rosalega góð æfing þegar aldurinn færist yfir. “Það er þessi samhæfing á huga og líkama sem er svo mikilvæg og við fáum þá þjálfun svo mikið í dansinum,” segir Sóley að lokum.

Ritstjórn febrúar 2, 2018 15:06