Kynna sér ekki hvað þeir fá í eftirlaun

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Það eru ýmsir sem virðast vakna upp við vondan draum, þegar þeir sjá hvað þeir fá í eftirlaun, þegar þeir verða 67 ára. Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Félags eldri borgara segir að svo virðist sem fólk fari ekki að velta þessu fyrir sér, fyrr en 4-5 árum áður en það fer á eftirlaun. „Já, á ég ekki meira en þetta“, segir fólk sem hafi einhvern veginn staðið í þeirri trú að það ætti von á betri eftirlaunum en raun ber vitni. En það getur stafað af því að menn hafa ekki greitt í lífeyrissjóð í full 40 ár sem til þarf til að ná 56% af fyrri tekjum, eða að fólk hefur verið í hlutastörfum. Þórunn segir að einnig þurfi 40 ára búsetu á Íslandi til að eiga fullan rétt í Tryggingastofnun og æ fleiri nýbúar muni fara að finna fyrir þessu ákvæði á næstu misserum.

Kynna sér ekki málin

Þeir sem greiða í lífeyrissjóði fá reglulega sent heim yfirlit yfir greiðslurnar. Það er hins vegar reynslan hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins að menn kynni sér það ekki endilega mjög vel. Sjóðurinn hefur einnig haldið kynningarfundi en þangað mæta kannski 100 manns, þó félagar í sjóðnum séu um 30.000.  Þá býður sjóðurinn uppá kynningafundi að beiðni sjóðfélaga, stofnana eða stéttarfélaga  Ágústa Hrönn Gísladóttir forstöðumaður réttindamála hjá LSR segir að þar á bæ séu menn að skoða hvernig unnt sé að finna leiðir til að kynna lífeyrisréttindin enn betur fyrir fólki.  Það séu brögð að því að menn þekki ekki rétt sinn og kynni sér hann seint og illa.

Alltaf tekjufall við starfslok

Þórunn Sveinbjörnsdóttir segir að þeir sem hafi greitt í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins geti komist uppfyrir 70% af fyrri tekjum en þeir sem hafi unnið á almennum vinnumarkaði og greitt í aðra sjóði fái 56% af tekjunum sem þeir áður höfðu, þegar þeir séu komnir á eftirlaun. Margir eigi rétt á viðbót frá Tryggingastofnun ríkisins við lífeyrissjóðinn, en þegar heildartalan sé komin á blað sé það oftar en ekki sem fólk nái ekki endum saman. „Þótt lífeyrisréttindin séu misjöfn verður alltaf tekjufall við starfslok“, segir Þórunn. Hún segir líka að menn hafi bent á að hluti vandans stafi af því að fólk hafi tekið út séreignarsjóðinn þegar opnað var á það og eigi svo mun lægri upphæð til að brúa bilið þegar að starfslokum komi.

Leiðrétting þolir ekki lengri bið

Hún segir að samspil lífeyrissjóða og Tryggingarstofnunar hafi verið þrætuepli í áratugi og menn hafi reynt að vinna að endurbótum á því samspili svo gegnsæið aukist. „Því miður er skerðing á bótum almannatrygginga alltof mikil gagnvart ellilífeyri lífeyrissjóðanna“, segir Þórunn. „Leiðrétting á þessu samspili þolir ekki lengri bið“.

 

Ritstjórn nóvember 4, 2015 11:06