Krafan um 300 þúsund króna lágmarkslaun stöðugt háværari

Björgvin Guðmundsson

Björgvin Guðmundsson

Fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að elli- og örorkulífeyrir muni hækka um tæp 9% um næstu áramót. Þær raddir sem krefjast 300 þúsund króna lágmarkslauna fyrir þessa hópa verða hins vegar stöðugt háværari. Haukur Ingibergsson formaður Landssambands eldri borgara væntir þess að bæturnar fylgi lægstu launum og nái 300 þúsund krónum fyrir árið 2018 og Björgvin Guðmundsson formaður kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni  er sömu skoðunar í grein i Fréttablaðinu í dag. Hann telur að aldraðir og öryrkjar eigi að fá sömu hækkun og ófaglært verkafólk fékk 1.maí, en hún nam  27-31 þúsund krónum á mánuði og að sú hækkun eigi að gilda frá sama tíma.

Hvers vegna tel ég að aldraðir og öryrkjar eigi að fá sömu hækkun og verkafólk? Jú, vegna þess að í lögum stendur að taka eigi mið af launabreytingum við ákvörðun lífeyris og lífeyrir eigi aldrei að hækka minna en vísitala neysluverðs. Áður stóð í lögunum að hækka ætti lífeyri í samræmi við hækkun lágmarkslauna. Þegar orðalaginu var breytt sagði þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, að nýja orðalagið væri hagstæðara öldruðum og öryrkjum. Með hliðsjón af þeirri yfirlýsingu tel ég að lífeyrisþegar eigi rétt á sömu kjarabótum og verkafólk nú.

Björgvin segir í greininni að stjórnvöld hafi þverskallast við að greiða öldruðum og öryrkjum lögbundnar kjarabætur, eða klipið duglega af þeim. Hann vill að Alþingi grípi inní málið.

Ef ríkisstjórnin leiðréttir ekki lífeyri aldraðra og öryrkja til samræmis við launabreytingar láglaunafólks verður Alþingi að taka í taumana, taka fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni og ákveða að hækka lífeyri aldraðra og öryrkja til samræmis við launahækkanir verkafólks. Alþingi hefur valdið og þar er meirihluti fyrir þessari sjálfsögðu leiðréttingu.

 

Ritstjórn júlí 8, 2015 11:52