Labbi í Mánum – Ólafur Þórarinsson

Nafn Ólafs Þórarinssonar þekkja ekki margir en gælunafn Ólafs, Labbi, þekkja fleiri. En þegar viðurnefnið er með, Labbi í Mánum, er nokkuð víst að flestir, sem komnir eru á miðjan aldur, kveikja á perunni.

Það eru einungis fjögur ár síðan Labbi hætti að spila opinberlega á sviði en þá hafði hann staðið vaktina í hálfa öld, nánast um hverja einustu helgi.

Labbi er sannarlega ekki búinn að segja skilið við tónlistina því hann rekur nú stórt og mikið hljóðver með syni sínum í Hveragerði þar sem þeir feðgar búa. Sonur Labba heitir Bassi og er trommuleikari og kemur víða við eins og faðir hans hefur gert í gegnum tíðina. Þeir hafa því samtals verið í framlínunni á tónlistarsviðinu á Íslandi áratugum saman og á því er ekkert lát. Labbi hefur sannarlega komið tónlistargenunum áfram því hann á líka dóttur, Guðlaugu Dröfn, sem er ein af okkar bestu söngkonum.

Labbi var einn sá fyrsti sem hóf sjálfur rekstur á fjölrása hljóðveri, en hann kom sér upp einu slíku þegar hann var bóndi á bænum Glóru á árum áður. Þar byggði hann hljóðver 1980 sem var hluti af stærðar íbúðarhúsi og hóf stúdíórekstur þar. Það var heilmikil sveifla fyrst um sinn en minnkaði svo þegar á leið og studióum fjölgaði á landinu. Síðan hefur Labbi verið með stúdíórekstur í einhverri mynd en nú eru þeir feðgar komnir með draumastúdíóið í Hveragerði.

“Ég er orðinn svolítið “skrokklaskaður”, segir Labbi sem stundaði fimleika, fjallaklifur, snjóbretti og sjósund langt fram eftir aldri og tekur nú líklega út afleiðingar þess. “Ég er þess vegna hættur að vera á sama flandrinu og ég var. Ég hef ekki gaman af því lengur þar sem ég get ekki unnið vinnuna með þeim stæl sem ég vildi. Ég hef alltaf haft gaman af “kerlingum” en ellikerling er alveg óþolandi,” segir Labbi og hlær. “Ég fæ tólistarútrásina hins vegar mjög vel hér heima núna,” segir hann en hann gefur út plötur og útsetur bæði fyrir sjálfan sig og aðra. Hann verður sjötugur á næsta ári og er með fjórðu sólóplötu sína í smíðum í tilefni afmælisins.

Labbi hefur verið að vinna að bók um feril Mána í nokkurn tíma en hann segir að þegar hljómsveitin hafi komið saman aftur og hitað upp fyrir DeepPurple 2004 hafi bókarhugmyndin kviknað og svo fyrir þremur árum þegar þeir gáfu út nýja Mánaplötu hafi hann hafist handa við að klára bókarskrifin. Bókin er væntanleg á þessu ári og ber nafnið Mánar og sagan öll og henni mun líklega fylgja þessi nýi diskur. Hann segir að þar sem hljómsveitin Mánar hafi mest spilað á landsbyggðinni, en minna á höfuðborgarsvæðinu, sé mjög lítið til af heimildum um þá því fjölmiðlar hafi ekki veitt þeim, frekar en öðrum landsbyggðahljómsveitum, mikla athygli í skrifum sínum.

Labbi segir sjálfur að sambönd geysilega margra Íslendinga um allt land hafi hafist á Mánaballi því um árabil spilaði hljómsveitin um hverja helgi og líf margra hafi snúist um sveitaböllin. “Mér þótti það í raun skylda mín að taka þetta saman af því saga Mána var svo mikill og stór þáttur í lífi fólks á meðan hljómsveitin spilaði sem mest. Ég veit að stór hluti af samböndum þeirra Íslendinga, sem núna eru orðnir afar og ömmur, urðu til á Mánaballi,” segir Labbi og hlær.

Labbi segir að fleiri í ætt hans séu kallaðir þessu nafni og þeirra frægastur sé líklega Ólafur Ólafsson fyrrverandi landlæknir. “Þegar ég ætlaði að festa mér nafnið í netfanginu mínu var búið að taka það svo ég þurfti að velja labbiimanum@gmail.com til að vera viss,” segir hann og hlær.

Labbi var reyndar ekki bara í hljómsveitinni Mánum heldur tók við tíu ára tímabil með hljómsveitinni Kaktus. Þegar því tímabili lauk var Labbi í hljómsveitinni Karma í 30 ár og hún starfaði þar til fyrir fimm árum. Nú er því tímabili líka lokið en Labbi er enn í tónlist á fullum krafti en nú á öðrum vettvangi.

Ritstjórn september 18, 2019 08:21