Lækkum flest öll í ráðstöfunartekjum við starfslok

„Markmiðið er að kynna fólki hvert hlutverk lífeyrissjóða er og hvernig samspilið er milli þeirra og almannatryggingakerfisins. Og umfram allt hvetja fólk til að undirbúa sig tímanlega fyrir starfslokin. Við kynnum því einnig Lífeyrisgáttina, þar sem hægt er að sjá öll réttindi í samtryggingu lífeyrissjóða“. Þetta segir Sólveig Hjaltadóttir verkefnastjóri hjá Landssamtökum lífeyrissjóða um kynningar sem nú eru hafnar  undir merkjum Lífeyrisvits og hafa nú þegar fjöldi fyrirtækja og félaga fengið kynningu á uppbyggingu lífeyrisréttinda. Sólveig sem áður starfaði hjá Tryggingastofnun ríkisins er öllum hnútum kunnug þegar kemur að samspili á greiðslum lífeyrissjóða og TR.

Nokkur hundruð manns vildu fá kynningu

Sólveig tók við starfinu hjá Landssamtökunum árið 2020 eða fyrsta árinu sem Covid faraldurinn geisaði hér. Meðal aðildarsjóða samtakanna hafði um langt skeið verið mikill áhugi á að taka upp almenna fræðslu um lífeyrismálin og Sólveig tók þátt í þeirri vinnu sem var á vegum fræðslunefndar samtakanna. Lífeyrisvit stendur öllum til boða s.s. fyrirtækjum, félagasamtökum og áhugasömum hópum. „Ég var hjá BHM í gær og þar var mikill áhugi á kynningunni. 390 skráðu sig, um 200 manns hlýddu á kynninguna á fjarfundi. Þeir sem eru í BHM hafa svo tækifæri í viku eftir fundinn, að skoða upptökuna af honum inná fræðsluvef bandalagsins. Fræðslustjóri BHM sagði að sjaldan hefði verið jafn mikill áhugi á kynningu hjá þeim, þrátt fyrir fjarfund“, segir Sólveig.

Fjarfundir og gestir í sal

Þessi fræðsla er ókeypis og unnt að panta kynningu á heimasíðu Landssamtakanna, Lifeyrismal.is. Kynningarnar hafa fram til þessa einatt farið fram á fjarfundum vegna Covid. Stundum hafa nokkrir verið í sal, en fundurinn að öðru leyti fjarfundur. Sólveig segir að í einhverjum tilvikum hafi kynningar eingöngu verið á fjarfundum og sé það gert til að tryggja að starfsmenn sem geta verið dreifðir um landið, sitji allir við sama borð.

Þurfa að byrja snemma að huga að eftirlaununum

Sólveig segir að mörg fyrirtæki og stofnanir hafi boðið uppá starfslokanámskeið.  „Við viljum breyta þessu þannig að mannauðsstjórar fái okkur reglulega á fundi til þess að fjalla um lífeyrismál á meðan fólk er enn að vinna.  Sjálfri finnst mér skynsamlegra að horfa á þetta útfrá reglulegri fræðslu á starfsævinni, en ekki eingöngu við starfslok. Menn þurfa að byrja snemma að skoða fjármálin, tekjur, skuldastöðu og  viðbótarlífeyrissparnað. Við lækkum flest öll í ráðstöfunartekjum við starfslok. Hvernig eigum við að standa við fjárhagslegar skuldbindingar og hafa það samt skemmtilegt á efri árum?“ segir hún og bætir við að starfslokanámskeið ættu að sínu mati frekar að fjalla um heilsu og félagslega þætti sem tengjast efri árunum.

Réttindin afar mismunandi

Landssamtökin eru með Facebook síðu þar sem þau kynna Lífeyrisvit. Af henni að dæma er það mest fólk í kringum fimmtugt og um sextíu og fimm ára aldur, sem er að skoða hana. sjá hér (linkur). Sólveig telur samt að það sé tímabært fyrir fólk að fara að huga að efri árunum á milli fertugs og fimmtugs. „Ekki er ráð nema í tíma sé tekið“, segir hún og bætir við að margir viti ekki hvernig þeir eigi að snúa sér, þegar að því kemur að skipuleggja starfslokin. Fólk spyrji gjarnan hvort það eigi að byrja á því að taka út viðbótarlífeyrissparnaðinn.  Landssamtökin veita hins vegar ekki persónulega ráðgjöf, þannig að Sólveig ráðleggur fólki að hafa samband við lífeyrissjóðinn sinn til að fá upplýsingar. Aðstæður fólks séu mjög mismunandi, þegar að lífeyrisréttindum kemur.

Fólki var brugðið þegar það sá tekjur efri áranna

Almennt er mikilvægt að kynna sér lífeyrismálin í tíma og Sólveig segir að allir ættu að skoða Lífeyrisgáttina hjá sínum lífeyrissjóði þar sem þeir geta fundið yfirlit yfir samtryggingaréttindi sín. „Við urðum vör við það hjá Tryggingastofnun að fólki var oft brugðið þegar það sá hvað það myndi hafa í tekjur á efri árum. Menn voru með aðrar væntingar. Þess vegna er mikilvægt að undirbúa sig í tíma, þannig að væntingarnar verði raunhæfar“.

Ritstjórn febrúar 8, 2022 07:00