Ertu fýlupúkinn á vinnustaðnum þínum?

Fjölskyldan bíður heima og þú getur ekki drukkið á sama hátt og þegar þú varst á þrítugs og fertugsaldri. Þar að auki finnst þér þú ekki eiga margt sameiginlegt með vinnufélögum þínum sem eru áratugum yngri en þú. Þér er nú samt sem áður boðið á „gleðistund“ með þeim eftir vinnu. Hvað átt þú að gera, er spurt á vefsíðunni considerable.com.

Það er ekkert óeðlilegt við að missa áhugann á að fara út eftir vinnu. Fjölskylda, vinir og áhugamál hafa einfaldlega meira vægi eftir því sem árunum fjölgar og yngra fólkið virðist stöðugt verða yngra og yngra.  Á ákveðnum tímapunkti er eins og þú hættir að botna í þessu unga fólki. „Það gæti valdið þér áhyggjum að vita ekki hvað eru nýjustu tískudrykkirnir eða þá að þú skilur ekki brandarana sem þau eru að segja. Eða þú hefur áhyggjur af því að vera sá elsti eða sú elsta í samkvæminu,“ segir markþjálfinn Regina Duffey Moravek.

Þú ættir samt ekki að eyða boðinu úr póstinum þínum það getur haft slæmar afleiðingar fyrir þig og framtíð þína á vinnustaðnum segir Moravek og heldur áfram að gefa góð ráð.  Óformlegt spjall og að eiga samskipti við vinnufélagana fyrir utan vinnustaðinn getur haft góð áhrif á samvinnu og starfsanda í fyrirtækjum. Auk þess má vel vera að eitthvað af þessu unga fólki verði yfirmenn þínir síðar, ef þeir eru ekki þegar orðnir það.  Óformlegt spjall utan vinnustaðarins getur byggt brýr og skapað tengsl sem geta orðið þér ómetanleg.  Eldri starfsmenn ættu því að mæta sé þeim boðið en komist þeir ekki ættu þeir að senda afsökunarbeiðni.

Ef þér finnst erfitt að mæta einn eða ein fáðu þá að slást í hópinn með þeim sem þú þekkir best á þínum vinnustað. Hafðu í huga að þó að þú hittir starfsfélagana utan vinnu er ekki þar með sagt að þú þurfir að hanga með þeim langt fram á kvöld. Þú getur bara látið þig hverfa þegar samkvæmið er komið á skrið.

Það heldur því enginn fram að þú eigir að drekka eins og þú gerðir þegar þú  varst ungur. Að öllum líkindum er enginn að spekulera í hvort eða hvað þú ert að drekka. Fáðu þér eitt glas ef þig langar og skiptu svo yfir í vatn eða gos.

Ef fólki finnst erfitt að finna eitthvað að tala um þá er því nú þannig varið að flestir hafa svipuð áhyggjuefni og gleðiefnin eru svipuð, sama á hvaða aldri fólk er. Til að mynda segir fólk oft sögur af börnunum sínum og skemmtilegum uppákomum þeim tengdum, þeir sem eldri eru geta sagt sögur af barnabörnunum. Ef fólki dettur ekkert skemmtilegt í hug að segja þá er ekki úr vegi að hlusta á þá sem yngri eru og koma með skemmtilegar athugasemdir þegar það á við. Flestir hafa gaman af sömu hlutunum, ferðalögum, matreiðslu, líkamsrækt, íþróttum og það er auðvelt að spinna umræður um þessa hluti.

Gættu þess bara að vera ekki álitinn fýlupúkinn á þínum vinnustað. Sá sem tekur aldrei þátt í neinu. Það getur komið í bakið á þér síðar, segir Moravek.

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn febrúar 14, 2019 09:19