Tengdar greinar

Frágangur dánarbúa?

Að sögn Hauks Arnar Birgissonar hæstaréttarlögmanns hjá Íslensku lögfræðistofunni koma tvær leiðir til greina þegar ganga þarf frá dánarbúi. Ef hinn látni hefur átt maka getur sá óskað eftir að sitja í óskiptu búi þangað til að hann eða hún gengur í hjúskap að nýju eða lætur lífið. Í þeim tilvikum er dánarbúi beggja skipt að þeim báðum gengnum. Ef ekki er óskað setu í óskiptu búi þá þarf að skipta búinu og þá koma tvær leiðir til greina, annars vegar opinber skipti eða hins vegar einkaskipti. „Munurinn er sá að við opinber skipti skipar héraðsdómur skiptastjóra sem er þá lögmaður úti í bæ til að annast skipti á búinu. Það kemur einkum til ef um er að ræða ágreining um hvernig eigi að skipta búinu eða ef eignir búsins eru minni en skuldir,“ segir Haukur Örn. „Ef erfingjar taka yfir eignir taka þeir líka yfir skuldir. Ef nettó staðan á búinu er í mínus vilja erfingjar eðlilega ekki taka þátt í því. Þá fara fram þessi opinberu skipti bara eins og þegar um gjaldþrotaskipti er að ræða. Þá þarf skiptastjóri að auglýsa eftir kröfuhöfum og tekur hann saman eignir og skuldir og notar eignirnar til að greiða kröfuhöfum og síðan er restin afskrifuð. Þegar óvissa ríkir um hvort eignir séu meiri en skuldir er gjarnan farið í opinber skipti“, segir Haukur jafnframt.

Haukur segir að ef erfingjar óska eftir einkaskiptum þá geri þeir það í þeirri vissu að eignir séu meiri en skuldir og að það verði eitthvað til skiptanna þegar búið er að gera búið upp. Með því að fara fram á einkaskipti, sem er algengari leiðin, taka þeir á sig ábyrgðina af því að allar skuldir búsins verið greiddar fyrst. Á síðari stigum geti reyndar komið upp að skuldir séu meiri en eignir og þá er hægt að bakka út og skipta yfir í opinber skipti.

Haukur segir að algengast sé að farið sé í einkaskipti og þá sækja erfingjar um heimild til sýslumanns í viðkomandi sveitarfélagi. Þá fellur það í hlut erfingjanna að ganga frá skiptum sjálfir eða með aðstoð lögmanns sem er mjög algengt að sé gert. Þá fær lögmaðurinn umboð erfingjanna til að afla upplýsinga um hinn látna hjá lánastofnunum og bönkum og gera lista yfir allar eignir og skuldir búsins, miðað við dánardag. Loks er gert upp við alla kröfuhafa og eftirstöðvunum skipt á milli erfingjanna, samkvæmt þeim lögum sem um það gilda. Makar fá alltaf 1/3 eignanna í sinn hlut og börnin 2/3 hluta, sem skiptast jafnt á milli þeirra.

Þegar erfingjar hafa komið sér saman um skiptingu eigna eru útbúin erfðafjárskýrsla og eignaskiptayfirlýsing. Í þessum skjölum eru allar upplýsingar um hvernig arfurinn á að skptast milli erfingja og af arfinum er greiddur 10% erfðafjárskattur.

Þegar fólk er á lífi má það ráðstafa eigum sínum eins og það vill en slíkar ráðstafanir kunna að vera skattskyldar. Ef grunur er um að verið sé að ráðstafa eignum rétt fyrir dánardag þá getur verið litið á slíkt sem fyrirframgreiddan arf og það er skattskylt.

Yfirleitt er frestur til skiptingu dánarbúa eitt ár frá andláti en hægt er að fá frest framlengdan af dráttur á skiptum er réttlætanlegur.

„Við komumst víst hvorki ekki undan dauðanum né greiðslu skatta,“ segir Haukur Örn að lokum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn febrúar 11, 2020 13:49