Hversvegna játum við ást okkar á Fésbók?

Fésbókin er mikilvægt samskiptatæki fyrir flesta, sama á hvaða aldri þeir eru. Fólk sendir kveðjur, lætur vita af sér og segir frá mikilvægum atburðum í lífi sínu. Um hátíðarnar höfum við fylgst með borðhaldi vina og kunningja, hvað þeir hafa í matinn, sumir deila því hvað þeir fengu í jólagjöf og svo framvegis. Svo fáum við sendar myndir af börnum og barnabörnum. Enn aðrir segja okkur frá ástarlífi sínu og senda fallegar ástarjátningar til maka og þeirra sem þeir eru hrifnir af. En hvers vegna viljum við deila einkamálefnum okkar og ástarmálum með fólki sem við þekkjum mismikið á samfélagsmiðlum.  „Sumir gera það til að sannfæra sig um að sambandið sé í lagi. Aðrir til að vekja afbrýðisemi og enn aðrir vegna þess að þeir hafa þörf fyrir að deila hamingju sinni með umheiminum,“segir danski blaðamaðurinn Susanne Vigsö Grön á vef danska ríkisútvarpsins Lev nu.

 Að upphefja sjálfan sig

„Nýkominn til Mílanó með þessari fallegu stúlku. Til allrar hamingju er hún mín. Elskan mín, þakka þér þetta óvænta boð, það var dásamleg afmælisgjöf að fá langþráða helgarheimsókn til Ítalíu. Elska þig upp til stjarnanna og til baka til jarðar.“ Flest höfum við lesið skilaboð á borð við þessi. Susanne spurði sálfræðinginn, Jesper Bay-Hansen hvers vegna fólk setti slík skilaboð á Fésbók. Hvers vegna fólk gæti ekki alveg eins sagt þetta hvert við annað. Jesper segir að þetta snúist næstum alltaf um að uppfylla þarfir þess sem skrifar. Það getur verið þörf fyrir að deila og staðfesta fyrir sjálfum sér og öðrum að maður elski einhvern. Ástæðan gæti líka verið að fólk vildi upphefja sjálft sig, vekja undrun annarra eða þörf fyrir að skapa öfund eða afbrýðisemi.

Mismunandi afstaða karla og kvenna

Fólk getur verið að búa til jákvæða mynd af sjálfu sér þegar það deilir sínum innstu tilfinningum eða skapa jákvæðan veruleika fyrir sjálft sig. Það getur haft góð áhrif á sambönd að deila fallegum skilaboðum. Jesper segir að afstaða karla og kvenna til slíkra skilaboða sé mismunandi. Konum finnist oft að maki eða kærasti sé leitandi þegar hann setur slíkar ástarjátningar  á Fésbók en karlar túlki skilaboðin sem að konan vilji hann. Þetta er þó ekki einhlítt, segir hann því sumir setji slíkar færslur inn á Fésbókina því þeir vilji skuldbinda sig. Þetta sé svolítið eins og að staðfesta ástina fyrir augliti kunningja, vina og fjölskyldunnar.

Deilum ekki rifrildunum

En svo þverstæðukennt sem það kann að hljóma geta ástarjátnigar á Fésbókinni líka verið sprottnar af því að fólk er óöruggt um ástina eða í vafa. Sumir játa ást sína á Fésbókinni til að reyna að sannfæra sig um að þeir séu að gera rétt, segir Jesper. Hann segir að við lifum á tímum  þar sem margt fólk hafi þörf fyrir að sýna að það sé hamingjusamt og gangi vel í lífinu. Fyrir suma sé það nauðsynlegt fyrir sjálfsmyndina að koma því til skila að maður eigi maka, kærasta eða kærustu, einhvern sem maður elskar. Það gefi betri mynd af fólki sem manneskjum. Það sé þess vegna sem fólk deili því ekki á Fésbók að það hafi verið að rífast við sína nánustu og óski þeim út í hafsauga.

Að hafa það skítt

Fólk ætti að vera meðvitað um hvers vegna það setur ákveðna statusa á Fésbók. Sumir nota þá til að skapa ósætti, milli vina, gera fyrrverandi maka eða kærasta/kærustu afbrýðisama eða gera núverandi afbrýðisama með því að skrifa eitthvað fallegt til fyrrverandi.  Það ætti enginn að leika sér að tilfinningum annarra. Ef því er þannig farið er skýringin líklega sú að maður hefur það sjálfur skítt. Fólk á að vera meðvitað um hvað það setur frá sér á netið, segir Jesper.

Ritstjórn desember 30, 2016 13:09