Láttu gráa hárið vaxa

Það færist í vöxt að konur vilji vera gráhærðar og um þetta er skrifað fram og tilbaka á vefsíðum sem fjalla um lífið á eldri árum. Hér á eftir fer grein af vefsíðunni Sixtyandme.com en hún er eftir konu að nafni Cindy Roe Littlejohn.

Ég ólst upp í lítlum bæ í Suðurríkjum Bandaríkjanna þar sem konurnar klæddu sig uppá við nánast öll tækifæri. Til að fara í kirkju, til að spila bridge, taka þátt í góðgerðarstarfi eða fara á „fótboltaleiki“ á föstudagskvöldum. Eldri konur gerðu þetta líka – já sérstaklega eldri konurnar.

Ég man vel eftir bláhærðu konunum. Þær voru svo hreinar og snyrtilegar, hvert einasta hár á höfðinu á sínum stað. Báðar ömmu mínar fóru á hárgreiðslustofu í hverri viku til að láta þvo og leggja á sér hárið. Sumar eldri konurnar notuðu skol sem gerði hárið á þeim blágrátt. Við kölluðum þær bláhærðu konurnar.

Mamma sagði að grái liturinn hjá sumum konum, yrði gulleitari en hjá öðrum og þær notuðu bláa skolið til að gera gráa litinn fallegri. En eins og lög gera ráð fyrir, helst það í hendur við gráa hárið að sjónin daprast. Þannig að stundum settu konurnar og mikið af bláa skolinu í hárið og urðu bláhærðar. Mér fannst þetta flott þegar ég var stelpa.

Ég er búin að hóta því í mörg ár að verða bláhærð þegar ég eldist. Ef ungu stúlkurnar geta haft bleikt, fjólublátt og grænt hár, hvers vegna ættu eldri konur ekki að geta verið bláhærðar? Kannski það sé kominn tími til að vera ánægður með að vera farinn að grána.

Láttu gráa hárið vaxa

Það er komið að því og ég er með fullt af gráu hári á höfðinu, eða mér sýnist það alla vega, það sést  í rótinni. Ég er samt  ekki alveg viss því ég er alltaf að lita á mér hárið. Ég byrjaði að lita á mér hárið þegar ég sá fyrstu gráu hárin í höfðinu fyrir 20 árum.

En núna finnst mér kominn tími til að verða gráhærð, en er ekki alveg viss um hversu grátt hárið á mér er orðið.  Satt að segja er þetta alveg nýtt fyrir mér. Mér hefur ekki dottið í hug að verða gráhærð fyrr en alveg nýlega. Ég er hégómagjörn kona, en kannski aðallega forvitin. Nokkrar vinkonur mínar eru orðnar gráhærðar og mér finnst það flott. Þær líta virkilega vel út.

Hárið dekkt í rótina með hárskugga

Hættu að lita hárið

Síðast liðið haust hætti ég að lita á mér hárið. Ég fylgdist með hvernig rótin lengdist á milli þvotta. Þetta hefur verið heilmikil lífsreynsla. Til að halda hárinu fallegu, setti ég hárskugga í rótina. Það virkaði mjög vel og huldi alveg gráa hárið, þó rótin væri orðin 3-4 sentimetrar. Það eru ýmis efni á markaðnum, en ég valdi strax „Grey Away“ og hef haldið mig við það síðan.

Nú er ég komin með um 5 sentimetra af ólituðu gráu hári, sem ég set hárskuggann í eftir hvern þvott.  Ég segi manninum mínum að eldri konur noti þennan felubúning. Hann kallar það svindl. En mér finnst hárskugginn virka betur ef ég þurrka hárið og set í það hárlakk. Hér eru myndir af mér, fyrir og eftir að ég fór að nota hárskuggann.

Styttri klipping

Klipptu hárið styttra

Næst lét ég klippa hárið styttra en ég hef haft það lengi. Mig langaði að klippa burtu eins mikið af litaða hárinu og mögulegt væri. Ég þarf að hafa hár umhverfis andlitið, þannig að það eru  lengri styttur ofan á höfðinu og ég er með síðan topp. Ég lét klippa mig hjá hárgreiðslukonu hér á Flórída og hún klippti hárið nákvæmlega eins og ég vildi hafa það.

Ég get varla beðið eftir að sjá hvernig þetta mun koma út þegar ég fer að sjá um hárið sjálf,  ég er ekki alveg orðin gráhærð. Kannski nota ég hárskuggann áfram á meðan gráa hárið er að vaxa fram.

Svo er líka alltaf hægt að lita það aftur. Við nútíma konur getum alltaf valið.

Eitt veit ég þó með vissu. Ég get ekki sett blátt skol í hárið. Að minnst kosti ekki strax. Það er ennþá heldur snemmt.

Eiginmaðurinn og börnin eru áreiðanlega þakklát fyrir að vita ekki hvað ég er að bralla.

 

Ritstjórn febrúar 27, 2020 07:53