Silkimjúk húð og ljómandi förðun  

Sjaldan leiðum við hugann að því hvernig snyrtivörurnar sem við notum verða til eða hvað liggur að baki framleiðslu þeirra. En í mörgum tilfellum eiga slíkar vörur sér áhugaverða og heillandi sögu. Það á sérstaklega vel við japönsku snyrtivörurnar frá Sensai. Á dögunum bauð verslunin beautybox.is fólki upp á sitja námskeið hjá Helgu Kristjáns förðunarfræðingi sem hefur sérhæft sig í notkun þeirra.

Hér má sjá farðaúrvalið hjá Sensai en Sheer Foundation notar Helga gjarnan á sumrin sem er einstaklega léttur farði og Cream Foundation á veturnar en hann er kremaðri og hylur meira. Total Finish púðurfarðann notar hún allan ársins hring og til að fullkomna förðunina yfir daginn.

Snyrtivörur snúast um vellíðan og maðurinn hefur alla tíð verið útsjónarsamur og snjall í að finna leiðir til að láta sér líða vel. Heimildir eru fyrir snyrtivörunotkun allt aftur til Súmera og Egypta til forna og líklega eru þær enn eldri. Sensai varð hins vegar til þegar menn tóku eftir að konurnar sem unnu við framleiðslu Koishimaru-silkisins,  en það þykir einstaklega létt og ljómandi silki, voru ekki með grófar og siggrónar hendur annarra verksmiðjustúlkna heldur silkimjúkar, sléttar og fallegar. Það varð til þess að menn hófu að rannsaka eiginleika silkisins og leita leiða til að koma því í það form að hægt væri að setja það í snyrtivörur. Það tókst og síðan þá hefur silki verið leynivopnið hjá Sensai þótt margvísleg önnur holl og góð innihaldsefni betrumbæti vörur þeirra líka. Helga segir alltaf jafngaman að kynna þessa sögu og undirbúa húð módelsins síns fyrir förðun.

Micro Mousse Treatment inniheldur örsmáar loftbólur sem eru minni en húðholurnar og fara því djúpt inn í húðina.

Einkavara Japanskeisara

„Koishimaru-silkið var eingöngu ætlað japönsku keisarafjölskyldunni og er eitt dýrmætasta silki sem hægt er að finna enda gefur það sjö sinnum meiri raka en nokkur annar rakagjafi í náttúrunni. Það stuðlar að framleiðslu hýalúrónsýru í húðinni sem gerir hana svo silkimjúka. Það hefur verið gaman að kynna sér sögu fyrirtækisins og tileinka sér þessa tvöföldu hreinsun og tvöfalda raka sem Japanir eru svo þekktir fyrir,“ segir Helga.

„Ég byrja alltaf á að nota Cleansing Oil sem tekur farða af og óhreinindi sem hafa safnast yfir daginn og svo nota ég gjarnan Milky Soap sem verður froðukennd þegar örlitlu vatni er bætt við í lófann. Ég nota svokallaðan Sponge Chief til að þrífa húðina með, sem er dásamlegur, margnota hreinsiklútur sem hefur þann eiginleika að þorna harður og safnar engum bakteríum. Svo er gott að skella honum í þvottavélina á 30 gráður og nota aftur og aftur. Á morgnana nota ég svo eingöngu Milky Soap en hreinsilínan er merkt step 1 og step 2 þannig að auðvelt er að muna hvenær maður notar hvað. Það er hægt að hugsa sem svo að fyrsta skref sé að fara úr fötunum og skref tvö sé að fara í sturtu, þetta hjálpar til við að muna hversu mikilvæg tvöfalda hreinsunin er,“ segir Helga og brosir.

„Eftir hreinsun er húðin því meira en tilbúin fyrir raka og þá er gott að nota til dæmis Micro Mousse sem hefur slegið í gegn hjá íslenskum konum en sú rakafroða inniheldur örsmáar loftbólur sem eru minni en húðholurnar og ná því djúpt inn í húðina. Ég sprauta froðunni beint á andlitið og ýti henni svo inn með fingrunum. Þvínæst er andlitskrem valið en það sem er í uppáhaldi hjá mér heitir Illuminative Cream, sem gefur húðinni mikinn raka og ljóma en áferðin er mjög létt. Það að hreinsa húðina almennilega og veita henni rakann sem hún þarf hefur breytt húðinni minni heldur betur til hins betra síðan ég kynntist Sensai.“

Varablýantarnir Stunning Nude og Classy Rose eru í uppáhaldi hjá Helgu en hér má sjá þann fyrrnefnda með vinsæla glossinu frá Sensai sem nærir varirnar einstaklega vel.

Ekkert verið að flækja hlutina

Förðunarlína Sensai er úthugsuð eins og allt annað hjá fyrirtækinu. Að sögn Helgu leggja þeir jafnmikla áherslu á hönnun, þrautreynd vísindi, þægindi og gæði. Allt stuðlar þetta að því að heildarupplifunin sé sem ánægjulegust.

„Það sem mér finnst best við förðunarvörurnar frá Sensai er að það er ekkert verið að flækja hlutina. Hver vara er vönduð og hefur gert sig heimakomna í rútínunni minni og nokkrar þeirra hef ég notað og keypt aftur og aftur síðan ég var um tvítugt. Flestar íslenskar konur þekkja Bronzing Gel-ið frá Sensai, sem hefur selst í bílförmum í tugi ára en ég mæli með að kynna sér lit númer 61, hann er svo fallegur. Eins var að koma á markað ný formúla af Total Finish-púðurfarðanum sem ég hef notað í fjöldamörg ár og verður alltaf að vera til í veskinu mínu. Ég hef kallað það fótósjopp-púðrið og það er alveg einstök förðunarvara sem virkar fyrir allan aldur og sest ekki í fínar línur heldur þvert á móti virðist fylla upp í þær.“

Kinnalitur er vanmetinn að mati Helgu og gerir mikið fyrir heildarmyndina og frísklegt útlit.

Lágstemmd en falleg förðun

Vörur Sensai eru lágstemmdar og fallegar. Þær eru auðveldar í notkun og að mati Helgu eru engin förðunarmistök þannig að ekki sé hægt að leiðrétta þau. Hún bendir til að mynda á að gott sé að dreifa aðeins úr eyelinernum eftir á, þ.e. nudda hann svolítið en á öðrum enda augnblýantsins er lítill svampur sem hægt er að nota í það. Þá gerir minna til þótt ekki sé dregin fullkomin lína. Hún talar líka um að setja frekar nokkra punkta á neðra augnlokið en að draga þar óbrotna línu.

Förðunarmyndbönd Helgu Kristjáns með Sensai hafa slegið í gegn á samfélagsmiðlum.

„Mér finnst best að nudda augnblýanti í dökkbrúnu inn á milli augnháranna og jafnvel undir í vatnslínuna sem gefur augunum skarpara útlit. Augnskuggapalletturnar frá Sensai koma í fjórum litatónum sem hver og ein er með fjórum litum. Sú sem ég nota hvað mest heitir Petal Dance og mér finnst þægilegt að einn litur er til að grunna augnlokið, einn millilitur sem gott er að nota upp að glóbuslínu og dekkri litur sem mér finnst best að nota með skásettum bursta yfir augnblýantinn, þá helst allt á sínum stað allan daginn. Svo er engin förðun fullkomnuð án 38° maskarans en hann helst á í gegnum allt. Besta leiðin til að ná honum af er með því að nota blautan hreinsiklút með volgu vatni og halda í 5-10 sekúndur, þá rennur hann ef í einu lagi.“

Helga segir að ekki megi vanmeta mátt kinnalitarins. „Ég mæli með að nota hann hátt upp á kinnbeinin og hærra upp og nær auganu en þú heldur, sjáðu bara hvað það gerir mikið, það frískar þig við á núlleinni. Í uppáhaldi hjá mér er litur númer 02 sem er bleiktóna með smávegis ljóma og 05 sem er örlítið meira brúntóna,“ segir Helga sem bersýnilega hefur mikla ástríðu fyrir því sem hún er að tala um.

Að lokum er vert að nefna að rannsóknir sýna að notkun vandaðra húðvara eflir endurnýjunarferli húðarinnar, teygjanleika hennar og dregur úr fínum línum. Auk þess stuðlar notkun þeirra að jafnari húðlit, auknum ljóma og hreinleika. Helga segir áberandi hve silkimjúk og einstaklega áferðarfalleg húðin verði þegar Sensai húðvörur séu notaðar. Hreinsilína þeirra samanstendur af tveimur vörutegundum og því bæði fljótlegt og auðvelt að grípa til þeirra bæði kvölds og morgna.

Finna má kennslumyndbönd Helgu með Sensai á sensaibeauty_iceland á Instagram eða SENSAI Cosmetics á Facebook.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 11, 2024 07:00