Lazy boy stóllinn kom, sá og sigraði

Það eru heilu breiðurnar af Lazy boy stólum  í Húsgagnahöllinni. Alls konar og á verði fyrir alla

Kona nokkur sem koma að máli við okkur hjá Lifðu núna, var hreint ekki hrifin af Lazy-boy stólum. Henni þóttu þeir ljótir og gat ekki séð fyrir sér að fá slíkan grip inná heimilið.  Uppkominn sonur hennar hafði hins vegar mikinn áhuga á að eignast slíkan stól. Hann bjó heima og spurði móður sína annað slagið, hvort hann mætti ekki kaupa sér Lazy boy  og koma með inná heimilið.  Hún þvertók fyrir það. Sonurinn eignaðist kærustu, flutti út og fór að búa með henni. Og draumur hans um að kaupa Lazy boy stól varð að veruleika. Stóllinn sómdi sér ágætlega á heimilinu þó mamman væri ekki sérlega hrifin. Svo kom að því að það slitnaði uppúr sambandinu við kærustuna. Sonurinn flutti heim til mömmu í bili og nú voru góð ráð dýr. Lazy boy stóllinn kom nefnilega í hans hlut.

Þar sem þarna var um tímabundið ástand að ræða, féllst mamma hans með semingi á að hann flytti inn með Lazy boy stólinn.  Honum var komið fyrir inní sjónvarpsherbergi, fyrir framan sjónvarpið. Staðan var þannig að það var helst móðirin á heimilinu sem horfði á sjónvarp. Hún fór að koma sér fyrir í Lazy boy stólnum og liggja þar og horfa á fréttir og annað sjónvarpsefni. Og hún varð að viðurkenna fyrir sjálfri sér að stóllinn væri ótrúlega þægilegur.

Örlögin höguðu því þannig að sonurinn flutti út á land til að vinna, en skildi Lazy boy stólinn eftir heima í vörslu móður sinnar. Henni fannst hún hafa himin höndum tekið að fá að hafa stólinn áfram. Hann var jú í sjónvarpsherberginu og blasti ekki beint við úr aðalrýminu í stofunni.  Það var ótrúlegt eftir langan vinnudag að koma heim, leggjast í Lazy boy stólinn og horfa á sjónvarpið. Leigja kannski bíómynd og fá sér popp. Það kom fyrir að hún dormaði í stólnum, steinsofnaði jafnvel.  Það fór alltaf jafn vel um hana.  Hún varð að viðurkenna að þetta var besti sjónvarpsstóll sem hún hafði haft, þó útlitið væri kannski ekki alveg eins og hún hefði kosið.

En svo kom sonurinn heim, keypti sér íbúð og vildi fá sinn Lazy boy stól.  Þar með var draumurinn búinn.  En hún er ennþá að hugsa um stólinn og velta fyrir sér, hvort hún eigi bara ekki að kaupa sér svona stól sjálf. Það er nokkuð stórt skref og eftir að hún flutti í minni íbúð, er dálítið erfitt að koma honum fyrir, en hver veit hvað verður?  Henni er alveg ljóst að það skiptir meira og meira máli eftir því sem árin líða, að það fari vel um mann í stólum og sófum.  Þar sannast hið fornkveðna að útlitið er ekki allt.

Ritstjórn maí 5, 2017 10:13