Lengi býr að fyrstu mjólk

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar. 

 

Eiga fullorðnir að borða brodd? Þetta er bein þýðing á fyrirsögn í nýju eintaki af The Economist. Latneska orðið yfir brodd er colostrum og er það orð notað í fyrirsögninni. Kannski er ekki neitt enskt orð til yfir fyrirbærið. Til frekari skýringar er þessu lýst sem þykkum gulleitum vökva og til enn frekari skýringar er þetta kallað „fyrsta mjólkin“.

Þegar ég var stelpa á Akureyri fengum við annað slagið senda flösku frá ömmu og afa í Svarfaðardal. Í henni var broddur. Mamma sauð þennan gula vökva samviskusamlega í vatnsbaði. Við borðuðum þetta sem eftirrétt með kanilsykri og mjólk. Ábrestir hét rétturinn á okkar heimili en aðrir nota orðið ábrystir. Ég man að mér þóttu ábrestir betri en ýmislegt annað sem maður borðaði í æsku en vanillubúðingurinn frá Royal var óneitanlega bragðbetri.

Í umræddri grein í Economist segir að broddur/colostrum hafi verið notaður lengi til matar m.a. í Bretlandi, Indlandi, Tyrklandi og á Norðurlöndunum. Nú er verið að rannsaka næringargildi þessarar svokölluðu fyrstu mjólkur og áhrifa hennar á heilsu og árangur í íþróttum.

Á einu ári hefur sala á brodd-dufti, brodd-töflum og broddvöka aukist um 155% í Bandaríkjunum og þeir sem eru hrifnastir af broddinum kalla hann „gullvökva“. En dýrt er drottins orðið. Ef maður tekur inn þrjú grömm, sem er ráðlagður dagskammtur, í einn mánuð, kostar það 60 dollara eða hátt í átta þúsund krónur. Tekið er fram að þó svo að þetta hafi jákvæð áhrif á ýmislegt í líkamanum sé broddur ekki töfralausn við öllum kvillum. Sérstaklega er tekið fram að neysla á broddi auki ekki vöðvamassa!

Mér þótti þetta áhugavert og í kjölfarið fór ég að skoða fróðleik um nýuppgötvaðan gullvökva á netinu. Ég fann pistil frá bónda á Vesturlandi sem talar um brodd sem holla en vannýtta afurð og kemur hann með uppskrift af ábrystum með karamellu og sjávarsalti. Á öðrum stað fann ég uppskrift af vanilluábrystum með rabarbara og rifsberjum.

Yfir okkur dynja neikvæðar fréttir af holdarfari Íslendinga. Fallþungi þjóðarinnar eykst. Við erum að slá met í þeim efnum á Norðurlöndum. Ofurunnin, óholl fæða er tíunduð sem ein af orsökunum og auðvitað of mikið magn af mat og of lítil hreyfing. Allt þetta telur og leiðir okkur upp á þennan hættulega topp. Við viljum alltaf vera mest og best en kannski ekki á þessu sviði, enda fylgja ofþyngd ýmsir sjúkdómar og fylgikvillar.

Greinin um ofurfæðuna brodd vakti mig til umhugsunar um matarvenjur Íslendinga fyrir nokkrum áratugum. Mamma var ekki mikið fyrir matargerð, en maturinn hennar var hollur. Soðinn eða steiktur fiskur og kartöflur oft í viku. Lambalæri um helgar, kjötsúpa, grjónagrautur, skyr og slátur. Ég var að reyna að rifja upp hvað við fengum af unnum matvörum. Það var ekki margt. Ég man eftir sperðlum, kjötfarsi og spægipylsunni sem pabbi einn elskaði. Við fengum grænmeti en ekki mikið af ávöxtum enda fáséðir þá. Svarfdælsk bláber og aðalbláber komu í staðinn og jarðarberin sem hurfu úr beðinu hennar ömmu.

Við krakkarnir borðuðum það sem að okkur var rétt enda vorum við svöng á matmálstímum. Það var ekki hlustað á neitt tuð. Þegar ég lít til baka tel ég mig hafa verið heppna með fæðið á æskuheimilinu. Matmálstímarnir voru af nauðsyn en ekki til skemmtunar. Sennilega hefði ég borðað meira af ábrestunum hefði ég vitað hvílík ofurfæða þeir eru. Það er hins vegar aldrei of seint að bæta ráð sitt í þessum efnum og þá bið ég heldur um ábresti í skál en ekki brodd í töfluformi á ameríska vísu.