Besti vinur minn, Ólsen 

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Við erum stödd í annarri heimsálfu til þess að heimsækja fjölskylduna, þar á meðal tvo sonarsyni, sex og tíu ára. Níu mánaða aðskilnaður að baki, með auknum þroska og nýjum upplifunum. Þegar þeir voru búnir að sýna okkur skel af dauðu beltisdýri, sundlaugina og apana sem hendast fram og aftur í trjánum, vaknaði sú spurning hvað við gætum gert saman.  Markaskorun í sundlauginni var fyrsti valkostur en hvað svo? Þar kom gamli góði vinur minn Ólsen sterkur inn. Við höfðum stungið nýjum spilastokki niður í ferðatöskuna svona upp á grín. En öllu gríni fylgir nokkur alvara. Að spila við barnabörnin hefur alltaf verið sterkur leikur á mínu heimili.

Sá eldri var þrautreyndur og útsmoginn Ólsen Ólsen spilari áður en hann flutti frá Íslandi í fyrra en hinn var of stuttur í annan endann og þekkti ekki lauf frá spaða. Núna var þeim báðum boðið til leiks og viti menn. Sá stutti var örfljótur að læra sortirnar og hvað væri drottning, kóngur  og hvað væri tvistur og ás. Í kjölfarið var stofnað spilavíti þar sem herra Ólsen sveif yfir vötnunum tímunum saman. Það var hlegið, svindlað smá og tapað og unnið. Sá yngri varð að lokum sannfærður um að ef hann syngi ákveðinn söng myndi hann vinna. Hann var líka sannfærður um að ef ég pússaði gleraugun mín með bleiku tuskunni frá gleraugasalanum myndi ég vinna. Tuskan er nú horfin!  Hann var gerður að bókara og er búinn að þjálfast í að skrifa tölustafi og gefur ekkert eftir. Núna vorum við að ljúka tveggja tíma stífu spilaprógrammi.

Sá stutti vakti mig í morgun með því að koma að rúmstokknum og hvísla inn í eyrað á mér – amma, Ólsen Ólsen. Um leið og afinn fór í sturtuna, skaust hann upp í og rúminu var breytt í spilaborð þar sem tekist var á. Framhald eftir morgunverð og framhald eftir leikskóla. Á morgun er búið að panta tíu slagi áður en við förum á flugvöllinn til þess að halda heim á leið.

Þetta er mér umhugsunarefni.  Ólsen er ekki merkilegur karl, en hann nær að gera það sem tölvur og tæki geta ekki. Hann tengir saman kynslóðir á jafningjagrundvelli, hvetur til samtals og gefur gullin tækifæri til þess að hlægja saman. Eitthvað sem afi og amma og barnabörn gera aldrei nóg af. Mæli með spilastokki í næstu heimsókn.

 

 

Sigrún Stefánsdóttir maí 27, 2019 07:23