Lestu alltaf fylgiseðla lyfja!

Ekkert lyf er án aukaverkana og menn eru misjafnlega viðkvæmir fyrir þeim efnum sem töflur og mixtúrur innihalda. Sumt fólk er með ofnæmi fyrir nánast öllum lyfjum og finnur alltaf fyrir aukaverkunum meðan aðrir eru með ofnæmi fyrir einni tegund lyfja. Það er einnig algengt að fólk finni fyrir óþoli þurfi það að taka einhver lyf en iðulega er það ekki meðvitað um að lyfið geti valdið einkennunum og stundum eru menn búnir að leita til ótal lækna til að fá svör þegar loks uppgötvast að lyfjunum er um að kenna.

Þess vegna er nauðsynlegt að lesa alltaf fylgiseðla lyfja. Þar er vandlega farið yfir aukaverkanir sem þau geta haft sem og mikilvægar upplýsingar um hættu sem kann að stafa af notkun þess og annað sem notandinn þarf að vera meðvitaður um. Fylgiseðlar eru uppfærðir reglulega eftir því sem þekking vex. Af þeim sökum er ekki nóg að lesa fylgiseðilinn einu sinni.

Til eru dæmi þess að fólk hafi gengið milli sérfræðilækna í leit að skýringu á kvillum sem skyndilega taka að hrjá það en uppgötva síðan að um algenga aukaverkun af lyfi er að ræða. Þetta getur gengið lengi vegna þess að læknarnir eru ekki alltaf upplýstir um hvaða lyf menn eru að taka eða hafa ekki þekkingu á því tiltekna lyfi og fylgikvillum þess. Lyf sem fást án lyfseðils hafa líka aukaverkanir og séu menn að nota slíkt er nauðsynlegt að upplýsa lækninn sinn um það. Vert er að muna að við berum sjálf mikla ábyrgð á eigin heilsu og ættum ætíð að vera á varðbergi gagnvart því sem getur reynst okkur óhollt. Góðu fréttirnar eru þær að oft er hægt að fá önnur lyf sem vinna jafnvel en hafa ekki sömu aukaverkanir.

Fólk með lyfjaofnæmi er hins vegar svo óheppið að það finnur fyrir aukaverkunum sama hvaða lyf það tekur. Þá snýst málið um að finna leið sem veldur minnstum óþægindum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júlí 20, 2024 07:00