Á ekki heima innan um syngjandi fólk

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar. 

 

Ég hlusta mikið á tónlist og hef gaman af alls konar tónlist. Mamma var í kór, stundum í fleiri en einum. Ég fékk oft að fara á æfingarnar með henni á kvöldin. Ég klökna enn þegar ég heyri lögin sem kórinn hennar mömmu söng. Móðurfólkið mitt er mikið tónlistarfólk og sum hafa til og með gert tónlist að ævistarfi með góðum árangri.

Sjónvarpið sýndi á dögunum áhugaverðan þátt um kvennakóra í landinu. Hver kórinn á fætur öðrum birtist á sviðinu í Hörpu og söng. Tónlistarvalið var eins fjölbreytt og kórarnir voru margir. Eitt áttu konurnar greinilegt sameiginlegt, en það var gleðin sem fylgir því að syngja saman. Ég naut þess að hlusta á þær og hafði líka gaman af því að skoða fatavalið. Allar konurnar voru í sínu fínasta pússi enda verið að koma fram fyrir fullu húsi gesta. Einn kórinn fékk sérstakt prik hjá mér fyrir skófatnaðinn. Í stað þess að vera á pinnahælum voru allar konurnar í þægilegum hvítum íþróttaskóm.

Ég hef heyrt þá kenningu að allir geti lært að syngja. Hún á ekki við um mig, enda var mér ekki gefið neitt tækifæri til þess. Ég er laglaus eða fölsk eins og það var kallað, þegar ég var að alast upp á miðri síðustu öld. Söngurinn var tekinn frá mér þegar ég var 10 ára og ég hef burðast með það hlustskipti síðan.

En hvernig gerist svona? Ég fór í barnakórinn eins og flestir jafnaldrar mínir. Við vorum látin raða okkur upp og síðan byrjaði fyrsta æfingin. Allt í einu gengur söngkennarinn ógnandi að okkur, teygir álkuna fram og leggur svo eyrað við. Það er  óhreinn tónn einhvers staðar! Ég var viss um að hann hefði komið frá mér. Ég steinþagnaði og hef ekki sungið einn tón síðan. Ég neitaði að fara á fleiri æfingar og fer enn í hnút þegar fólk fer að syngja nálægt mér. Mér finnst ég utanveltu og líður eins og ég passi ekki inn. Falska Sigrún á ekki heima innan um syngjandi fólk.

Hver syngur með sínu nefi segja þeir sem geta sungið. Ég syng ekki með mínu nefi, hvorki í sturtunni né annars staðar. Ég vona að tónlistarkennarar dagsins í dag fari öðru vísi að nemendum sínum en gamli söngkennarinn minn. Sem betur fer tókst honum samt ekki að drepa niður í mér gleðina yfir því að hlusta á fallegan söng og tónlist almennt. Mig langar því til þess að þakka Ríkisútvarpinu sérstaklega fyrir að senda út upptöku frá uppskeruhátíð Landssambands íslenskra kvennakóra og það á besta útsendingartíma. Konur, þið voruð æðislegar.

Sigrún Stefánsdóttir maí 14, 2024 07:00