„Við getum verið stolt af lífeyriskerfinu í alþjóðlegu samhengi. Það eru á því hnökrar sem þarf að laga og vonandi verður ekki grafið frekar undan því “, sagði Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða á fundi hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík í vikunni. Hún fór yfir lífeyrissjóðakerfið hér á landi sem skiptist í þrjár meginstoðir í samræmi við hugmyndir Alþjóðabankans. Fyrsta stoðin er almannatryggingakerfið, önnur stoðin er lífeyrissjóðirnir og sú þriðja er viðbótarlífeyrissparnaður fólks.
Skiptir engu máli að hafa tekjur úr lífeyrissjóði
Þórey fór einnig yfir hlutverk lífeyrissjóðanna sem er að greiða fólki ellilífeyri ævilangt, örorkutryggingu ef til tekjutaps kemur og maka- og barnalífeyri falli sjóðsfélagi frá. Töluverð umræða spannst um hlutverk ríkisins í sambandi við ellilífeyrinn og hvernig tekjuskerðingar í almannatryggingakerfinu virka þannig að lífeyrissparnaður fólks er nánast gerður upptækur. Sama hvað menn hafi í lífeyrissjóð, fái þeir lítið meira en lágmarksgreiðslur um hver mánaðamót, þar sem tekjur úr lífeyrissjóði lækka greiðslurnar frá almannatryggingakerfinu. Á fundinum kom fram mikil óánægja með þetta.
Lífeyrissjóðir eiga ekki að leysa Tryggingastofnun af hólmi
Á síðasta ári greiddu lífeyrissjóðirnir 75 milljarða króna í ellilífeyri, en ríkið 44 milljarða. Hlutur sjóðanna í eftirlaunum hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og það heyrist æ ofan í æ að lífeyrissjóðirnir séu og eigi að vera fyrsta stoðin í kerfinu. „Það var aldrei talað um það í upphafi að lífeyrissjóðirnir tækju alveg við eftirlaununum og Tryggingastofnun yrði bara fyrir þá sem engar tekjur hafa“, sagði Þórey.
Tekjutengingar í kerfinu of miklar
Þórey tók undir það sjónarmið eins fundarmanna að fólki væri refsað fyrir að hafa sparað. Hún sagði að það væru alltof miklar tekjurtengingar í kerfinu eins og það er í dag. Hún sagðist ekki vera alfarið á móti tekjutengingum og í okkar kerfi sem væri samtryggingarkerfi, væri eðlilegt að þeir sem hefðu meira legðu meira til. „En það hefur verið gengið alltof langt í skerðingum“, sagði hún. Hún sagði jafnframt að Íslendingar greiddu hlutfallslega minna til almannatryggingakerfisins en til dæmis Norðurlöndin. „Við erum búin að byggja upp þetta flotta kerfi og pólitíkin hefur notfært sér það“, sagði hún og bætti við að það væri eðlilegt að fólk fengi mismikið, en ef menn hefðu safnað lífeyrissjóði sem næmi 150 þúsund krónum væri ekki rétt að skerða framlag almannatrygginga til þeirra jafn mikið og gert er.
Lífeyrir er eign
Þórey sagði að umboðsmaður Alþingis og Hæstiréttur hefðu margítrekað það að lífeyrisréttindi væru eign sem nyti verndar stjórnarskrár. „Það er óumdeilt að lífeyrisréttindi eru eignaréttarvarin“, sagði hún og sagðist þeirrar skoðunar að ríkið þyfti að leggja meiri fjármuni í almannatryggingakerfið til að sátt næðist um samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða.