ASÍ vill minnka tekjutengingar almannatrygginga í 30%

Alþýðusamband Íslands krefst þess að skerðingarhlutfallið í almannatryggingum verði lækkað úr 45% í 30% og að króna á móti krónu skerðingin hjá öryrkjum verði strax afnumin. Þetta kemur fram í stefnu sambandsins um heilbrigðisþjónustuna og velferðarkerfið, sem samþykkt var á nýliðnu þingi ASÍ. Þar er krafist velferðar fyrir alla og fjallað ítarlega um meðal annars heilbrigðismál og kjör eftirlaunafólks.

Fjölgar hratt á næstu árum

„Lífaldur fer hækkandi og öldruðum mun fjölga hratt á næstu árum. Staðan í málefnum aldraðra er óviðunandi og fer versnandi ef ekki verður gripið til víðtækra aðgerða“, segir orðrétt í stefnunni. „Þetta veldur miklu álagi á aðstandendur og kallar á fjölbreyttar aðgerðir og lausnir svo sem bætta heimahjúkrun og þjónustu“.

Sjóðir tryggi sjálfbærni

Þar segir einnig að launafólk hafi byggt upp verðmæt réttindi í lífeyrissjóðunum, sem eigi að tryggja að þær kynslóðir sem fara á eftirlaun á næstu árum verði að mestu sjálfbærar um eftirlaun sín.  Enn sé þó stór hópur fólks sem eigi ekki nægileg réttindi í sjóðunum þegar eftirlaunaaldri er náð. „Þar á að koma til kasta almannatrygginga sem eiga að tryggja öllum afkomuöryggi á efri árum“ segir meðal annars í stefnunni og síðan segir:

Bæta þarf afkomu tekjulágra lífeyrisþega og draga verulega úr tekjutenginum í almannatyrggingakerfinu til að tryggja launafólki aukinn ávinning af lífeyrissparnað sínum og hvetja þau sem hafa getu og vilja til þáttöku á vinnumarkaði. Þá skortir lífeyriskerfið sveigjanleika til að launafólk sem er í erfðari störfum geti dregið úr vinnu og flýtt starfslokum, auk þess sem kerfið felur í sér kynjahalla þar sem konur hafa almennt lægri laun og styttri starfsævi.

Þau verkefni sem ASÍ samþykkti að fara í, í framhaldi af stefnunni, er að beita sér fyrir víðtæku samstarfi aðila vinnumarkaðains, samtaka aldraðra og öryrkja og stjórnvalda um nauðsynlegar breytingar á lögum um almannatryggingar með það að markmiði að treysta afkomuöryggi aldraðra og öryrkja og auka möguleika til virkrar samfélagsþátttöku. Þess er krafist að skerðingarhlutfall í almannatryggingum verði lækkað í 30% og að áhersla verði lögð á að efla atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu og skapa eldra fólki nauðsynlegan sveigjanleika við starfslok.

Ritstjórn nóvember 1, 2018 08:01