Er ástæða til að greiða í lífeyrissjóð?

Wilhelm Wessman

Wilhelm Wessman

Wilhelm Wessman skrifar

Er verið að þvinga skilningi ríkistjórnarinnar á uppbyggingu íslenska lífeyriskerfisins uppá eldri borgara með handafli? Ríkisstjórnin hefur kosið að snúa sannleikanum upp í andhverfu sína með því að halda því fram að lífeyrissjóðirnir séu fyrsta stoðin í eftirlaunakerfinu.

Í almannatryggingafrumvarpinu sem samþykkt var frá Alþingi fyrir helgina, er enn  gert ráð fyrir að  ræna eigi lífeyrissjóðunum með skerðingum til að greiða niður kostnað TR. Þó svo að skerðingarnar séu eitthvað minni er ásetningurinn sá sami.

Á vef Fjármála og efnahagsráðuneytisins er tekinn af allur vafi um að fyrsta stoð kerfisins er Almannatryggingar. Þar segir:

  1. Opinbert tryggingakerfi sem fjármagnað er með sköttum
  2. Lífeyrissjóðir. Kerfi er byggir á skylduaðild að lífeyrissjóðum með fullri sjóðsöfnun.
  3. Frjáls einstaklingsbundinn lífeyrissparnaður.

Á fundi Gráa hersins í Háskólabíó 26. september s.l. spurði Hrafn Magnússon sem var formaður Landsambands lífeyrissjóða í áratugi Sigríði Ingibjörgu Ingadóttir formann velferðarnefndar Alþingis hvort ofangreint væri ekki skilningur hennar. Í svari sínu tók hún af allan vafa að svo væri.

Samt sem áður gera lögin ráð fyrir að áfram eigi að skerða greiðslur til okkar sem höfum greitt í lífeyrissjóði, í mínu tilfelli í 45 ár  nánast niður í NÚLL. Þannig að við fáum ekki krónu meira en þeir sem ALDREI HAFA GREITT Í LÍFEYRISSJÓÐ.

Ritstjórn október 17, 2016 10:26