Gjaldeyrishöftin mesta ógnin sem steðjar að lífeyrissjóðunum

Gjaldeyrishöftin eru mesta ógnin sem að lífeyrissjóðunum steðjar, að mati Þóreyjar S. Þórðardóttur framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða. „Höftin draga verulega úr möguleikum til áhættudreifingar“, segir hún í grein í Markaði Fréttablaðsins í dag. Hún segir verulega erfitt fyrir sjóðina að tryggja kaupmáttaröryggi sjóðfélaga innan hafta og telur að ýmsar stærðir í þjóðarbúskapnum bendi til þess að nú sé rétti tíminn kominn til að hafja afnám þeirra. „Og vonandi hafa ráðamenn vilja og kjark til að takast á við það vandasama verkefni“, segir hún.

Í grein Þóeyjar kemur fram að á síðasta ári var raunávöxtun svokallaðra samtryggingarsjóða lífeyrissjóðanna um 7,4%, en að jafnaði 4% á ári síðustu 20 ár. Í greininni segir ennfremur.

Umhverfi lífeyrissjóðanna er breytingum háð og má þar nefna að við reynumst lifa lengur en áætlanir hafa gert ráð fyrir fram til þessa. Þetta eru að sjálfsögðu gleiðifréttir en lengri lífaldur má rekja til heilbrigðari lífsmáta og framfara í læknavísindum. Þessi jákvæða þróun hefur þó neikvæð áhrif á tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóða. Í hvert skipti sem Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga birtir nýjar dánar- og eftirlifendatöflur hefur staða lífeyrissjóða versnað af því sjóðirnir þurfa að greiða lífeyri í lengri tíma en áður var áætlað.

Síðar í greininni segir:

Vegna stöðugrar lengingar meðalævi undafarna áratugi er nú horft til þess að breyta forsendum útreikninga á tryggingafræðilegri stöðu lífeyrissjóða og byggja ekki lengur mat á meðalævi til framtíðar á reynslu síðustu ára um lífaldur. Þess í stað skal reikna meðalævi til framtíðar út frá spá um áframhaldandi lengingu á meðalævi. Þetta er krefjandi verkefni sem bíður lífeyrissjóðanna en nú er rétti tíminn þar sem við eigum hagstætt ár að baki.

Ritstjórn mars 4, 2015 16:28