Lífið er fullt af tækifærum

Frá tilnefningu í flokknum Frétta- eða viðtalsþáttur ársins á Eddunni 2020 fyrir Hvað höfum við gert?

Elín Hirst er þessa dagana upptekin við að nýta sér reynsluna sem hún hefur aflað sér um ævina. Andlit hennar þekkja flestir eftir að hún var fastur liður á sjónvarpsskjám okkar Íslendinga um árabil. Hún hætti að sjást þar reglulega 2010 og settist svo á Alþingi í nokkur ár. Lifðu núna forvitnaðist um hvort hafi verið líf eftir þessi mjög svo áberandi störf og svo reynist sannarlega hafa verið.

Var ætlað annað

Eftir að Elín hætti hjá RÚV 2010 stofnaði hún sitt eigið fyrirtæki og tók til við að framleiða fræðslumyndir og skrifa bækur. Hún hélt líka námskeið fyrir fólk, sér í lagi konur, sem vildu fá leiðsögn við að koma fram í fjölmiðlum. Hún fór í hóp sem hét Leiðarljós og tók þátt í söfnun fyrir börn með alvarlega, ólæknandi sjúkdóma. Upp úr þessu öllu segist hún hafa verið komin í einhvern þjóðfélagsgír og hugmyndin um að bjóða sig fram til Alþingis fyrir Sjálfstæðisflokkinn fæddist. Þetta gerðist 2013 og þar með var hún búin að taka skrefið út í stjórnmálin. “Ég var í þeim heimi í tæp fjögur ár og náði mér í töluverða reynslu. Ég bauð mig fram aftur í næsta prófkjöri en náði ekki sæti. Það voru auðvitað viss vonbrigði en þá áttaði ég mig á að málflutningur minn hafði ekki náð eyrum kjósenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokks í Suðurvesturkjördæmi. Í hjarta mínu vissi ég að þetta var það sem ég vildi segja og gat ekki gert öðruvísi. Ég fann auðvitað út að maður verður að taka tillit til rosalega margra sjónarmiða og þá getur krafturinn farið úr áætluninni sem maður búinn að einsetja sér,” segir Elín. “Og sem nýr þingmaður er maður neðarlega í goggunarröðinni, þannig er það bara og lítið við því að gera. Þá sá ég að ég ætti að fara að gera eitthvað annað og það var bara allt í lagi,” segir Elín brosandi og ljóst er að hún burðast ekki með byrðar vonbrigða á bakinu inn í framtíðina. “Ég held að ég sé að gera miklu meira gagn með því sem ég er að vinna við núna en ég gerði á meðan ég var á þingi. Aðrir blómstra þar og gera sannarlega gagn en ég prófaði og komst að því að ég þyrfti að finna ástríðu minni farveg annars staðar.”

Tilviljun réði næsta skrefi

Eftir prófkjörið fór Elín í hópi þingmanna til New York á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna þar sem hún var í tvær vikur. “Þá var virkilega að brjótast í mér hvað ég ætti að taka mér næst fyrir hendur nú þegar ég

Það gengur á ýmsu hjá framleiðanda á meðan á upptökum stendur, þarna datt Elín óvart aftur fyrir sig í miðjum upptökum í Nettó fyrir loftslagsþættina. Hún segist sem betur fer hafa verið fyrir,,aftan“ myndavélina en ekki fyrir framan hana eins og hún hefur vanist undanfarna 3 áratugi.

náði ekki sætinu fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ég verð að viðurkenna að ég var orðin svolítið lúin á því að hafa verið í allra eigu í áratugi. Það átta sig ekki allir á því hvað í því felst að vera “opinber persóna”. Fyrst var ég áberandi í fjölmiðlum og svo komin á þing og það fylgir þessum störfum mikil ábyrgð. Við erum öll mannleg . Maður verður að vera tilbúinn til að sætta sig við það að eiga líf sitt ekki alveg sjálfur eins og áður.”

Loftslagsmálin tóku hug Elínar

Á þinginu í New York var mikið verið að fjalla um loftslagsmálin að sögn Elínar. “Þau voru þá einkennilega lítið komin á dagskrá hér á landi,” segir hún. “Þetta var 2016 en síðan höfum við öll orðið meira meðvituð um þessa miklu vá. Ég hugsaði með mér að þarna væri tækifæri til að búa til gott efni fyrir sjónvarpsáhorfendur á Íslandi. Þegar ég kom heim hringdi ég í Þórhall Gunnarsson, sem þá var orðinn framkvæmdastjóri hjá Sagafilm, og bar upp við hann þessa hugmynd. Honum leist strax mjög vel á málið og úr varð að við gerðum stóra þáttröð um loftslagsvána sem að okkur steðjar í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Nú er ekki síður þörf á þeirri áminningu og þessa dagana er einmitt að koma út önnur sjónvarpssería frá okkur hjá Sagafilm um þessi mál.

Fer alla leið

Þegar viðtalið fór fram var Elín að koma úr vinnunni þar sem var í gangi framleiðslan á nýju seríunni sem heitir “Hvað getum við gert”. Fyrri serían hét hins vegar Hvað höfum við gert? Sævar Helgi Bragason er

Á leið á skíði með samstarfskonum hjá Sagafilm.

umsjónarmaður eins og í fyrri þáttaröðinni sem var sýnd á RÚV 2019. Nýja þáttaröðin með sama sniði en setur fókusinn, eins og nafnið gefur til kynna, á að finna lausnir við loftslagsvandanum. Tinna Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri hjá Sagafilm er ritstjóri með Elínu. Þær hafa séð um að afla fjár, þróa þættina og framleiða þá ásamt frábæru samstarfsfólks hjá Sagafilm. Hún segist vera mjög sátt við að verja tíma sínum í málefni sem hún veit að skiptir miklu máli fyrir okkur og afkomendur okkar. “Mér finnst ég vera að gera gagn. Við einblínum á umhverfismálin og loftslagsmálin og í ljós hefur komið að við vissum sjálf allt of lítið um þessi mikilvægu mál. Nú vitum við að auðvitað eru aðrir á sama báti sem auðveldar okkur að sjá skýrt hvar þörfin er og hversu mikilvægt er að fræða fólk. Fræðslan um þessi mál snýst ekki síst um valdeflingu, ,þá ég við að maður geti myndað sér skoðanir og tekið þátt í umræðu um mál sem eru flókin og frekar ný fyrir mörg okkar. Það er undirstaða þess að við getum nýtt okkur okkar lýðræðislega rétt til að kjósa fólk til forystu fyrir þetta land sem skilur þessi mál og er tilbúið að mæta þeim áskorunum sem fylgja loftslagsmálunum. Þetta er stærsta áskorun okkar tíma og við verðum öll að hafa viljaþrek og þor til að mæta henni. Og svo er auðvitað frábært að vera hluti af þeirri kynslóð sem breytti um kúrs

Umræðan á Íslandi þurfti súrefni

Elín segir að í ljós hafi komið að fólk var svo tilbúið að fá upplýsingarnar sem þau höfðu fram að færa. “Kynslóðin á undan okkur kynntist allt annarri tilveru en við höfum upplifað. Hún kynntist stríðsárunum og vöntuninni á öllum sviðum. Ég hef aftur á móti bara kynnst því að fá marga jólapakka en ekki bara einn. Við hér á Íslandi erum þvílíkir lukkunnar pamfílar hvað varðar landið okkar og auðlindirnar sem það gefur okkur. En við erum föst í neyslu þar sem ótrúleg sóun gerir að verkum að við erum að skemma fyrir börnunum okkar með því að sópa upp auðlindum Jarðar. Allt sem við tökum af jörðinni verðum við að getað skilað henni aftur. Ég var sko ekki manna best hvað þetta varðar en ég finn hvað ég get notað reynslu mína vel til góðs, bæði úr fjölmiðlunum og líka stjórnmálunum og það er góð tilfinning. Ég reyni líka að gera mitt besta til breyta mínum eigin lifnaðarháttum. Við verðum öll að leggjast á eitt í að leysa loftslagsvandann.

Nokkrar heimildamyndir

Elín hefur gert heimildamyndir í gegnum tíðina eða sjö talsins. Mynd hennar um spænsku veikina verður endursýnd á RÚV nú í febrúar. En eins og allir vita er nokkur samsvörun með þeirri veiki og covid 19

Lógóið fyrir nýja þáttinn.

veikinni. Önnur mynd sem hún gerði hét Stofnfruman sem var um stofnfrumuskipti sem Íslendingar eru framarlega í. Hún gerði líka kvikmynd um vesturfarana en hún fór og leitaði að fjarskyldum ættingjum. Hún átti forfeður sem fluttust til Vesturheims og hún lagðist í vinnuna að finna þetta fólk og svo var haldið ættarmót á Heklu eyju.

Elín skrifaði einnig sögu Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur biskupsdóttur 2012 sem var tillegg hennar í þetta mikilvæga málefni sem kynferðisofbeldi er og bókin Barnið þitt er á lífi sem er saga bosnískra flóttamanna og velgjörðarmanna þeirra í Bolungarvík.

Er sextug og fráskilin

Elín varð sextug síðastliðið haust og segist finna fyrir miklum krafti og er tilbúin í spennandi verkefni í framtíðinni. “Ég og eiginmaður minn til 35 ára ákváðum að tímabært væri að halda hvort í sína áttina. Ef ekki er sameiginlegur hljómgrunnur sem er nauðsynlegur í hverju hjónabandi þá er best að leiðir skilji,” segir Elín og brosir en tekur fram að auðvitað haldi tengslin alltaf áfram í gegnum börn og barnabörn. “Ég er virkilega þakklát fyrir að vera við góða heilsu og hafa mikla starfsorku því það er sannarlega ekki sjálfgefið. Á meðan er ég staðráðin í að nýta allt sem ég hef fram að færa til góðs fyrir samfélagið,” segir Elín sem hefur leitað víða að leiðum til að gera einmitt það og fann sína fjöl í að búa til fræðslumyndir eins og Hvað höfum við gert? og nú Hvað getum við gert?, en nýja þáttaröðin verður frumsýnd á RÚV mánudagskvöldið 1. febrúar.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 29, 2021 08:27