Litla saumastofan – fljót og góð þjónusta  

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Undanfarin tuttugu ár hef ég átt tvö heimili. Í byrjun tengdist það störfum okkar sambýlisfólksins, en núna finnst okkur það bara ósköp þægilegt að eiga athvarf bæði fyrir norðan og sunnan. Ég er stundum spurð að því hvorum megin fjalla mér finnist ég eiga heima. Þá er svarið mitt eftirfarandi – Ég á heima þar sem saumavélin mín er. Hún er fyrir norðan.

Þessi saumavél er fimmtug, gjöf frá foreldrum mínum. Hún hefur elst ótrúlega vel. Hún hefur verið smurð tvisvar eða þrisvar og gengur og gengur. Hún var framleidd áður en að framleiðendur ákváðu að 10 ára líftími véla væri hæfilegur.

Ef saumavélar gætu talað, myndi mín geta sagt lífssögu mína út frá þeim verkefnum sem ég hef falið henni. Fyrsti kaflinn myndi fjalla um bleyjuföldun og barnasængurföt, flónelsnáttfatagerð og breytingar á óléttukjólum í létta sumarkjóla. Hátindurinn á þessu tímabili vélarinnar var vinna við brúðarkjól eigandans.

Næsti kafli myndi fjalla um BSRB-verkfallið fræga, þegar undirrituð átti ekki peninga til þess að kaupa jólagjafir handa fjölskyldunni. Þá kom annasamur kafli lífi saumavélarinnar. Framleiðsla á fallegum svuntum fyrir unga sem aldna. Sumar eru enn í notkun, áratugum seinna.

Þegar ömmustelpurnar fæddust tók við tími kjóla- og kápuframleiðslu í rauðu og bleiku. Það var ekkert gefið eftir. Þeirra biðu nýir kjólar í hverri heimsókn, sumarpils, toppar og stuttbuxur. Vélin var hálf móð á þessum tímabili og ég fór með hana í viðgerð. Þá var mér sagt að það væri sniðugt að smyrja svona vél af og til. Þessi elska hafði unnið smurningarlaus í þrjátíu ár!

Þegar allt hrundi árið 2008 ákvað ég að kaupa engin föt í eitt ár. Ég stóð við það með hjálp saumavélarinnar. Ég fer vel með föt og á þau lengi. Ég skoðaði innihald skápanna og fann þar ýmsilegt sem hægt var að taka strax í notkun og annað sem þurfti breytinga við. Eftirminnilegust var svört, klassísk Burberry-kápa sem hafði hangið lengi ónotuð í skápnum. Ég hafði lagt henni af því að hún var of síð miðað við tískuna þá. Vélin góða og skæri voru tekin fram og á tíu mínútum var kápan komin í rétta sídd og öðlaðist þar með fimm ára líftíma til viðbótar.

Í dag segist ég reka lítið fyrirtæki sem heitir Litla saumastofan með lögfestu í eldhúsinu fyrir norðan. Reksturinn gengur út á endurgjaldslausa viðgerðarþjónustu fyrir stórfjölskylduna. Ég fæ fulla poka með buxum sem þarf að stytta, bæta eða skipta um rennilás í, æfingagalla af strákunum með hnéin út úr, jakka með saumsprettum og gardínur sem þarf að falda. Fljót og góð þjónusta.

Þessi viðgerðarþjónusta veitir mér ótrúlega mikla gleði og þakklæti. Ég er svo þakklát mömmu minni sem kenndi mér að sauma. Ég fékk að eiga gamlar upplitaðar kápur af ömmu, sem ég æfði mig á. Síðan fór ég að kaupa efni og framleiða mína eigin kjóla undir handleiðslu mömmu. Ég man enn það sem hún sagði, þegar hún útskrifaði mig úr saumaskólanum.“Nú ert þú orðin betri en ég og framvegis sérðu sjálf um allan fatasaum á þig“. Hún stóð við þetta og án mömmu væri gleðigjafinn Litla saumastofan ekki til.

Sigrún Stefánsdóttir nóvember 15, 2019 15:04