Hvenær fer fólk að fá sér „nap“?  

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

 

Við sitjum á kaffihúsi í iðandi mannlífinu í Róm þegar ungi ferðalangurinn spyr ömmu sína óvæntrar spurningar – Hvenær fer fólk að fá sér „nap“? Í fyrst meðtók ég ekki spurninguna. Jú, hann er að spyrja mig um það hvenær á lífsleiðinni fólk fer að leggja sig og fá sér blund um miðjan daginn.

Ástæðan fyrir spurningunni er örugglega viku ferðalag með afa og ömmu sem leggja sig síðdegis þegar það er hvað heitast og kalla það „síestu“ að hætti heimamanna. Reyndar er það bara hallærisleg afsökun. Undanfarin ár höfum við gjarnan fengið okkur blund síðdegis en ekkert verið að flagga því.  Eina manneskjan sem hefur vitað af þessum veikleika okkar er systir mín. Þegar hún sér að gluggatjöldin eru dregin niður sleppir hún því að líta við hjá okkur. Hún gerir svo grín að mér næst þegar hún hringir. Ég held að henni finnist þetta ellimerki.

En spurning drengsins er góð. Hvenær fer fólk að fá sér nap eða blund? Í sunnanverðri Evrópu leggjast heilu samfélögn í dvala síðdegis. Ekki veit ég nákvæmlega hvernig þau nota þennan tíma en ætla má að fólk fái sér blund yfir heitasta tíma dagsins.  En það þarf ekki að fara til Suður Evrópu til að fólk „kasti sér“ eins og pabbi minn kallaði það.

Goði 14 ára í Róm að velta fyrir sér nappinu

Pabbi var af gamla skólanum og kom alltaf heim í hádegismat. Hann borðaði heitan mat, hlustaði á hádegisfréttirnar og „kastaði“ sér í sófann, setti kodda yfir höfðuðið og sofnaði í örfáar mínútur. Hann sagði að þetta gerði kraftaverk. Hann lifði vel og lengi.

Í fríinu okkar í Róm var ég að lesa bók sem er ekki í frásögu færandi. Söguhetjan var hundrað ára gömul kona. Hún var búin að koma sér upp þeim vana að fá sér lúr eftir kvöldmatinn til þess að stytta tímann fram að nætursvefni.  Mér finnst kannski að það sé ansi vel í lagt og vona að það sé langt í að ég fari að gera það.

En aftur að drengnum. Hann játaði fyrir mér að hann væri mjög ánægður með þennan vana okkar, síestuna. Hún skapaði honum tíma þar sem hann gat verið í friði í símanum sínum og notið þess að enginn væri að tuða í honum. En spurningu hans er enn ósvarað. Ég veit ekki hvenær á lífsleiðinni fólk fer að fá sér síðdegisblund. Í okkar tilfelli bara gerðist það. Ég veit ekki hvernig það er hjá öðrum.

Sigrún Stefánsdóttir júlí 10, 2023 07:00