Því meiri óreiða, því betra fyrir sálina!

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fyrrverandi fjölmiðlaráðgjafi

Fyrir áratug eða svo var ég með útvarpsþáttaröð hjá RÚV sem fjallaði um fólk sem deildi ísskáp. Þetta gátu verið hjón, systkini, vinir eða samleigjendur. Ísskápurinn var hinn sameiginlegi útgangspunktur. Viðmælendurnir höfðu allir sínar sögur að segja um hvernig „hinir“ gengju um ísskápinn og hvernig þeir sjálfir gengu um þetta mikilvæga heimilistæki.

Þegar síðasta tilkynning um hertar covid-aðgerðir kom, helltist yfir mig þunglyndi. Í stað þess að skríða undir sæng, tók ég stefnuna á eldhúsið, opnaði ísskápinn og reif út nokkrar hálftómar krukkur, innihaldið komið á tíma. Í ruslið með þær. Mér leið strax betur. Ég tæmdi efstu hilluna, náði í tusku og þar með var ballið byrjað.

Innst í hillunni voru krukkur með misheppnaðri, heimgerðri rifsberjasultu frá því löngu fyrir fyrstu bylgju covid og kavíartúba sem sambýlismaðurinn ætlaði augljóslega að kreista enn einu sinn til þess að ná allra  síðasta hrogninu út. Burt með þetta. Misheppnuð sulta er að eilífu misheppnuð og tóm kavíartúba fer illa í hillu. Þarna voru alls kyns smádósir sem búið var að opna og nota eina matskeið af innihaldinu í nýjan rétt. Tvö bréf með beikoni, bæði opin. Fjórar dósir með Engjaþykkni, runnar út á tíma. Þrjár áteknar dósir með sýrðum rjóma. Ég þori ekki að gera frekari játningar.

Næsta hilla var engu betri svo ég tali nú ekki um hillurnar í hurðinni. Þar var tómatsósuflaska á haus, öldruð pítusósuflaska og rifinn ostur í plasti, sem var orðinn grænn af elli. Þvílíkt heimilishald. Því meiri óreiða, því betra fyrir sálina! Þetta var farið að verða skemmtilegt. Covid má bara eiga sig.

Ég kláraði verkið, kallaði á makann og sýndi honum stolt hálftómar hillurnar. Hann brosti en sýndi afrekinu takmarkaðan áhuga. Þá var komið að frystinum sem barnabörnin gera endalaust grín að. Þau halda því fram að eitthvað hrynji út úr honum í hvert sinn sem þau nái sér í íspinna. Kenning þeirra sannaðist þegar ég opnaði hurðina. Fornleifarannsókninni miðaði vel á meðan ég fór í gegnum kjötbirgðarnar, en þegar kom að plastboxunum með matarafgöngum fór í verra. Að lokum gafst ég upp og setti boxin öll í eina hillu. Ég lofaði sjálfri mér að í næstu viku yrði ekkert keypt inn heldur yrði ráðist á eitt box á hverju kvöldi.

Mér var að detta í hug hvort við gætum  ekki stytt okkur stundir með því að reyna að giska á hvað yrði í matinn þessa plastboxaviku. Já, eitthvað verður maður að gera sér til dægrastyttingar – í þessari coviddýfu þar sem við höfum ekki einu sinni sjónvarpsútsendingar þremenninganna til þess að hlakka til.

PS: Mér brá í brún þegar ég opnaði ísskápinn áðan. Maðurinn minn er búinn að setja eggjabakkann og ostana á kolvitlausan stað samkvæmt mínu nýja skipulagi. Já, til hvers er maður að þessu?

Sigrún Stefánsdóttir nóvember 19, 2021 13:56