Loforð um litríkt vor á fordæmalausum tímum

Gullveig Sæmundsdóttir

Gullveig Sæmundsdóttir fyrrverandi ritstjóri

Ég er ekki mikil garðyrkjukona en mér þykir vænt um garðinn minn og reyni að sjá til þess að hann sé í þokkalegu standi. Með árunum hef ég hins vegar orðið sífellt umburðarlyndari og geri ekki lengur sömu kröfur og áður um hvað í því felst að garðurinn sé í “þokkalegu standi”. Reyndar hefur grasflötin aldrei litið betur út en þegar litlir strákar notuð hana sem knattspyrnuvöll. Vandinn var hins vegar sá að mörkin voru limgerði sem afmarkaði lóðina og eftir því sem ungu knattspyrnumönnunum óx ásmegin lét limgerðið sífellt meira á sjá. En síðan eru liðin mörg ár. Ungu knattspyrnumennirnir eru orðnir harðfullorðnir menn, limgerðið úr sér vaxið og mosi hefur hertekið grasflötina.

Síðastliðið haust varð ég mér úti um haustlauka eins og ég hef gert mörg undanfarin ár. Slíkir laukar hafa á einhverjum stöðum verið seldir undir slagorðinu “loforð um litríkt vor” og eftir langan og dimman vetur finnst mér gott að fylgjast með litlum grænum sprotum stinga sér upp úr snjónum og moldinni og verða að litríkum og fallegum blómum. Í ár var eftirvæntingin meiri en ella enda “fordæmalausir tímar” og aldrei að vita við hverju mætti búast. Þegar veiran hertók líf og tilveru okkar í mars bólaði ekkert á laukunum mínum enda enn harðasti vetur. En eftir því sem vikurnar liðu og veiran tók að láta undan síga fóru laukarnir að minna á að loforðið sem fylgdi þegar ég keypti þá myndi líklega rætast. Fyrst blómstruðu krókusarnir, síðan páskaliljurnar og nú hafa túlípanarnir tekið við og gleðja mitt geð eins og spörfuglarnir sem eru á vappi í kringum húsið og syngja vorinu og sumrinu lof og dýrð. En þó að vorið sé komið og grundirnar grói er ljóst að allt er breytt og veröld sem var kemur aldrei aftur. Sumar mun fylgja vori, síðan haust og vetur en ekki í þeirri mynd sem við höfum þekkt. Sem betur fer eru vísindamenn og sérfræðingar um heim allan að leita lausna á þessum alvarlega vanda og ég trúi því að framundan séu bjartari tímar.

Þó að enn séu óveðurský á lofti og óljóst hvað framtíðin ber í skauti sér hafa þessir fordæmalausu tímar breytt til betri vegar ýmsu sem varðar mannleg samskipti og viðhorfi okkar til lífsins og tilverunnar. Að sjálfsögðu tala ég fyrst og fremst fyrir sjálfa mig og lýsi eigin skoðunum og viðhorfum. Við setningu samskiptabanns breyttist margt í daglegu lífi mínu. Ég gat ekki lengur farið í leikfimi, heldur ekki til sjúkraþjáfara og spilakvöld og fundir sem ég sæki reglulega voru ekki lengur á dagskránni. Samskipti við vini og vandamenn voru líka mun minni en venjulega og mér þótti og þykir enn erfitt að geta ekki faðmað son minn og hans fólk. Ég er hins vegar ekki þeirra gerðar að ég sitji með hendur í skauti og láti mér leiðast. Af eðlislægri þörf fyrir að hreyfa mig og hvatningu frá “Þríeykinu” fór ég að stunda daglegar göngur sem fyrr en varði höfðu bæði tilgang og merkingu. Ég hef búið í áratugi á sama stað og taldi mig þekkja bæjarfélagið nokkuð vel. Fljótlega kom í ljós að sú var ekki raunin. Þó að ég þekki flestar gönguleiðir og götuheiti hafði ég ekki tekið eftir ýmsu sem fyrir augu og eyru bar fyrr en ég fór að ganga um bæinn. Ég uppgötvaði til dæmis hvað byggingarstíll er ólíkur eftir hverfum í bænum og komst að því hve víða er að finna opin leiksvæði fyrir börn. Ég naut þess líka sem aldrei fyrr að ganga í kringum vatn sem er í bæjarlandinu. Eftir því sem göngurnar urðu fleiri og nær dró vorinu var það hins vegar náttúran sem ég fór að líta öðrum augum en áður. Ég velti fyrir mér upptökum lækjanna sem ég gekk fram hjá, hvaðan vatnið kæmi sem rennur í Vífilsstaðavatn og fylgdist með komu ýmissa fuglategunda til landsins. Ég sá líka að fuglalífið er mismunandi mikið eftir bæjarhlutum. Oftast gekk ég ein, stundum með manninum mínum og líka með góðum vinkonum.

Hápunktur dagsins þessa furðulegu daga voru hins vegar bréf sem mér bárust daglega. Mér datt í hug að fá tólf vinkonur mínar til liðs við mig og við myndum skrifa til skiptis bréf sem bærust hópnum daglega í tölvupósti. Á vissan hátt renndi ég blint í sjóinn hvað þetta tiltæki varðar en sem betur fer tóku vinkonurnar tillögunni vel. Skrifin hófust með því að sú sem var fyrst í stafrófsröðinni skrifaði fyrsta bréfið og síðan tók sú næsta í röðinni við kyndlinum og þegar við létum staðar numið voru bréfin orðin 39 talsins, þrjú frá hverri og einni. Fyrsta lotan gekk undir heitinu “Bréf úr útlegð”, sú næsta “Vorið vaknar” og síðasta lotan “Frelsi og nýtt upphaf”. Eins og vænta má voru skoðanir okkar og hugmyndir á svipuðum nótum en bréfin báru jafnframt persónueinkenni hverrar og einnar. Þegar upp var staðið höfðum við deilt hver með annarri atvikum, tilfinningum, skoðunum, vonum og væntingum. Mér þykir mjög vænt um þessi bréf. Annars vegar vegna þess hvað þau eru vel skrifuð og skemmtileg en ekki síst vegna þess hvað þátttakan var góð og að hver og ein var tilbúin til þess að leggja sitt af mörkum í þessar skemmtilegu vegferð.

Síðasta bréfið barst um það leyti sem létt var á samskiptabanni í byrjun mánaðarins. Takturinn í tilverunni breytist líka hjá mörgum á vorin og ný viðfangsefni og markmið hafa tekið við. Vinna mín í garðinum er svipuð í vor og verið hefur undanfarin ár. Ég hefði hins vegar ekki gengið jafn mikið úti og bréfaskriftirnar hefðu líklega ekki komið til nema vegna þessara fordæmalausu tíma sem sýnir vel að erfiðleikar geta oft kveikt nýjar hugmyndir og skapað jákvæðar venjur.

 

Gullveig Sæmundsdóttir júní 1, 2020 12:40