Lífsháski á gönguför

Gullveig Sæmundsdóttir

Gullveig Sæmundsdóttir fyrrverandi ritstjóri skrifar

Ég fer nær daglega út að ganga og finn hvað göngurnar gera mér gott – andlega og líkamlega. Í næsta nágrenni við heimili mitt eru margar og fjölbreyttar gönguleiðir og ég á ýmissa kosta völ þegar ég ákveð að hreyfa mig utandyra. Ég kýs hins vegar oftast að ganga göngustíga sem hafa verið lagðir í gegnum Garðahraun, sem er hluti Búrfellshrauns. Lengri stígurinn er eiginlega stígurinn “minn” enda geng ég trúlega oftar eftir honum en nokkur annar. Margir eiga vafalaust oftar leið þar um – en ekki gangandi. Það eru þeir sem æða um á reiðhjólum sem ég flokka sem “ógnvalda” og gera mig hrædda og öryggislausa á göngum mínum.  Stígarnir í hrauninu eru einstaklega fallegir og þeir sem hafa skipulagt þá og unnið að gerð þeirra eiga heiður skilinn fyrir hvernig þeir hafa náð að leggja malbikaða göngustíga sem hlykkjast í gegnum úfið hraunið. Fyrir bragðið gefst okkur kostur á að sameina góða og gefandi útivist og njóta jafnframt hraunsins.

Þegar ég vaknaði í morgun var bjart yfir og kjörinn göngudagur. Ég gerði mig klára; fór í úlpu og góða skó og stakk húslyklunum í vasann – og símanum! Ekki það að ég ætlaði mér að tala í símann á göngunni en miðað við fyrri reynslu og aðsteðjandi ógnir á göngustígnum þótti mér allur varinn góður. Gott að geta hringt í lögguna eða beðið um aðstoð ef á þyrfti að halda. Mér finnst gaman að hafa félagsskap á göngum mínum en nýt þess líka að ganga ein og láta hugann reika.  Á göngu minni í morgun velti ég fyrir mér hvað felst í orðinu frumkvæði og muninum á frumkvæði og stjórnsemi. Þegar ég mæti öðrum gangandi vegfarendum býð ég alltaf góðan dag. Oftast taka menn undir og brosa en sumir ganga þegjandi fram hjá mér. Nánast undantekningarlaust á ég frumkvæði að kveðjunni og kannski finnst þeim sem ekki taka undir orð mín vera truflandi – jafnvel bera vott um stjórnsemi.

En það eru sannarlega ekki gangandi vegfarendur sem ógna tilverunni á göngustígnum, hvort sem þeir taka undir kveðju mína eða ekki. Þeir eru aðeins lítið brot af þeim fjölda sem eiga leið um stíginn. Ég nýt þess að sjá þá og býð þeim brosandi góðan dag hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Samkvæmt óvísindalegri könnun minni eru karlmenn í meirihluta þeirra sem ganga um stíginn, konur á mínum aldri sjást þar varla og börn sárasjaldan; nema um helgar þegar foreldrarnir rölta með þau í vagni eða kerru.

Þar sem ég gekk í rólegheitum stíginn í morgun mætti mér fyrsta ógn dagsins. Á móti mér kom maður á reiðhjóli á ógnarhraða, klæddur skrautlegum hjólafötum, með hjálm og boginn í baki eins og þeir sem keppa í hjólreiðum. Honum lá greinilega lífið á og vindgustur fylgdi honum þar sem hann æddi fram hjá mér. Þessi var sá fyrsti en sannarlega ekki sá síðasti sem geystist fram hjá mér. Reyndar finnst mér ögn skárra að mæta “ógnvöldunum” en að þeir komi aftan að mér. Svo það sé á hreinu þá nota ég orðið “ógnvaldur” bæði um karla og konur sem stefna lífi mínu, og annarra gangandi vegfarenda, í hættu með tillitslausum glannaskap á stíg sem ætlaður er bæði gangandi og hjólandi vegfarendum.  Því miður eru engar merkingar við stígana í hrauninu sem gefa til kynna hraðatakmarkanir og heldur engar merkingar sem minna menn á að sýna öðrum vegfarendum tillitssemi. Hinsvegar er merking við stíginn sem minnir á að bannað sé að vera með lausa hunda á stígnum og ég hef aldrei orðið vör við að það bann sé virt að vettugi.

Verst þykir mér þegar hólreiðamenn eru nokkrir saman í hóp. Komi þeir aftan að mér gefur yfirleitt einhver þeirra merki þannig að ég næ að koma mér utar á stíginn en stundum er atgangurinn í hjólaliðinu svo mikill að ég forða mér nánast út í hraunið sem sannarlega er ekki hættulaust fyrir konu á virðulegum aldri. Öllu verra er að mæta þeim þar sem þeim virðist þykja bæði sjálfsagt og eðlilegt að gangandi vegfarandi víkji. Síðasti hluti göngu minnar þegar hraunstígnum sleppir er eftir gangstéttum eða stígum sem liggja á milli gatna. Ég hef sjaldan orðið vör við hjólreiðamenn á gangstéttunum en þegar komið er á stígana sem taka við er eins gott að vera viðbúinn. Þegar ég kom á einn slíkan í morgun mætti mér elskulegt par sem bauð meira að segja góðan dag að fyrrabragði 😊. Varla hafði ég snúið baki við þeim þegar tveir reiðhjólakappar komu æðandi á móti mér. Ég náði að forða mér en varð um leið litið í áttina að parinu elskulega sem ég sá hrökklast af stígnum þegar ógnvaldarnir komu æðandi.

Því miður óttast ég að ekkert verði gert til þess að draga úr hraða hjólreiðamanna á göngustígum almennt fyrr en einhver þeirra verður svo óheppinn að hjóla á gangandi vegfaranda sem jafnvel mun ekki kemba hærurnar eftir að hafa orðið fyrir reiðhjóli á fleygiferð og henst jafnvel út í úfið hraun. Þá yrði líklega ekki einfalt að kalla á hjálp – jafnvel þó að fórnarlambið hafi verið forsjált og stungið gemsanum á sig.

Gullveig Sæmundsdóttir september 19, 2022 07:00