Lyf gegn Alzheimer á lokastigi prófana

Jón G. Snædal

Jón G. Snædal

„Menn eru heldur bjartsýnni núna en fyrir nokkrum árum um að fram komi áhrifaríkari meðferð við Alzheimer‘s sjúkdómi en nú er hægt að veita. Það eru fáein lyf á lokastigi prófana,“ segir Jón G. Snædal, yfirlæknir  öldrunarsviðs Landspítalans. „Þessi lyf eru í svokallaðri 3ja stigs rannsókn sem er stór. Þá eru hundruðum sjúklinga gefin lyfin í nokkuð langan tíma eða yfirleitt í um eitt ár,“ segir Jón og bætir við að það líði mörg ár frá því rannsóknir hefjist og þangað til niðurstöður liggja fyrir. „Líklegt er að niðurstöður úr einhverjum rannsóknum á lyfjum gegn Alzeimer, liggi fyrir  á næsta ári. Þessi lyf byggja á þeirri tilgátu að upphleðsla amyloids valdi miklu um sjúkdóminn. Amyloid er keðja um fjörutíu amínósýra,“ segir Jón.

RÚV sagði frá því í fréttum í vikunni að lækning við Alzheimer kynni að vera á næsta leiti.„Visindamenn við Duke háskólann í Bandaríkjunum hafa fundið hugsanlega orsök sjúkdómsins, sem gæti leitt til þess að hægt verði að búa til lyf gegn honum. Vísindamennirnir komust að því að ónæmisfrumur sem venjulega verja heilann, innbyrða þess í stað arginín, lífsnauðsynlega amínósýru sem hjálpar til við skiptingu frumna, viðbrögð ónæmiskerfisins og hjálpa líkamanum að gróa,“ sagði í fréttum RÚV sem lét þess og getið að nú væri verið væri að prófa lyfið á músum.

Jón kannast við þessa rannsókn hann segir að hún sé styttara á veg komin en ýmsar aðrar rannsóknir á sjúkdómnum og lyfjum gegn honum. „Þessi Alzheimer66rannsókn byggir á hugmyndum um virkni ónæmisfruma og er meðal annars tilkomin vegna niðurstöðu úr erfðarannsóknum sem voru framkvæmdar hér á landi. Mýs eru ekki menn og hefur það sannast hvað eftir annað í Alzheimer rannsóknum. Rannsóknir á músum geta þó gefið vísbendingu um hvort menn eru á réttri leið. Tíminn frá niðurstöðu úr dýratilraun og þar til lyf er komið á markað er sjaldnast skemmra en áratugur og því ljóst að þótt þessar rannsóknir reynist vera haldbærar þurfum við að bíða lengi eftir gagnsemi fyrir sjúklinga almennt. Hugtakið „á næsta leiti,“ er því dálítið teygjanlegt,“ segir Jón.

 

Ritstjórn apríl 17, 2015 15:56