Kona fer til læknis

Guðrún Steinþórsdóttir

„Reynslusögur kvenna vitna oft um að það sé  ákveðin staðalímynd af konum að  þær séu móðursjúkar, kvartsárar og því eigi læknar ekki að hlusta á þær,“ segir Guðrún Steinþórsdóttir doktorsnemi í bókmenntum  og stundakennari við Háskóla Íslands. Guðrún segir að víða á netinu sé að finna sögur kvenna af samskiptum þeirra við lækna. „Konur spyrja oft aðrar konur hvort að þær kannist við að íslenskir læknar hafi ekki tekið mark á þeim? Þegar slíkar spurningar eru bornar fram koma oft margar reynslusögur sem eiga það sameiginlegt að konurnar segja að  læknarnir hafi ekki hlustað á þær, ekki tekið mark á þeim og ekki talið þörf á frekari rannsóknum,“ segir Guðrún og bætir við að rannsóknir bendi til að körlum sé betur sinnt innan heilbrigðiskerfisins. „Samkvæmt rannsóknum fá karlar lengri viðtalstíma hjá læknum en konur og þeir eru oftar sendir í rannsóknir til að reyna að fá botn í hvað hrjáir þá. Það er frekar leitað að mismunandi sjúkdómsgreiningum hjá körlum en konum.“

Guðrún segir líka að það virðist skipta máli hvers kyns læknar eru rannsóknir sýni að kvenkyns læknar gefi sér oft betri tíma til að ræða við sjúklinga en karlarnir.

Guðrún var með fyrirlestur í Þjóðminjasafninu nýlega sem hún kallaði Kona fer til læknis í fyrirlestrinum fjallaði hún um þessi mál.  Hún segir að þó að sögur kvenna af samskiptum þeirra við lækna  hafi ekki verið birtar formlega undir formerkjum MeToo-hreyfingarinnar kallast þær í mörgu á við frásagnir sem tengjast henni því að höfundarnir eigi það sameiginlegt að hafa upplifað misrétti vegna kyns síns. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hvernig komið er á mismunandi hátt fram við konur og karla í heilbrigðiskerfinu, rætt um hugsanlegar ástæður þess og afleiðingar og hvernig bókmenntafræði getur kannski gagnast til að betrumbæta samskiptin í framtíðinni.

 „Í þessum fyrirlestri fór ég út um víðan völl og kom með dæmi af netinu þar sem konur voru að tjá sig um þessi mál. Ég reyndi að setja þetta í sögulegt og menningarlegt samhengi og gerði  tilraun til að útskýra hver staðan í heilbrigðiskerfinu er og innan rannsóknarsviðs læknisfræðinnar og hverju þurfi að breyta.“

Guðrún segir að það sé mikilvægt að skoða þessi mál og ræða opinskátt. Læknar þurfi að verða meðvitaðir um hvaða áhrif þeir geti haft á sjúklinga sína.  „Það er ekki svo langt síðan læknisfræðin var mjög karllæg grein en það er að breytast hratt því konur sem útskrifast sem læknar fjölgar hratt. Fyrir aldamót var farið að kenna kúrs í samskiptafræði í læknisfræðinni, fyrst var þetta lítill kúrs  en á síðustu árum hefur kennsla í samskiptum verið aukin til mikilla muna. Það verður spennandi að sjá hvað gerist þegar konum í stéttinni fjölgar. Alla síðustu öld urðu gríðarlegar framfarir í læknisfræðinni en á sama tíma var lögð mikil áhersla á rannsóknir en sjúklingurinn gleymdist svolítið. Það gleymdist svolítið að skoða hvaða áhrif sjúkdómar hafa á fólk og líf þess. Menn gleymdu svolítið samskiptunum,“ segir Guðrún.

Ritstjórn október 31, 2018 10:12