Eftirfarandi grein er unnin uppúr tveimur greinum sem birtust fyrst á vef Tryggingamiðstöðvarinnar, timamot.is. Við ákváðum að deila þessu efni hér, enda áhugavert þegar Margrét Pála Ólafsdóttir leggur orð í belg um uppeldismál, ekki síst hlutverk afa og ömmu. Margrét Pála segir ömmur og afa vera mikilvægasta uppeldisaflið i í lífi barna á Vesturlöndum nú og næstu áratugi. En hvernig breytist hlutverk þeirra með aukinni ábyrgð og hver setur reglurnar í uppeldinu?
„Ég las nýverið að afar og ömmur séu mikilvægasta uppeldisaflið í lífi barna á vesturlöndunum,“ segir Margrét Pála, amma og mennta- og uppeldisfræðingur. Hún er fyrir löngu þjóðþekkt fyrir störf sín með börnum sem kennari og skólastjóri, höfundur Hjallastefnunnar, fyrirlesari og álitsgjafi, með fjörutíu ára ferðalag með barnafjölskyldum að baki.
Margrét Pála segir það mikilvægt æviskeið að vera amma og eitt skemmtilegasta hlutverk sem manni hlotnast á lífsleiðinni, en hún á fimm barnabörn á aldrinum tveggja til tuttugu ára. „Ég elska að vera amma. Það eina sem við ömmur og afar þurfum að gera er að elska þessi börn og það skilyrðislaust. Við megum alveg dekra við þau aðeins og hafa reglurnar aðeins öðruvísi en reglur foreldranna.“
En hver ræður? er spurning sem Magga Pála hefur oft fengið að heyra frá foreldrum sem leita ráða þegar ömmur og afar vilja líka vera uppeldisafl í lífi barnabarnanna. „Foreldrarnir ráða, það er mjög skýr valdaröð. Ef hins vegar mamma og pabbi eru ekki á staðnum þá lúta börnin okkar reglum. Þetta er ótrúlega mikilvæg regla en börnin eru fljót að læra hvaða reglur gilda og hver ræður hverju sinni. Þegar foreldrarnir eru á staðnum þá erum við hjálparkokkar — en ótrúlega mikilvæg.“
Margrét Pála segir margt hafa breyst frá því hún hóf störf sem fóstra. Á þeim tíma sást varla karlmaður nálægt leikskóla, en í dag sér hún mömmur og pabba til jafns, nokkrar ömmur og marga afa. Hún þekkir það af eigin reynslu hvernig það er að öðlast nýtt tækifæri með hverju barnabarni og þá hamingju sem felst í að vera til staðar.
„Þegar ég var að byrja í þessu fagi og einhver sá karlmann nálægt leikskóla, þá voru allar líkur á að það væri mjólkursendillinn eða iðnaðarmaðurinn,“ segir Magga Pála. Nú er tíðin önnur. „Ég sé bæði pabba og mömmur, ég sé stundum ömmur en afana sé ég afskaplega oft. Ég sé hvernig þeir leiftra af hamingju sem þeir fengu kannski ekki að njóta þegar þeirra eigin börn voru lítil. Það sem þeir elska þessi börn og njóta þess að vera með þeim! Þetta gefur mér von um að yngri karlmenn sjái þá sem fyrirmynd og átti sig á því að það gæti verið gaman að byrja fyrr.“
Sjálf var Magga Pála aðeins sautján ára þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn. „Ég var svo ung og þetta var svo óvart. Það hljómar eins og ég hafi verið alveg hræðileg,“ segir hún hlæjandi og heldur áfram. „Nú er hún búin að færa mér fimm barnabörn. Hvert einasta þeirra er fyrir mér eins og annað tækifæri.“ Magga Pála ætlar sér heldur ekki að missa af barnabarnabörnunum. „Ég ætla nefnilega að verða svo gömul. Því hvað sem okkur finnst um það, þó það kunni að hljóma afskaplega gamaldags, þá eru börn ákveðinn kjarni tilveru okkar.“
Sjá einnig viðtal við Margréti Pálu um hlutverk ömmu og afa.