Samband manna við dýrin getur verið margslungið og oft einkar fallegt. Margir rithöfundar hafa gert sér mat úr því en líklega enginn á sama hátt og Gerald Durrell. Þekktastur er hann fyrir Corfu-þríleikinn, sjálfsævisögulegar bækur byggðar upp í kringum ár fjölskyldunnar á grísku eyjunni. Nú hefur verið gerð sjónvarpsþáttaröð upp úr þessum sögum og nýtur hún mikilla vinsælda í Bretlandi og víðar.

Gerald Durrell vann með dýr allt sitt líf og ástríða hans fyrir velferð þeirra var alltaf söm.
Ein bóka Durrells, Fólkið mitt og fleiri dýr, kom út í íslenskri þýðingu Sigríðar Thorlacius árið 1979. Framhald hennar er Birds, Beasts and Relatives og sú síðasta The Garden of the Gods. Lífið á grísku eyjunni er afslappað og ylur frá sól og öðrum manneskjum notalega vermandi. Gerry er aðeins tíu ára þegar fjölskyldan flyst þangað. Hann er uppteknari af náttúrunni en fólkinu sínu og í raun hefur hver fjölskyldumeðlimur sitt áhugamál og sérsvið.
Larry skrifar, Leslie trampar um með byssur, grípur einnig í ljósmyndun og málningarpensil og Margo kreistir bólurnar í andlitinu og veltir fyrir sér nýjustu tísku. Þessar bækur er einstaklega skemmtilega skrifaðar og lesandanum líður vel lengi að lestri loknum. Þær endurspegla þó ekki raunveruleikann nema að litlu leyti. Sannleikurinn er sá að móðirin drakk illa. Fjölskyldan verður til í Indlandi meðan það var undir bresku krúnunni. Faðirinn, Lawrence Durrell eldri, var verkfræðingur og ferðaðist um og vann að ýmsum mannvirkjum. Louisa, móðirin, varð fyrir þeirri miklu sorg að missa dóttur úr barnaveiki árið 1915 og síðan manninn árið 1928.
Lawrence yngri, var þá í skóla í Bretlandi og fjölskyldan flyst til Bournemouth. Louisa var mjög þunglynd og síðar sagði hún frá því að hún hefði íhugað sjálfsmorð á þessum tíma en hætt við vegna Gerrys. Lawrence leist ekki á ástand móður sinnar svo hann leggur til að þau flytji til Corfu árið 1935. Hann var þá kvæntur fyrstu konu sinni, Nancy, og bjó aldrei í húsinu með móður sinni og systkinum. Þótt Louisa héldi áfram að drekka leið fjölskyldunni þó vel næstu fimm árin en þá flúðu þau framrás fasista í Grikklandi til Bretlands. Larry varð seinna þekktur rithöfundur og diplómat, Gerry dýragarðsfræðingur og þekktur fyrir að breyta ásýnd slíkra garða varanlega með því að bæta mjög aðstæður dýranna. Bækur hans urðu meira en þrjátíu að tölu áður en yfir lauk en allur ágóði af sölu þeirra rann í sjóð til að styrkja villt dýr víða um heim.
Margo stofnaði gistiheimili í Bournemouth í nágrenni við móður sína og bjó þar alla tíð. Hún var ekki sátt við þá mynd sem bróðir hennar dró upp af henni og skrifaði eigin útgáfu af ævi þeirra. Leslie eignaðist barn með grískri vinnukonu fjölskyldunnar á Corfu en varð uppvís að fjárdrætti í skóla þar sem hann vann og varð að flýja til Afríku. Hann sneri aftur til Englands og var húsvörður síðustu árin. Sjónvarpsseríuna sem gerð var eftir bókunum er hægt að fá á diskum í gegnum Amazon eða á bókasöfnum hér því sum þeirra lána enn mynddiska. Einnig eru margar af bókum Geralds til á bókasöfnum hér á landi.
Dýr í öðrum bókum
James Herriot var höfundarnafn breska dýralæknisins James Alfred Wight. Hann skrifaði ótal bækur um samskipti manna og dýra og eru bækur hans þekktar undir samheitinu, Dýrin mín stór og smá. Sjónvarpsþættir gerðir eftir þeim bókum voru sýndir á RÚV nýlega en nokkrir áratugir eru síðan RÚV sýndi fyrstu seríuna sem unnin var upp úr bókunum og margt eldra fólk man vel eftir.
Bill Bryson skrifar einstaklega skemmtilegar ferðabækur. Þar koma við sögu alls konar náttúrufyrirbæri meðal annars dýr. Í bókum Jack London, sem gerast í villta vestrinu, leika hundar stór hlutverk, White Fang er saga af ævi úlfhunds (líklega Siberian Husky) sem má þola bæði súrt og sætt af eigendum sínum og í The Call of the Wild er hundurinn Buck aðalpersónan.

Elizabeth Taylor datt af baki í töku á myndinni National Velvet og glímdi við bakveiki upp frá því.
Þorgils Gjallandi er sá Íslendingur er skrifað hefur fallegast um dýr. Saga hans Heimþrá er óskaplega áhrifamikill en Gestur Pálsson á einnig dásamlega dýrasögu, Skjóna. Þorsteini Erlingssyni var sömuleiðis annt um dýr og beitti sér fyrir betri meðferð þeirra gegnum bæði skáldskap og greinaskrifum.
Ekki er nema um það bil hálf öld síðan allar ungar stúlkur lásu og grétu yfir bókinni um Fagra Blakk eftir Anne Sewell. Þriðja kvikmyndin gerð eftir sögunni kom út árið 2020 með Mckenzie Foy í hlutverki Jo Green. Sagan af National Velvet er af svipuðum toga er bókin National Velvet eftir Enid Bagnold en hún var byggð á raunverulegum atburðum. Elizabeth Taylor lék eitt sitt fyrsta kvikmyndahlutverk í mynd gerðri eftir sögunni en hún datt af baki við tökur á myndinni og glímdi við bakveiki upp frá því. Og ekki má gleyma sögunni af selnum Snorra. Íslensk börn fá enn að heyra hana og mörg tár hafa fallið undir lestrinum. Þetta er alls ekki tæmandi listi yfir skáldsögur og sagnir sem tengjast samskiptum manna og dýra en eiga það sameiginlegt að vera til þess fallnar að vekja menn til umhugsunar um rétt dýranna til að njóta góðrar tilveru.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.